Flutningar eina ferðina enn

Það er aldrei lognmolla hér á bæ....nýbúin að snýta króganum út og nú taka við flutningar enn og aftur (þriðju flutningarnar á þessari meðgöngu sem er reyndar búin en ég var jú ólétt þegar ég var byrjuð að pakka). Við erum búin að ákveða að yfirgefa „þorpið”. Ástæðan fyrir gæsalöppunum nú (en ekki í janúar þegar við fluttum hingað) er að þetta er alls ekkert þorp. Þetta er eins og að búa við Reykjanesbrautina á stórum gatnamótum. Við tókum húsnæði sem við héldum að væri í rólegri götu en það reyndist alls ekki vera. Við getum ekki sofið með opna gluggana því hávaðinn frá götunni og aðal umferðaræðinni í gegnum „þorpið” er svo mikill. Aðeins innar í götunni eru 8 endurvinnslugámar út frá veitingastöðum sem eru losaðir frá kl 7 á morgnana til kl 22 á kvöldin með tilheyrandi, óþolandi hávaða (m.a. verið að sturta gleri). Oft er búið að losa 3var fyrir klukkan 7.30 á laugardags- og sunnudagsmorgni. Sem er fáránlegt. Svo eru fleiri ókostir eins og t.d.:

  • Ekkert almennilegt kaffi fyrir Jóhannes
  • Enginn jógúrtís fyrir mig (nenni ekki alltaf að búa til sjálf)
  • Langt í vinafólk okkar, Mariu og Pete sem búa í bænum
  • Mikil og þung umferð nánast allan sólarhringinn og byrjar af þunga kl 5 á morgnana
  • Stanslausir hurðarskellir frá bílum sem leggja í götunni (fólk að hlaupa í matvörubúðina til kl 22 á kvöldin)....og bílarnir liggja nánast á húsinu okkar
  • Lítið hægt að gera um helgar nema maður eigi bíl
  • Ég get ekki búið á stað þar sem fólk segir „Thank you Driver” þegar það fer úr strætó
  • Strætó er að gera mig bilaða, maður kemst ekkert nema með strætó og oft koma 4 í röð og svo enginn næsta hálftímann....ég eyði kannski klukkutíma í að bíða eftir strætó dag hvern og ég sé eftir þeim tíma...mikið
  • Ég er að fara í nám í haust (nánar um það síðar) og ég nenni ekki að ferðast héðan til að fara í skólann, sérstaklega ekki að vetri til

Áður en við fluttum hingað vorum við búin að kynna okkur svæðið vel og búin að spyrja ALLA sem við gátum, hvernig svæðið væri. Alltaf voru svörin á þá leið að hverfið væri dásamlegt, að þetta væri paradís fyrir fólk með fjölskyldur (svæðið hefur viðurnefnið Nappy Valley (Bleiudalur)), að alls staðar væru græn svæði, að hér væri ró og friður, að í þorpinu sjálfu væru sæt kaffihús o.fl., o.fl.... Sennilega er þorpið að lifa á ansi fornri frægð vegna Wimbledon tennismótsins því hér eru ekkert nema fatahreinsanir, kaffihúsaKEÐJUR (ekki sæt kaffihús), þær sömu og má finna í hverjum einasta bæ í London, Rauða kross búðir (sem selur notað dót) og það er eitt grænt svæði, berangurslegt með engum róluvelli eða neinu slíku (ef maður á bíl getur maður keyrt í annan garð) og það er ekki rass í bala ró og friður nema maður búi í einu af risastóru einbýlishúsunum (en af þeim er nóg hér). Það er margt undarlegt hér á hæðinni. Eins og t.d. fínu konurnar í bleiku reiðbuxunum sem eru stífmálaðar með Louis Vuitton töskur og í 80 þúsund króna leðurstigvélum í hesthúsinu og eru ALDREI með svo mikið sem rykkorn á sér. Enda eru þær of fínar til að moka hrossaskít...þær fá einhverjar smástelpur til þess. Mér finnst líka skrýtið að sjá fólk keyra hunda í barnavagni (eða hundavagni sem lítur út eiginlega eins og barnavagn)...mjög spes. Það er líka skrýtið að sjá aldrei túrista...en ég kann vel við túrista, finnst gaman að fylgjast með þeim. Einnig er undarlegt að það sé ÞUNG umferðaræð í gegnum aðalverslunargötuna þar sem kaffihús eru með borð og stóla nánast á hraðbraut. Við erum að tala um að fólk er að drekka kaffi á kaffihúsi á meðan 18 hjóla flutningatrukkur spýr svörtum reyknum ofan í kaffibollann (ef viðkomandi teygði sig af stólnum gæti hann snert dekkin) og þjónustufólkið þarf að lesa af vörum þegar það tekur pantanir því það heyrir ekkert fyrir hávaðanum. Ekki beint ró og friður. Af þeim rúmum 7 árum sem við höfum búið í Bretlandi höfum við búið í 4 ár í miðborginni og það er ekki svona mikill hávaði þar nema maður sé á $#%&$ Oxford Street. Það eru vonbrigði að þurfa að flytja...en að sama skapi erum við glöð að komast aftur í okkar hverfi. Við verðum reyndar ekki í Fitzrovia heldur í Bloomsbury, rétt hjá British Museum en það er mjög nálægt Fitzrovia. Þar eru billjón alvöru kaffihús með alvöru kaffi fyrir Jóhannes (meira að segja eitt í okkar götu), fullt af jógúrtísbúðum fyrir mig, heilsubúðin (Planet Organic) nánast í næsta húsi og leikvellir í nágrenninu.....Íbúðin sjálf er penthouse íbúð (á efstu hæð), 90 fermetrar á EINNI hæð (ekki þremur...geri það ekki aftur, sérstaklega ekki með tvö börn) og húsið er með lyftu (ekki á 4ðu hæð með engri lyftu...geri það ekki aftur). Stóri gallinn við nýja húsnæðið er að það er ekki gaseldavél og ísskápurinn er lítill (hata litla ísskápa) en ég lifi hehe.... Myndin er af vef http://www.equetech.com/canter.asp?year=5

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

barbietec
22. jún. 2011

Rök númer eitt dugðu mér hehehe :)

Algjört möst svo að taka mynd af ísbúðinni og kaffihúsinu sem þið munið falla fyrir í nýja hverfinu :)

sigrun
23. jún. 2011

Já ég er svo oft spurð að því hvaða kaffihúsum við mælum með í London svo ég verð eiginlega að skila inn skýrslu þess efnis :) Og auðvitað af jógúrtísbúðunum.... :)

Lísa Hjalt
23. jún. 2011

allt góð rök en númer 7 alveg sérstaklega ... thank you Driver?!! Er það svona eins og þegar Íslendingar klappa við lendingu í flugvél?

sigrun
23. jún. 2011

ó jesús Lísa það er AKKÚRAT&;þannig.....

Eygló
23. jún. 2011

Ég bíð spennt eftir að fá gaseldavél þegar ég er orðin stór. Ég var að elda smá á þinni á Grettisgötunni um daginn og hún er ÆÐI. Skil vel að þú saknir hennar....

sigrun
23. jún. 2011

Ég sakna hennar svo mikið að ég fæ tár í augun Eygló!!!

Melkorka
23. jún. 2011

Rosalega var gaman að lesa þetta :D
Getur þú laumað að mér og okkur notendum eins og einni eða tveimur töfralausnum að einföldum flutningum?

sigrun
24. jún. 2011

Hmm aldrei að vita Melkorka :)

Innilega til hamingju með drenginn! Fallegur og flottur! :-)
Líst vel á nýja hverfið ykkar. Var á hótel skammt frá síðast þegar ég var í London. Rólegt hverfi en samt svo stutt í allt = alveg fullkomið! :-)