Bollur vs. pönnukökur

Fjörutíu og sjö dögum fyrir Páskasunnudag er Pönnukudagur í Englandi. Það má klína goðsögnina um Jesú við allt, líka pönnsur. Pönnukökudagur heitir svo af því að fyrir föstuna þurfti að hreinsa út úr búrinu það sem til var og oftar en ekki var það hveiti, egg og sykur en þetta þrennt má finna í öllum verslunum þessa dagana...ásamt páskasælgæti, og Valentínusarsælgæti og gott ef ekki er þegar byrjað að troða Haloween sælgætinu fram....þeir eru ekkert að grínast með árstíðaskiptar hitaeiningar hér í UK. Sjöunda janúar fann ég nefnilega páskaegg inn á milli súkkulaðijólasveinanna sem voru á tilboði.

En spurningin er þá. Gerir maður bollur (að íslenskum sið) eða gerir maður pönnukökur að breskum sið. Jóhannes segir að sjálfsögðu að maður eigi að gera bæði (halda í hefðina á hvorum stað) en það er aðeins of mikið af hinu góða held ég. Svo í ár er ég að hugsa um að halda mig við íslensku hefðina....og gera vatnsdeigsbollur.

Ef þið eruð í sömu hugleiðingum (og hvort sem þið gerið glúteinlausar bollur eða ekki) þá eru hér tvær uppskriftir fyrir neðan sem þið getið prufað. Ég þurfti næstum því að selja bílinn okkar þegar ég gerði tilraunir á bollunum hér fyrir nokkrum árum því egg eru jú dýr á Íslandi og það fóru mörg, mörg, mörg egg í þær!

En að öðru þá er merkisdagur í dag en íslensku vefverðlaunin fóru fram við hátíðlega athöfn. Fyrir 2 árum fékk CafeSigrun verðlaun fyrir besta blogg/myndefni/efnistök og ég verð ævinlega montin yfir því. Ekki bara af því það er kúl að fá viðurkenningu á vefinn sinn (í vinstra horni neðarlega á síðunni) og verðlaunagrip úr gleri sem ég hef ekki enn náð að handfjatla (hann er á góðum stað á Íslandi) heldur af því að einn félagi okkar tók upp á símann sinn þegar úrslitin voru tilkynnt og sendi okkur (ég var hérna úti). Ég hef aldrei fengið svona mikla gæsahúð af neinu eins og því. Salurinn bókstaflega rifnaði af fagnaðarlátum. Fyrst dauðaþögn meðan salurinn beið í ofvæni (það voru samtals 5 vefir tilnefndir) og svo var tilkynnt um sigurvegarann og fólk sem ég hef aldrei hitt, aldrei séð, aldrei talað við var að fagna......litlu mér....og mínum vef. Það var flautað og klappað og stappað og í þessar 10 sekúndur var ég drottning alheimsins. Hefði þetta verið á segulbandi hefði það orðið falskt í endann því ég spilaði svo oft.

Í ár var ég í dómnefnd íslensku vefverðlaunanna (nei var ekki í dómnefnd árið sem vefurinn minn var valinn og hef ekki hugmynd um hver var í dómnefnd þá) en gat því miður ekki séð um að afhenda verðlaunin....en það gerði forsetinn í staðinn....ágætt að hafa fólk til að hlaupa í skarðið fyrir sig.

En ég hefði svo þurft eitthvað hvetjandi í dag því á hárgreiðslustofunni í morgun sagði stúlka sem sat í stólnum að henni fyndist hún vera hrikalega gömul...."þúst alveg fertug ea eikka mar" (talaði arfavonda ensku). Hefði ég haft verðlaunagripinn í höndunum hefði hann farið ofan í kok á henni......

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It