Snjór og sleifar

Við erum búin að hafa það gott í snjónum. Reyndar erum við komin til London aftur. Flugferðin gekk vel, engin seinkun og íslenskir flugmenn hlæja bara framan í snjóstorminn sem ferðalangarnir dönsku sögðu að hefði næstum kostað þá lífið. „Við vorum næstum dáin, við sáum bara snjó og hann fór mjög hratt...svona að okkur“ og svo kom svúpp hreyfing með höndunum. Ungi maðurinn sagðist næstum því hafa farið að gráta úr hræðslu. Ferðalangarnir voru í Reykjavík þar sem var pínulítill skafrenningur og nokkrir skaflar. Svipaða sögu er að segja um grísk-ástralska vinafólk okkar sem heimsótti okkur árið 2004 í smá snjó. Eftir að hafa lent í vindhviðu og skafrenningi í 10 stiga frosti héldu þau að dagar þeirra væru taldir. Það er víst að maður myndi ekki sjá breskar mæður vaða skafla upp í mitti, ýtandi barnavagni á undan sér. Ég var hissa að sjá ekki keðjur á hjólum barnavagnanna, kannski að þau hafi verið negld.

Það var ekki boðið upp á sælgætispoka fyrir börnin í þessari vél (stór poki fullur af sykri og E-efnum). Þegar við flugum til Íslands var sælgætið „jólagjöf frá jólasveininum“ og tilkynning sigri hrósandi flugfreyjunnar þar að lútandi í hátalarakerfi flugvélarinnar. Til að þetta færi nú örugglega ekki fram hjá einu einasta (sykurþurfandi) barni....í bók Afkvæmisins um flugferð Topsy og Tim (söguhetjanna) eru flugfreyjurnar að gefa börnunum „jarðarber og grænar baunir” (grænt og rautt sælgæti) og aldrei hefur hún kollvarpað þeirri útgáfu&; móðurinnar. Afkvæmið spurði reyndar ekki um baunir og jarðarber en ég sagði flugfreyjunni að dóttirin þyrfti ekki sælgæti, hún vissi ekki hvað það væri. Það lyftist augabrúnin á konunni. Afkvæmið var líka með lífrænt ræktaða þurrkaða ávexti og var nýbúin að troða í sig heilum hellingi af sushi-i.

Flugferðir með börn eru alltaf lengri en flugferðir án barna. Reyndar gekk mjög vel mað Afkvæmið 6 mánaða til Afríku. Enda ekki byrjuð að taka tennur að ráði og var því ekki með þrýsting í gómnum, sem hlýtur að vera sárt. Afkvæmi Nr. 2 var ekki sérlega ánægður með að vera að fá 3ju tönnina (sem eiginlega braust fram í fluginu). Hef einu sinni verið með þrýsting í tönnum vegna kvefs og mig langaði að rífa úr mér tennurnar. Hefði ég haft töng, hefði ég gert það sjálf. Það var ekki einu sinni langt flug (frá Nairobi til Mombasa eða öfugt, man það ekki) en flugtak og lending var h.e.l.v.í.t.i. Lögmál barnafólks er að börnin kúki í flugferðum og að maður hafi ekki nægar bleiur. Sem betur fer áttu Flugleiðir bleiur frá 1970 (að sögn flugfreyjanna) þegar bæði Afkvæmin ákváðu að nú væri stundin til að kúka (sem það eldra gerir aldrei nema eftir lúr, eins og nákvæmt, svissneskt úr nema akkúrat auðvitað í fluginu). Auðvitað byrgja foreldrarnir sig upp af bleium fyrir næstu flugferð (20 bleiur á barn og pakki af blautklútum til að vera viss) og aukaföt og allar græjur og enginn kúkar. Auðvitað. Bleiurnar frá 1970 voru mjög funky og litu hvorki út fyrir að vera rakadrægar né var loforð um að þær myndu auka hreyfigetu barnsins. Þær voru líka með hallærislegum myndum. Það vita það allir foreldra sem reynt hafa að skipta á 2ja ára gömlu barni á flugvélasalerni að auðveldara er að reyna að troða sér í hanskahólf bíls og dansa fugladansinn, á hjólaskautum.

Þegar maður er tveggja ára jafnast ekkert á við að borða snjó, velta sér í snjóskafli, vera á sleða, gera snjóbolta, fara á hestbak, sópa hesthúsið, gefa hestunum hey, leika í hlöðunni, drekka heita mjólk með kaldar kinnar, sitja í bílnum hans afa í bílskúrnum (og fá að fikta í öllu), leika með jólakúluna hennar ömmu, skreyta jólatréð/afskreyta jólatréð, skreyta hunda, kyssa hunda og hesta (og fá blautan koss á móti), elta frænkur og frændur skríkjandi og rennandi sveitt í boltaleik í jólaboði, borða góðan mat..... Þegar maður er 6 mánaða er gaman að naga sleif.

Þetta var jólafríið í hnotskurn :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
02. jan. 2012

:) frábær skrif

Tóta
05. jan. 2012

Hérna voru það smákökurnar þínar sem unnu allar keppnir. Ég hafði keypt nokkar fjöldaframleiddar smákökur í Hagkaup (svona samviskunnar vegna "aumingja börnin að eiga svona skrítna mömmu") en þeim verður hent að mestu en drengirnir standa fyrir framan ofninn um leið og þeir heyra í hrærivélinni. Meðmæli eða hvað ???

Takk fyrir okkur !

sigrun
05. jan. 2012

Vá æði, gaman að heyra Tóta og takk fyrir að deila :)