Cashewís
8. maí, 2006
Þetta er ægilega góður ís og hentar vel fyrir þá sem eru með mjólkuróþol eða vilja engar dýraafurðir og/eða eru jurtaætur (enska: vegan). Hann er troðfullur af próteinum og vítamínum og það besta er að það er enginn sykur í ísnum. Hann er ekki léttur þ.e. cashewhnetur og hafrarjómi innihalda fitu en þessi fita er ekki óholl þ.e. það er tiltölulega lítið af mettaðri fitu í hnetum og hafrarjóma og hækkar þar af leiðandi ekki slæma kólesterólið í blóðinu. Það getur meira að segja lækkað!
Athugið að þið þurfið ekki ísvél til að útbúa þessa uppskrift en nauðsynlegt er að eiga matvinnsluvél.
Ís án mjólkur, aðaluppistaðan er cashewhnetur
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Cashewís
Fyrir 3-4
Innihald
- 100 g döðlur, saxaðar gróft
- 75 ml appelsínusafi
- 2 vel þroskaðir bananar
- 75 g cashewhnetur
- 225 ml sojamjólk
- 200 ml hafrarjómi
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
Aðferð
- Saxið döðlurnar gróft og setjið í pott ásamt appelsínusafanum. Sjóðið þangað til döðlurnar verða að mauki. Kælið vel.
- Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og malið í um 30 sekúndur eða þangað til þær eru orðnar fínkornóttar og vel malaðar. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og bætið 50 ml af sojamjólkinni út í. Maukið í um 2 mínútur eða þangað til áferðin verður flauelismjúk.
- Afhýðið banana og bætið þeim út í matvinnsluvélina. Látið vélinna vinna í um 30 sekúndur. Smakkið blönduna...hún er unaðsleg!!!
- Bætið döðlunum út í matvinnsluvélina og maukið í 10 sekúndur.
- Á meðan vélin vinnur skuluð þið hella hafrarjómanum og afganginum af sojamjólkinni út í.
- Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur og setjið svo í plastbox. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
- Ef ekki er notuð ísvél:
- Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Endurtakið þangað til erfitt er orðið að hræra í blöndunni.
- Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.
Gott að hafa í huga
- Fyrir súkkulaðiútgáfu má setja 2 msk af kakói út í sem og 50 g af lífrænt framleiddu, dökku súkkulaði með hrásykri.
- Ef þið þolið mjólk getið þið notað matreiðslurjóma og undanrennu í staðinn fyrir hafrarjóma og sojamjólk. Ef þið þolið ekki glútein getið þið notað sojarjóma eða matreiðslurjóma í staðinn fyrir hafrarjómann.
- Ég nota hafrarjómann frá Oatly. Hann fæst í flestum stærri matvöruverslunum og heilsubúðum.
- Nota má möndlur (afhýddar) og macadamiahnetur í staðinn fyrir cashewhnetur.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024