Brauð með öllu mögulegu í

Þetta er fyrsta brauðið sem ég bakaði úr spelti á sínum tíma og það var bara mjög gott. Spelti er mun hollara og næringarríkara en venjulegt hveiti og sumir sem eru með hveitióþol, þola vel að borða spelti því glúteinsamsetningin í spelti er frábrugðin þeirri í hveiti. Spelti er dýrara en venjulegt hveiti en alveg þess virði því það fer mun betur í maga (finnst mér). Svo er líka hægt að blanda heilhveiti (eða byggmjöli) og spelti til helminga til að drýgja það.

Athugið að þetta brauð er frekar lítið, (best er að nota 700 ml brauðform frekar en 1 lítra).

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Brauð með öllu mögulegu í

Gerir 1 lítið brauð

Innihald

  • 250 g spelti
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 msk sítrónusafi
  • 200 ml sojamjólk
  • 50-75 ml vatn (gætuð þurft meira eða minna)
  • 55 g sólblómafræ
  • 40 g sesamfræ

Aðferð

  1. Blandið spelti, vínsteinslyftidufti og salti saman í skál.
  2. Í litla skál skuluð þið blanda saman 50 ml sojamjólk og sítrónusafanum. Látið standa á borðinu í um 10 mínútur eða þangað til mjólkin hleypur aðeins í kekki.
  3. Hellið afganginum af sojamjólkinni (100 ml) og sítrónu- sojamjólksblöndunni út í stóru skálina og hrærið varlega (rétt veltið deiginu við).
  4. Bætið vatni við deigið ef það er of þurrt (það má þó alls ekki leka af sleif og ætti að vera hægt að halda á því án þess að það leki á milli fingranna).
  5. Bætið sólblómafræjunum og sesamfræjunum út í og veltið deiginu til (ekki hræra).
  6. Klæðið lítið brauðform að innan með bökunarpappír og hellið deiginu í formið. Gætið þess að það fari vel í öll horn.
  7. Bakið við 200°C í um 30-35 mínútur (gæti þurft lengri tíma).
  8. Til að athuga hvort brauðið er tilbúið getið þið stungið hnífi í miðju þess. Ef hnífurinn kemur nánast hreinn út er brauðið tilbúið. Ef ekki má baka það í 10 mínútur í viðbót (og endurtaka þá leikinn).

Gott að hafa í huga

  • Til að fá harða skorpu allan hringinn er gott að taka brauðið úr forminu síðustu 15 mínúturnar, snúa við og leggja á bökunarpappírinn.
  • Gætið þess að deigið sé ekki of blautt, það er ágætt að miða við að deigið festist ekki við skálina ef þið hnoðið það létt.
  • Nota má önnur fræ og jafnvel hnetur í brauðið. Einnig er hægt að setja saxaðar ólífur og rifnar gulrætur í brauðið, allt eftir smekk.
  • Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
  • Ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt má sleppa sítrónusafanum.

Ummæli um uppskriftina

gestur
01. jún. 2014

æðislega flott uppskrift ætla ða profa hana í dag

sigrun
01. jún. 2014

Vona að heppnist vel hjá þér :)

Bára Mjöll
20. ágú. 2014

Ég gerði þetta brauð um daginn og 9 mánaða sonur minn hakkaði það í sig. Ég þurfti að rífa brauðið af honum hehe. Ég setti graskerfræ, hörfræ og sesamfræ. Takk æðislega fyrir okkir! :)

sigrun
20. ágú. 2014

Ha ha krútti :) Gaman að heyra hvað honum þótti það gott. Passaðu bara að hann fái ekki of mikið af trefjar úr í fræjunum því hann er svo ungur :) Það er betra að gera brauð úr fínmöluðu spelti ásamt svolitlu af grófu og svo sleppa fræjunum fyrr en hann er orðinn aðeins eldri. En ég er samt að fíla hann í botn ;)