Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Flat White

Flat White þýðir sterkt kaffi með mjólk en mjólkin er ekki flóuð (engin froða). Eða svo þýðir það hér í Bretlandi. Ef þið viljið kaffi með mjólk á kaffihúsum í London, biðjið þið ekki um coffee with milk heldur eigið þið að biðja um Flat White. Það er vegna þess að flest almennileg kaffihús í London eru rekin af Nýsjálendingum og Áströlum og þeir nota þetta heiti yfir kaffi með mjólk (eða reyndar eru skiptar skoðanir með nákvæma skilgreiningu á hvernig eigi að bera fram Flat White, sumir segja að það eigi að vera froða en Bretar eru ekki með froðu í Flat White). Ég tók eftir því að á Starbucks um daginn (já ég fer stundum þangað) bað fólk um Flat White (og fékk kaffi með mjólk) líka svo þetta er orðið rótgróið heiti.

En nú gef ég Jóhannesi orðið. Þetta kaffihús er það næst síðasta sem hann fjallar um sem Gestabloggari CafeSigrun.

Flat White

17 Berwick Street í hjarta Soho

Myndin af Flat White að utan

Inni á Flat White

Kaffibollinn sem ég fékk

Athugið að efsta myndin kemur af vef Not Another Big Menu en þar má finna fleiri fínar myndir af kaffihúsinu.

Þetta var líklega fyrsti staðurinn sem ég fór á sem getur talist hluti af svokölluðu 3. stigi kaffimenningar hér í London. Þriðja stigið er svokallað gourmet stig. Fyrsta stigið var þegar fólk áttaði sig á að það var til annað en soðið, uppáhellt kaffi. Stig nr. 2 var Starbucks og fleiri í þeim flokki og þeir ruddu veginn fyrir alvöru kaffinu síðar meir. Fólk fór að spá meira í kaffi og í kjölfarið kom fram þriðja stigið; alvöru kaffi (þar sem kaffibaunin er í algjöru aðalhlutverki), þjónað af alvöru kaffibarþjónum sem vita upp á hár hvað þeir eru að gera og niðurstaðan er dásamleg. Flat White er í sömu götu og Foxcroft and Ginger en einhverra hluta vegna þá fer ég frekar á þann stað. Líklega bara vegna þess að það er alltaf svo rosalega mikið að gera þarna og það er aldrei pláss til að setjast niður. Síðast þegar ég vissi voru þeir að nota kaffið frá Monmouth Coffee Co. en mér finnst eins og ég hafi samt séð Square Mile poka þarna upp í hillu síðast þegar ég fór. Þarna er svolítið svipuð stemming eins og á Tapped and Packed, rignir pínu upp í nefið á kaffibarþjónum og gestum og það eru allt voða miklar týpur sem koma þarna inn, enda í hjarta Soho (í sóðagötu með rauðum lömpum í sumum gluggum og klámbúllum á hverju horni). Ég kom eitt sinn með dóttur mína inn á staðinn og mér fannst eins og ég hefði alveg eins getað komið með geimveru upp á handlegginn. Þetta er klárlega ekki staðurinn til að fara með fjölskylduna á en það má alltaf taka með sér góðan kaffibolla í götumáli og arka út í vit ævintýranna í London.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It