Brauð með kryddjurtum og vorlauk

Þetta er auðvelt brauð að búa til og svolítið öðruvísi með skemmtilegri áferð af sojamjölinu. Nota má spelti í staðinn eða það sem ykkur dettur í hug en í þetta brauð passar mjög vel að nota sojamjöl. Hægt er að kaupa slíkt mjöl í heilsubúðum og heilsudeildum stærri verslana. Þið getið notað hvaða fersku krydd sem þið eigið til t.d. timian, steinselju, basil, rosemarin o.fl. Ég notaði steinselju, timian og basil. Ef þið eigið ekki fersk krydd getið þið bjargað ykkur með þurrkuð. Einnig er gott að nota ferskar kryddjurtir sem eru orðnar slappar. Ég notaði sojamjólk og sítrónusafa en ef þið notið súrmjólk, jógúrt eða AB mjólk í staðinn fyrir sojamjólk getið þið sleppt sítrónusafanum. Brauðið er svolítið þétt í sér (ekki létt) en það er bara gaman.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Brauð með kryddjurtum og vorlauk

Gerir 1 brauð

Innihald

  • 125 g spelti
  • 100 g sojamjöl
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 200 ml sojamjólk + 2 msk sojamjólk (til að pensla yfir brauðið)
  • 1 msk kókosolía
  • 2 tsk sítrónusafi (má sleppa ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt)
  • 4-5 sólþurrkaðir tómatar (ekki í olíu), saxaðir smátt
  • 3 vorlaukar, saxaðir (allt notað nema ljósi, breiði endinn neðst)
  • 3 msk ferskar kryddjurtir (t.d. timian, rosemary, steinselja), saxaðar smátt

Aðferð

  1. Blandið saman sojamjöli, spelti, vínsteinslyftidufti og salti í stóra skál.
  2. Blandið saman 50 ml sojamjólk og sítrónusafa í litla skál. Látið standa í nokkrar mínútur eða þangað til mjólkin fer að hlaupa í litla kekki.
  3. Ef þið kaupið sólþurrkaða tómata í olíu, hellið þá sjóðandi heitu vatni yfir tómatana til að láta olíuna leka af. Þerrið svo með eldhúspappír.
  4. Saxið sólþurrkuðu tómatana, kryddjurtirnar og vorlaukinn og setjið út í stóru skálina.
  5. Setjið sojamjólkina og sítrónusafann út í skálina með sojamjölinu og bætið kókosolíunni út í.
  6. Hnoðið deigið lauslega (svo að séu ekki stórar sprungur í því).
  7. Bætið afganginum af sojamjólkinni út í deigið. Þið gætuð þurft meira eða minna.
  8. Deigið á ekki að vera mjög blautt eða a.m.k. þannig að hægt sé að móta það án þess að það klístrist mikið við hendurnar.
  9. Mótið hleif úr deiginu og setjið á bökunarplötu sem búið er að klæða með bökunarpappír.
  10. Skerið grunnar raufar á ská í hleifinn með beittum hnífi.
  11. Penslið 2 msk sojamjólk yfir hleifinn.
  12. Bakið við 220°C í 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Nota má 1 msk af þurrkuðum kryddum í staðinn fyrir 3 msk af ferskum kryddjurtum.
  • Gott er að bera fram brauðið með t.d. hummus eða góðum smurosti.
  • Athugið að brauðið verður frekar þétt í sér og hentar vel í brauðristina.
  • Í staðinn fyrir sojamjólk má nota haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk, undanrennu, súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu t.d. repjuolíu.