Gobbedí gobb

Að búa í London hefur ýmsa (og oft marga) kosti. Stundum eru reyndar óþolandi atriði sem tengjast því að búa í London. Til dæmis eins og vatnið sem er vont á bragðið, dúfurnar sem kúka út um allt, fólk með sveitta laukborgara í neðanjarðarlestinni, ófáanlegir almennilegir uppþvottaburstar o.fl. Einn af kostunum er að maður hefur aðgang að ýmsu eins og tónleikum (og maður hoppar bara upp í lest til að sækja slíka viðburði), leikhúsum (og maður trítlar bara 30 mínútum fyrir sýningu í leikhúsið) og svo eins og í gær, sýningu spænska reiðskólans í Vín. Þetta er í annað skipti sem við sjáum sýninguna (reyndar frábrugðin fyrri sýningunni sem við fórum á en jafn áhugaverð, mínus drottningin sem sat fyrir framan okkur á fyrra skiptið). Spænski reiðskólinn í Vín hefur á sínum snærum hið stórkostlega Lipizzans hestakyn. Þeir eru stórfenglegir og töfrandi, stæltir og fallegir. Þið getið lesið nánar um þetta magnaða hestakyn víða á netinu. Þeir framkalla gæsahúð hjá þeim sem hafa einhvern snefil af hestaáhuga. Reiðmennirnir (við undirspil sígildrar tónlistar eins og Mozarts) stjórna hestunum af mikilli fimi og án þess að sýna neitt fum eða fát. Þetta eru snillingar í klassískri reiðmennsku og á þessari reiðmennsku byggir sú sem við þekkjum í dag. Hefðirnar eru mörg hundruð ára gamlar og eru jafn strangar og í upphafi enda er fólki mikið í mun að hefðirnar deyi ekki út. Hlýðniæfingar (dressage) er eins og balletæfingar fyrir hesta og þessir hestar fara létt með að leika hinar ýmsu æfingar sem venjulegir hestar myndu aldrei geta. Fyrir þetta lifa bæði reiðmenn og hestar, það er unun að sjá þá vinna saman. Ef þið komist einhvern tímann á sýningu spænska reiðkskólans í Vín, mæli ég með að þið gerið ykkur far um að sjá hana. Hestarnir eru virtir og dáðir út um allan heim og það er ekki að undra.

Að spænska reiðskólanum ólöstuðum, voru til upphitunar Carl Hester og Lee Pearson, margverðlaunaðir í hlýðniæfingum hesta. Sá fyrrnefndi var með magnaða sýningu (hlýðniæfingar á hesti) og sá síðarnefndi (Ólympíumeistari í reiðmennsku fatlaðra) gerði mann eiginlega orðlausan. Hann var mikið fatlaður (með vöðvarýrnunarsjúkdóm þannig að hendur og fætur voru svo til gagnslausir) en sýndi hryssu sína þannig að ófatlaðir hefðu getað lagt taumana frá sér og farið að skæla í skömm. Það var með ólíkindum að sjá þennan litla og mikið fatlaða mann stýra hestinum með fingrunum, röddinni og stífu fótum sínum einum saman. Samvinna þeirra tveggja, hryssunnar og Lee var draumi líkast.

Ég tók nokkrar myndir á litlu imbavélina. Af því maður getur ekki notað flass þegar hestar eða reiðmenn eiga í hlut þá eru myndirnar ansi lélegar en sýna kannski svona pínulítið af hestunum og umhverfinu. Hefði ég mátt taka með flassi hefði ég tekið um 8000 myndir. Við sátum á fremsta bekk, alveg við gólfið og hefðum ekki getað verið í betri sætum. Ég var að vona að ég myndi fá pínulítið slef frá hestunum á kinnina (hefði verið kúl, hefði líklega fallið í yfirlið) en varð ekki að ósk minni he he. Ég gæti horft á hesta allan daginn, alla daga og myndi aldrei verða leið á því.

Ljósakrónan í loftinu
Ljósakrónan í loftinu á Wembley Arena

Reiðvöllurinn
Reiðvöllurinn

Reiðvöllurinn

Carl og Lee
Carl Hester á rauða hestinum en Lee Pearson á þeim gráa

Hestarnir in action

Lipizzans hestur
Stóðhesturinn fær nammi fyrir dugnað

Tveir sem einn
Þegar vel er að gáð sést að þetta eru tveir hestar en eru svo samstilltir að þeir virka einn

Einn stóðhestanna framkvæmir Levade
Einn stóðhestanna framkvæmir Levade sem reynir á styrk og jafnvægi hestsins, athugið að reiðmenn eru ekki einu sinni í ístöðum!

Einn kyrr, hinn á ferð og flugi

Að sýningu lokinni
Þreyttir en ánægðir reiðmenn og hestar þeirra

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

sigrunsig
28. nóv. 2011

Þetta var nú alveg frábært