Brauð með graskers- og sólblómafræjum

Þetta er fyrsta glúteinlausa brauðið sem ég set inn á vefinn. Ég gerði þetta brauð örugglega 100 sinnum því það misheppnaðist alltaf en þessi uppskrift á að vera skotheld! Það er mjög gott nýbakað og alveg eðalgott í brauðristina.


Brauð með graskers- og sólblómafræjum (án glúteins)

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum
 • Án hneta
 • Vegan

Brauð með graskers- og sólblómafræjum

Gerir 1 brauð

Innihald

 • 150 g hrísmjöl (enska: rice flour)
 • 150 g kartöflumjöl (enska: potato flour)
 • 150 g kjúklingabaunamjöl, (enska: gram flour/chickpea flour)
 • 50 g hirsimjöl (enska: millet flour)
 • 1,5 msk vínsteinslyftiduft
 • 1 msk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 250 ml vatn
 • 2 msk kókosolía
 • 50 g graskersfræ
 • 50 g sólblómafræ

Aðferð

 1. Blandið saman hrísmjöli, kartöflumjöli, kjúklingabaunamjöli, hirsimjöli, vínsteinslyftidufti og salti í stóra skál. Gott er að nota sigti.
 2. Bætið vatninu og kókosolíunni saman við.
 3. Deigið verður svolítið þurrt en ef það helst alls ekki saman setjið þá aðeins meira vatn. Það má samt ekki verða of blautt.
 4. Bætið graskersfræjunum og sólblómafræjunum saman við.
 5. Klæðið stórt brauðform að innan með bökunarpappír.
 6. Þrýstið nú deiginu í brauðformið, frekar þétt.
 7. Bakið í um 30-40 mínútur við 200C eða þangað til brauðið hljómar holt að innan þegar bankað er í það að neðan. Gott er að það hljómi líka hollt að innan ha ha (smá brandari).
 8. Ef þið viljið fá brúna skorpu (brauðið verður frekar ljóst) má pensla smávegis af kókosolíu yfir brauðið um 10 mínútum áður en brauðið verður tilbúið.

Gott að hafa í huga

 • Mér finnst best að nota lífrænt framleidda hrísmjölið frá Holle sem er sniðið fyrir barnagrauta, mér finnst það mun bragðbetra en hefðbundið hrísmjöl.
 • Um leið og brauðið hefur kólnað pakkið því þá inn í plast.
 • Skerið brauðið með beittum, riffluðum hnífi þegar það hefur kólnað.
 • Brauðið getur molnað svolítið þegar það er skorið svo skerið varlega.
 • Brauðið geymist ekki lengi svo best er að frysta það sem maður ætlar ekki að nota samdægurs.
 • Brauðið er mjög gott ristað.
 • Nota má önnur fræ í uppskriftina t.d. sesamfræ, hirsifræ, hörfræ o.fl.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.

Ummæli um uppskriftina

Sif
26. maí. 2012

Sæl, ég hef prófað nokkrar uppskriftir frá þér og líkað vel. Í dag er þetta á dagskrá en eru örugglega 3msk í þessu brauði og ekki tsk?

Sif
26. maí. 2012

... af lyftidufti meina ég :-)

sigrun
26. maí. 2012

Það er dálítið langt síðan ég gerði þessa uppskrift, þarf að fara að gera hana aftur. Það eru 400 g af mjöli í uppskriftinni sem er nokkuð mikið en það er rétt hjá þér að 3 msk virðist dálítið mikið. Hmmm....prófaðu 1,5 msk og sjáðu hvernig það kemur út (miðað við mjölmagnið ætti það að vera í lagi. Ég ætla líka að uppfæra uppskriftina og setja 1,5 msk). Láttu endilega vita hvernig tekst til.

Sif
26. maí. 2012

Er að blanda þessu saman og minnkaði mjölið í 400. Vantar engan vökva? Þetta er svo miklu meira en þurrt, hangir engan vegin saman.

sigrun
26. maí. 2012

Æi ég reiknaði vitlaust...það eru auðvitað 500 g af mjöli í uppskriftinni (er greinilega ekki vöknuð!). Það er í lagi að nota 400 g en rétt uppskrift er 500 g. Það útskýrir líka 3 msk af vínsteinslyftidufti...þ.e. það gæti verið ok (en það hljómar samt dálítið mikið svo haltu þig við 1,5 msk).

Bættu aðeins við af vatni (eða hrísmjólk, sojamjólk, haframjólk, venjulegri mjólk) og fylgdu leiðbeiningunum.

Vona að þetta gangi upp!