Bloggið

Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera.....

Það er gaman í skólanum. Heilinn á mér er að bráðna en það er allt í lagi. Og ég er langt frá því að vera elst í bekknum. Ég er hins vegar uppgefin eftir daginn því þetta eru 2 x 3ja klukkustunda fyrirlestrar og allan tímann erum við að hlusta, tala, vinna verkefni og þykjast vera gáfuleg (allavega ég).

Við erum að lesa nýjustu rannsóknir um ýmislegt heilsutengt; t.d. um inngrip varðandi heilsutengd málefni (t.d. hreyfingu, næringu, reykingar, streitu o.fl., o.fl.) og margt sem mér hefur fundist svo áhugavert að ég sit gapandi. Þegar ég er orðin aðeins meira inn í öllu mun ég deila með ykkur fróðleik. Finnst ég ekki alveg vera komin á þann stað strax. Eitt samt finnst mér mjög skemmtilegt og það er að allt lífsferlið er tekið með í spilið, ekki bara frá fæðingu. Nú eru komnar fram rannsóknir sem sýna svo ekki verði um villst að atferli móður t.d. næring, umhverfi hennar sem og líðan á meðgöngu getur haft (meiri en áður var haldið), heilsutengd áhrif síðar meir á ævinni. Þau börn sem fæðast of létt eru verr sett en þau sem fæðast þyngri (þá er ekki verið að tala um fyrirbura). Blóðið sem annars ætti að dreifast til og mynda öll helstu lykillíffæri fer aðallega til heilans, mikilvægasta líffæri mannsins en hlutfallslega minna fer til nýrna, lungu, hjarta o.fl. Sem aftur útskýrir hvers vegna Indverjar eru gjarnir á að fá sykursýki og hvers vegna sumt fólk, þrátt fyrir að vera algjörlega eðlilegt í þyngd, þróar með sér hjarta- og kransæðavandamál en hin sem eru þyngri eru kannski allt í lagi til æviloka (auðvitað spilar margt inn í en þetta er í hnotskurn The Barker Hypothesis). Það eru sem sagt töluvert meiri líkur á að fá hjartafáll eða önnur hjartatengd vandamál sem og sykursýki ef fæðingarþyngd er lág (umfram það sem telst eðlilegt hjá okkur á Vesturlöndum). Ansi áhugavert.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Nude Espresso

Nude Espresso er næstur á dagskrá. Þetta er líklega besti lattebollinn sem ég hef fengið á ævinni en um leið sá dýrasti og minnsti. Ekki endilega góð blanda og ég fór í smá fýlu út í Nude fyrir að rukka mig 3.50 pund fyrir lítið glas (minna en vatnsglas) af (ok, unaðslega góðum) koffeinlausum sojalatte. Mjólkin var fullkomin, kaffið bragðgott og lattelistin í mjólkinni var þannig að ég bara ómögulega hafði mig í að drekka kaffið. Jóhannes hefur farið nokkrum sinnum á Nude (en drekkur alltaf espressoinn áður en hann man eftir að taka mynd....ég veit, ég veit). Ég gef honum orðið:

Nude Espresso

19 Soho Square í Soho (til umfjöllunar) og 26 Hanbury Lane í Brick Lane

Nude Espresso séð að utan

Nude Espresso séð að innan

Nude Espresso, glittir í brennsluofninn

Ég fór í fyrsta skipti á Nude Espresso eftir að ég var byrjaður að skrifa um kaffihúsin hér á blogginu og verð að segja að ég hefði líklega byrjað á þessum stað annars.&; Held að þetta sé orðið uppáhalds kaffihúsið mitt þessa dagana.&; Þeir eru með eigin brennslu og líkt og á Kaffismiðjunni heima þá er brennsluofn innan í kaffihúsinu sjálfur. Soho Sq. kaffihúsið er reyndar ekki aðal kaffihúsið þeirra svo ég veit nú ekki hversu mikið ofninn er notaður, hef ekki séð hann í notkun ennþá.&; Kaffið hjá þeim er með dekkri og mýkri tóna en t.d Square Mile eða Monmoth, ekki sömu háu tónarnir og maður finnur þar. Það er meiri fylling í því og meira rjómakennt. Þetta er líklega sú kaffibrennsla hér sem kemst næst Kaffismiðjunni heima. &;
Kaffihúsið sem slíkt er mjög stílhreint, mest megnis svartir fletir og steinsteypa. Ég hef ekki smakkað bakkelsið en það lítur vel út þó það sé ekki mikið af því (gæti verið þar sem ég kem ekki þangað á virkum dögum). Ef ég ætti kaffihús þá væri ég til í að eiga þetta.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Uppeldið

  • Þú veist að ég hlusta ekki á væl.
  • Það þarf bara ákveðnari aðlögun.
  • Nú verðurðu að prófa sjálf. Annars geturðu aldrei lært þetta.
  • Ég fer að nota CIO aðferðina (Crying It Out) og hlusta ekki á grenj.
  • Kannski að þurfi að nota þá aðferð að venja við...þú veist grenja í smá stund og svo athuga.
  • Það þarf bara að nota hörkuna.

Uppeldisaðferðir? Já. Á börnin? Nei. Jóhannes var að troða á mig nýjum síma....ég þoli ekki nýja hluti. Sérstaklega ekki nýja síma.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Foxcroft & Ginger

Nafnið á þessum stað hljómar eins og um pöbb sé að ræða. Þeir bera oft svipuð nöfn eins og Slug & Lettuce, Roce & Thistle, Waggon & Horses o.fl. En Foxcroft & Ginger er enginn pöbb og einn starfsmannanna lítur út alveg eins og Tony Parker, fyrrum eiginmaður Eva Longorio (úr Desperate Housewives)....ekki það að þær upplýsingar skipti einhverju máli...mér finnst það bara fyndið. En allavega..áfram með kaffið og ég gef Jóhannesi orðið.

Foxcroft & Ginger

3 Berwick Street í Soho

Foxcroft og Ginger séð að utan. Myndin er frá comconella.blogspot.com

Foxcroft & Ginger og afgreiðsluborðið

Borð og stólar á Foxcroft & Ginger

Espresso á Foxcroft & Ginger

Ég hef kannski minnst sótt þennan stað af þeim sem ég er að taka fyrir hérna í þessari umfjöllun en það líklega vegna þess að hann er lengst í burtu frá þar sem við búum og tiltölulega nýr. Þessi staður er í Soho og á þeim litla bletti þar sem enn lifir smá af gömlu skuggahliðum Soho hverfisins (vændi, eiturlyf og klámbúllu). Í götunni eru t.d. enn rauðir lampar í gluggunum hjá þeim (konum, körlum og mitt á milli) sem bjóða upp á sína „þjónustu”. Kaffihúsið er hins vegar í nýju húsi og er mjög flottur staður með skemmtilegum smáatriðum eins og gömlum leikfimishestum fyrir borð og ömmulega bolla þar sem enginn er í stíl. Þeir eru að nota kaffi frá Climpson and Sons (en voru áður með kaffi frá Monmouth Cafe) og virðast alveg vita hvað þeir eru að syngja þegar kemur að kaffinu. Bollarnir eins og ég nefndi eru margir hverjir ansi sérstakir en í staðinn er ekki verið að hugsa um það sem hentar kaffinu sjálfu sem best (sbr. flatur, grunnur og víður bolli fyrir espresso). Kaffið var með dekkri tónum en t.d. Square Mile en Monmouth og meira „íslenskt” en það sem gengur og gerist hér þ.e. nær Kaffitár en Square Mile sem er með frekar háa sýrni leitað eftir háum tónum. Þetta er samt sá staður af þessum sem ég er að fjalla um sem mér hefur fundist þjónustufólkið jafn áhugalaust og bólugröfnu unglingarnir sem vinna hjá „græna risanum”, en eru kannski bara svona rosalega miklar týpur og ég fatta það ekki. Ég þarf að fara oftar og sjá hvort þetta breytist eitthvað. Mér leiðist nefnilega stælar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Skólapían

Ég held ég sé með gráðusýki, háð háskólagráðum, eilífðarstúdent. Ég er útskrifuð úr Mynd- og hand (þriggja ára nám) sem nú er Listaháskólinn, með BA í sálfræði, MA í hönnun fyrir gagnvirka miðla og nú ætla ég að bæta við mig MSc í heilsusálfræði. Síðast var ég í námi fyrir 10 árum (við sama skóla). Æi það er bara svo gaman að læra og þó þetta nám tengist ekki nema að litlu leyti minni sérhæfingu sem er ekkert tengd mat þá er þetta tengt áhugamálinu mínu og það er alltaf gott. Mér finnst lífið of stutt til að stoppa við á einum stað, ég vil læra sem mest og opna augun fyrir sem flestu. Ég hef verið í sama starfinu síðustu 7 árin og nú er tíminn til að víkka sjóndeildarhringinn aðeins.

Það hefur aldeilis margt breyst á tíu árum (þori varla að hugsa um þetta)...:

  • Þá voru árásirnar á Twin Towers í New York um það bil að gerast.... í sama mánuði og ég byrjaði í skólanum. Það voru ekki auðveldir tímar.
  • Þá gat ég vel hugsað mér þurrt, ósoðið pasta í kvöldmat því ég kunni ekkert, og ég meina ekkert, í eldhúsinu.
  • Þá var hápunktur eldamennskunnar bakað brauð í ofni með grænu pestói og osti.
  • Þá kunni ég ekki að sjóða egg, baka brauð, gera smoothie og hvað þá að baka köku.
  • Þá var núðlusúpa, í pakka fyrir mér máltíð.
  • Þá fékk ég kvef og hálsbólgu á 2ja mánaða fresti. Á tveggja mánaða fresti skrifaði ég „hálsb./kvef“ í dagatalið svo ég vissi hvenær ég ætti von á því að vera lasin. Ónæmiskerfið var ónýtt.
  • Þá vissi ég ekki hvað spelti eða kókosolía var.
  • Þá var CafeSigrun ekki til en tveimur árum síðar var ég byrjuð að skrifa uppskriftir í stílabók.
  • Þá var WAP í fullum gangi (og almáttugur minn...Netscape vafri!)
  • Það var ekkert Facebook og enginn Twitter.
  • Þá voru fyrstu símar með myndavél að koma á markað. Fyrstu símar með litaskjám voru að líta dagsins ljós.
  • Þá var enginn ipad, iphone og afar fáir áttu ipod enda kom hann á markað 2001.
  • Þá voru fáir að blogga.
  • Þá komst maður ekki á 3G tengingu til að senda og skoða tölvupóst (GPRS var málið) og maður fór á Internet Cafe til þess.
  • Þá fannst mér konan sem var 40 ára og var í Mastersnámi með mér, rugluð því hún var eitthvað svo „gömul“ (ó hjálpi mér).
  • Þá fannst mér stúlkan sem var 22ja ára og var í Mastersnámi með mér svo ótrúlega ung (ó hjálpi mér enn meira).
  • Þá átti ég engin börn og fannst ólíklegt að ég myndi eignast börn. Síðan eru komin tvö.
  • Þá hafði ég aldrei komið til Afríku og fannst ólíklegt að ég myndi fara til Afríku. Síðan hef ég farið óteljandi ferðir m.a. til Kenya, Uganda, Rwanda og Tanzaníu og verið fararstjóri.
  • Þá saknaði ég hestanna minna meira en orð fá lýst. Nú eru þeir fallnir frá og ég sakna þeirra enn þá, meira en orð fá lýst.
  • Þá kunni ég ekki að meðhöndla plöntur eða matjurtir. Ég kann það reyndar ekki enn.
  • Þá var ég að flytja í fyrsta skipti til útlanda (sko á fullorðinsárum). Ég er núna í 3ja sinn búsett í London.

Ég hlakka til að byrja í náminu og ég mun miðla þeim fróðleik sem mér þykir áhugaverður.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Store Street Espresso

Það liggur við að við gætum teygt okkur úr húsinu okkar yfir í næsta kaffihús sem Jóhannes ætlar að taka til umfjöllunar. Það tekur okkur þrjár mínútur að labba á það sem er auðvitað stórhættulegt en afar hentugt, sérstaklega fyrir yngsta meðlim fjölskyldunnar (3.5 mánaða).

Store Street Espresso [engin vefsíða enn sem komið er]
40 Store Street í Bloomsbury

Store Street Espresso að utan

Store Street Espresso að innan

Espressoinn á Store Street Espresso

Þau sem eru með þennan stað eru ekki alveg eins „harðkjarna” í kaffinu og á mörgum hinna staðanna og því held ég að mér finnist hann sístur af þessum stöðum sem ég er að fjalla um. Starfsfólkið er líka stundum full „too cool for school”. Það má samt alls ekki halda að það sé ekki gott kaffi hérna, eru með Square Mile kaffi, hann er bara ekki alveg fremstur meðal jafninga þó góður sé.&; Það er sama hráa uppsetning hér eins og á mörgum öðrum stöðum, meira lagt upp úr kaffinu og veitingunum en útlitinu á staðnum. Það er voða kósí að sitja í glugganum þarna þegar það rignir og horfa út á götu með gott kaffi. Þeir eru líka með gott meðlæti af því sem við höfum smakkað. Mæli eindregið með þessum ef fólk er að fara að skoða British Museum og vill fá gott kaffi fyrir eða eftir, er bara örstutt labb á milli.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hrákakan á Vantra

Hrákakan á Vantra

Ég kíkti á Vantra í fyrradag og fékk mér hráfæðisköku (súkkulaði). Hún var nokkuð góð, hefði mátt vera eilítið sætari (þoli ekki kökur sem ekki eru sætar) en áferðin var fín og ekki ósvipuð mörgum sem ég hef gert í gegnum tíðina. Ég keypti líka vegan bananaköku með sojarjóma sem var viðbjóður. Kakan sjálf var líkari brauði en köku því hún var ekki nægilega sæt (ég er ekki að tala um að þær þurfi að vera dísætar en maður þarf allavega að hugsa „mmmm kaka”). Kremið (gert með sojarjóma) hins vegar var ó.g.e.ð. Það var ekkert bragð af því (ekki einu sinni vanillukeimur) og ég fann bara að það kom fitufilma innan í munninn þegar ég setti skeiðina með kreminu upp í mig. Áferðin var eins og á léttspartli (sem maður notar til að fylla upp í holur í vegg og svoleiðis). Oj bara. Hvorki ég né Jóhannes gátum borðað það.

Myndina hér að ofan af súkkulaðikökunni tók Maria vinkona mín (ég verð að muna eftir fjandans myndavélinni þegar ég er svona „out and about”).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Tapped & Packed

Næsta kaffihús er líklega það kaffihús sem við höfum sótt mest nema kannski ef frá er talið Kaffeine. Athugið að það eru tvær myndir af kaffihúsinu að utan, önnur er af nýja staðnum á 114 Tottenham Court Road (númerið sést efst til hægri og húsið er með reiðhjóli fyrir ofan dyrnar). Myndina af kaffinu tók Jóhannes í morgun á símann sinn.....hef nú séð betri myndir he he.

Tapped and Packed
26 Rathbone Place og 114 Tottenham Court Road, báðir í Fitzrovia

Tapped and Packed á 114 Tottenham Court Road

Tapped and Packed á Rathbone Place

Tapped and Packed á Rathbone Place

Espresso á Tapped and Packed

Þessi staður (sá á Rathbone Place) er soldið með Gettu-betur-fílinginn finnst mér, þ.e. gæti verið kaffistofa í menntaskóla, pínu smá svona mennta hroki án þess að vera hroki beint. Maður hefur á tilfinningunni að ef maður spyrji þau t.d. „Hvernig kaffi mælirðu með” að þau svari „þú veist svarið”. Ég held að þau séu mestu spekúlantarnir þegar kemur að kaffi (og eins og liðið í Gettu betur þá vita þau alveg að þau eru rosa klár). Það sem er mjög skemmtilegt við þennan stað er mjög oft er boðið upp á gestakaffi (þ.e. ekki bara eina húsblönda) og svo er líka hægt að fá kaffi lagað eftir mismunandi aðferðum (ekki bara í espresso vél).&; Þeir eru líka á bak við “The Sunday Club” þar sem þeir reyna að leiða sauðsvartan almúgann í sannleikann um þann dýrðar elexír sem espresso er (svo maður reyni nú að nota jafn uppskrúfað málfar og mér finnst passa við starfsfólkið).

Þó þeir séu ekki með “heimalagað” bakkelsi þá eru samlokurnar þeirra mjög girnilegar (og það sem við höfum smakkað af salötum o.fl. hefur verið gott) og fínt úrval af kökum og slíku. Þessi staður er kannski hvað líflegastur af þeim sem ég kem til með að fjalla um.

Nýi staðurinn þeirra á Tottenham Court Road, var með allt aðra stemmingu þegar ég kíkti þangað. Það var ekki þessi sami menntaskólafílingur þar, meira bara svona venjulegt kaffihús en samt með gott kaffi. Hann er líka meira í alfaraleið og kannski frekar verið að stíla inn á meðaljóninn þar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Afmælisstelpan

Afmælisstelpan

Litla skonsan mín er 2ja ára í dag. Tíminn flýgur áfram á ógnarhraða. Það gerir munnurinn á henni líka því hún.talar.stans.laust. Það er bara gaman og gott að vita til þess að allt sé ok þarna uppi. Ég passa mig líka að hlusta og gefa mér tíma til þess að heyra hvað þessi litla manneskja er að segja því margt af því er merkilegt. Stundum reyndar biður hún brúnaþung mömmu sína um að syngja ekki. Þetta litla skass sendir birtu og yl niður í tær á góðum degi (þegar hún er með sætuhjúp utan um sig og knúsar mann af engu tilefni) en stundum þegar hún er í vondu skapi og nr. 1 og 2 grenja í kór, langar mig helst að setja þau systkin á Ebay...2 fyrir 1 tilboð. Hún er afskaplega góð við litla bróður sinn og hefur ekki í eitt einasta skipti sýnt tilburði til að vera afbrýðisöm eða vond við hann. Hún knúsar hann og kjassar við hvert tækifæri (meira að segja þegar hún veit ekki að maður er að horfa), reynir að gefa honum snuð ef hann kvartar og hefur áhyggjur ef hann grætur og maður er ekki búinn að taka hann upp til að hugga. Þráðurinn er stuttur í henni og oft býst maður við tilkynningu frá Almannavörnum þegar maður sér að eldgos er að krauma í þessum litlum kroppi. Hvernig t.d. VOGAR maður sér að gefa henni HÁLFA gulrót en ekki heila? Hvernig dettur manni slíkt í hug? Auðvitað er þetta eitt heimskulegasta tiltæki nokkurrar móður og merki um stórkostlega vanhæfni. Hún er mikill matgoggur og finnst nánast allt gott, nema harðsoðin egg. Hún borðar heldur ekki burritos eftir að hafa fengið ælupest eitt sinn og kastað þeim upp einhverja nóttina. Það situr fast í henni. Hún hatar lækna og tannlækna sem og alla aðra ókunnuga. Hún á það til að setja á sig sólgleraugu hjá lækni og horfa í hina áttina.... Sem getur verið pínlegt. Hvernig á maður að útskýra 2ja ára barn með kolsvört sólgleraugu, horfandi í hina áttina (viljandi) ALLAN tímann sem barnið er inni hjá lækninum? Metið er ein klukkustund þegar ég sat með Mariu vinkonu minni á kaffihúsi eitt sinn. Dóttirin sat sem fastast í kerrunni, með sólgleraugun og neitaði að horfa í áttina að okkur. Þegar fólk kjáir framan í hana í kerrunni og segir „Hello darling“ eða álíka, dregur hún sóhlífina fyrir og neitar að ræða málið frekar. Hún eeeeeeelskar bananamuffinsa (einungis með bönunum, engri viðbættri sætu), sushi, spergilkál, bækur og tónlist en syngur ekki (þó hún kunni alla textana meira að segja við Sprengisand og Stóð ég úti í tungsljósi). Hún hefur aldrei á ævinni smakkað sælgæti, keyptar kökur né sykraðan ís og veit ekki hvað súkkulaði er. Hún er dyntótt og skapstór, frek og frábær.

Elsku afmælisstelpa, til hamingju með daginn.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Lantana

Næsta kaffihús á listanum sækjum við gjarnan á sunnudögum en þeir opna frekar snemma.

Afsakið myndirnar....við vorum á hraðferð þennan sunnudaginn :)

Lantana
13 Charlotte Place, Fitzrovia

Lantana utan frá

Lantana að innan

Ég veit ekki hvers vegna en ég tengi Lantana alltaf við konur og finnst ég vera alveg kominn inn í þeirra innsta hring þegar ég kem þangað. Svolítið eins og þetta sé einhver andspyrnuhreyfing sem noti kaffihúsið sem front. Ég verð því alltaf svolítið hissa þegar ég sé mann fyrir aftan búðarborðið (það er einn frekar nýlega byrjaður að vinna þarna). Ég veit ekki alveg hvað það er en mér finnst líka alltaf soldið eins og stelpurnar þarna hafi verið að leika sér í „búð-ó” þegar þær voru litlar og svo bara ekkert hætt því heldur hafi ein þeirra komið með viðskiptaáætlun og þær ákveðið að fara alla leið með leikinn.

Hvað um það þá er þessi staður í lítilli göngugötu út frá Mortimer Street, mjög skemmtilegur staður, ekta svoa sunnudags staður þar sem maður kemur á sunnudagsmorgni, fær sér kaffi og croissant yfir sunnudagsblöðunum. Þær eru nýlega búnar að skipta yfir í kaffi frá Square Mile brennslunni og ágætt úrval af öðrum veitinugm enda er þetta líka bistro, ekki bara kaffihús. Það er mjög svipuð stemming þarna og á nágrannastaðnum Kaffeine og líka svipaður hópur sem sækir staðinn. Það má líka taka það fram að það var lengi staður frá “græna risanum” á horninu í götunni þeirra en sá er nú horfinn. Það er yfirleitt á hinn veginn nefnilega, þegar græni risinn kemur þá missa litlu kaffihúsin viðskipti, en ekki þarna því það er alvuru gott kaffi á boðstólnum! Ég get alveg viðurkennt að það hlakkaði í púkanum í mér þegar ég sá að græni risinn var farinn...

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It