Að vera eða ekki vera nautakjöts lasagna.......

Bretar eru þessa dagana að vakna upp við vondan draum. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru búnir að vera að láta ofan í sig síðustu árin. Það er allt á öðrum endanum í Bretlandi vegna hrossakjötshneykslisins. Það er nefnilega þannig í Bretlandi að hrossakjöt þykir ekki hæft til manneldis. Ekkert frekar en hundar eða kettir. Hrossakjöts er almennt ekki neytt. Svo það eru margir sem eru að kúgast þessa dagana. Nú er komið upp úr krafsinu að líklega hafa Rúmenar verið að verki. Eða rúmönsk (og jafnvel ítölsk) glæpakeðja og jafnvel með samverkamenn í Bretlandi. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar. Nú síðast fréttist af því að börnum hefur verið gefinn þessi tilbúni matur og að í matnum hafi verið alls kyns ógeðs hrossalyf.....

Ég labba nú með bros á vör fram hjá hillunum sem áður seldu þessar tilbúnu vörur og eru nú tómar með skilaboðum frá verslunum um að í gangi sé rannsókn á orsökum þess að hrossakjöt komst í mat. Ég hef nefnilega aldrei á ævinni keypt svona tilbúinn mat. Aldrei. Einkennisorð CafeSigrun eru og hafa alltaf verið: „Hollustan hefst heima“ og það er akkúrat það sem langflestir Bretar (og örugglega Íslendingar) eru að klikka á. Ég hef ekki alltaf tíma til að elda dýrindis máltíðir með góðu jafnvægi próteina, fitu og kolvetnis....til dæmis í kvöld var ég með grjónagraut úr hýðishrísgrjónum og lífrænt framleiddri mjólk. Ég hef ekki komist út í heila viku því börnin eru veik. En frekar gef ég þeim heimatilbúinn grjónagraut heldur en tilbúinn draslmat á bakka. Það má sjóða grautinn að morgni þegar allir eru að hafa sig til og hann er tilbúinn þegar heim er komið. Það hefði verið „auðveldara“ að kaupa 10 svona tilbúna rétti á 2 fyrir 1 og frysta en ég myndi frekar bjóða börnunum upp á kryddaðan og niðurskorinn pappakassa.

Í UK er fólk í eilífu basli með heimatilbúinn mat því samgöngur eru þannig að fólk er kannski 1.5 tíma í og úr vinnu. Húsnæðisverð er afar hátt í miðborginni og t.d. er fjölskyldufólk nánast alltaf fyrir utan miðbæinn. Einn vinnufélagi Jóhannesar var 3 tíma í og úr vinnu. Hann tók rútu frá Kent og svo til baka. Samtals 6 tímar. Hvern dag. Ég þekki marga sem eru 2 tíma í og úr vinnu, það telst eðlilegt. Að hætta í vinnunni kl 18 og vera kominn heim kl 20. Ef lestarnar ákveða að þola rigningu, frost, laufblöð, hita og snjó (sem þær gera ekki alveg alltaf). Tíminn sem ætti að fara í eldamennsku fer í samgöngur. Tíminn sem ætti að fara í að vera með börnunum fer í samgöngur. Búðir eru opnar seint á kvöldin, fólk kemur þreytt heim, grípur með sér bakka af lasagna með nautakjöti (eða 100% hrossakjöti öllu heldur) og hendir í örbylgjuna. Bretar vinna lengri vinnudag en Íslendingar almennt og eyða í kringum 1 ári af hverju 10 árum í lest. Heilu ári í lest. Yfirmaður minn til margra ára átti 2 börn sem hann sá næstum því aldrei (þó hann væri enn kvæntur konunni og byggi í húsinu). Hann hafði ekki hugmynd um hvað þau voru gömul „en líklega eitthvað í kringum 13 og 15 ára“. Bretar vinna reyndar ekki tvöfalda vinnu eins og margir Íslendingar því allur tíminn fer í samgöngur (og það er heldur ekki verðtrygging á lánum svo Bretar ná að greiða niður lánin sín ólíkt Íslendingum).

Mér finnst þetta háalvarlegt mál. Þetta með hrossakjötið. Ekki af því hestar eru gæludýr fyrst og fremst hér í UK heldur af því að FÓLK VEIT EKKI HVAÐ ÞAÐ LÆTUR OFAN Í SIG. Hugsið ykkur bara að við séum komin svo langt frá uppruna matvöru og að maturinn sé svo mikið unninn (með sykri, hveiti, gerviefnum, aukaefnum, rotvarnarefnum, litarefnum, erfðabreyttu fóðri, hormónaviðbótum, vatni, salti) að fólk viti ekki lengur hvort að um sé að ræða nautakjöt eða 100% hrossakjöt. Nú hefur einnig komið í ljós að (litað og bragðbætt) svínakjöt er selt sem nautalundir o.s.frv. og hefur verið gert í mörg ár.

Þetta er akkúrat, í hnotskurn það sem Jamie Oliver er búinn að vera að berjast fyrir í öll þessi ár. Þetta er það sem ég er búin að vera að berjast fyrir öll þessi ár (ok ég er ekki að líkja mér við Jamie Oliver en við eigum þetta sameiginlega áhugamál). Að við þekkjum hvað er í matnum okkar, að við getum útbúið dýrindis máltíðir með hreinu og einföldu hráefni. Helst komið beint frá bóndanum. Síðast en ekki síst að börnin fylgi fordæmi okkar. Að við séum fyrirmyndin hvað hráefnisval, hráefniskaup og þekkingu á hráefni varðar. Það gerir þetta enginn fyrir okkur. Hollustan hefst heima.

Og höfum í huga að það er fullorðna fólkið sem hefur peningavöldin í matvörubúðinni og stýrir innkaupunum. Fjögurra ára gamalt barn veit hvað það vill í búðinni en foreldri hefur peningana og ákvörðunarvaldið. Við skulum ekki gleyma því.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Tinna jónsdóttir
14. feb. 2013

Mér finnst þetta alveg frábært, ég er búsett hér í noregi og hér er sko líka verið að ræða þetta að fullum krafti,Normenn eru þjóð tilbúins mat og það er hryllilega erfitt að finna góð gæði eða bara hreinlega mat sem ekki er unnin hér. En allavega þetta er að sjokka normenn þó ekki eins alvarlega og breta og aðra þar sem sumir normenn hafa nú alveg borðað hrossakjöt, haha en nú er að koma í ljós hversu skelfilega óhollt pulsan er og hér eru heilu deildinar liggur við með pulsum. greyi normaðurinn hvað skal borða héðan af enda pusluþjóð mikil ;O)

Hins vegar reyni ég mitt allra besta að leyta uppi góð gæði til að elda úr heima ;O) þó ég hafi ekki tærnar þar sem þú hefur hælana, þá er ég mjög meðvituð um mikilvægi þess sem við neytum.

bestu kveðjur og góð færlsla hjá þér

sigrun
14. feb. 2013

Takk Tinna.... :) Ég vissi ekki að Norðmenn væru í tilbúnum mat mikið.....ég hélt þeir væru allir í hollustunni!!!

Tinna jónsdóttir
14. feb. 2013

haha já nei alls ekki þeir halda sumir hverjir að tilbúin matur frá knorr í dósum sé góður kvöldmatur ... en þeir eru örlítið að vakna til meðvitundar, það var síðast talað um það í fyrra sumar að það væri skortur bæði á búðum og heilsu matsölustöðum sérstaklega útfyrir osló.. ég er í Bergen. skelfilegt að koma frá íslandi þar sem allt var að verða tilstaðar í næstu verslun í 1985 eða eitthvað álika.

ég á í erfileikum .. en ég veit ekki en ég mætti í eina heilsuverslun hér í Bergen og skoðaði mig um og viti menn þar var selt panodil og paratabs í hillunni ... ég vissi ekki hvað ég átti að segja ;O)

En áttaði mig snögglega á að heilsuverslun hér úti er ekki eins og heima ;O)

sigrun
15. feb. 2013

Ég skil....áhugavert.

Þú ættir að kíkja til London eða til New York...í heilsubúðirnar þar (ef þú ert ekki búin að því nú þegar) og missa hökuna niður í gólf :) Úrvalið er svo svakalega fínt og gaman að skoða allt.

Tinna jónsdóttir
17. feb. 2013

Nei hef ekki séð það en hef heyrt eitthvað um það,, ég er svona að vona að norðmenn séu að vakna til meðvitundar, svo ég njóti góðs af því ;O)

kannski maður skelli sér yfir við tækifæri og skoði þetta ;O)