Bloggið

CafeSigrun í Mogganum í dag

Já það var aldeilis gaman að skoða Moggann í dag. Í Heilsublaði Moggans (aukablað) er heilsíðuumfjöllun um CafeSigrun, tilurð vefjarins og ástæður. Ég fékk fullt af spurningum í tölvupósti og svo sendi ég nokkrar uppskriftir líka. Ég er reyndar titluð sem Sigrún Thorsteinsdóttir en ekki Þorsteinsdóttir. Það er allt í lagi. Ég nefnilega skrifaði aldrei fullt nafn í tölvupóstinum heldur fór það alltaf undir Thorsteinsdottir svo það er ástæðan.

En þetta er alveg rosa skemmtileg umfjöllun og sem betur fer er ekki mynd með því ég væri eflaust hötuð á kaffihúsum landsins annars he he. Þeir báðu um mynd en þeir báðu of seint og ég var alveg sátt við það. Ekki amalegt að fá heilsíðu auglýsingu í Mogganum, í lit, ókeypis! Enda hefur ekki stoppað umferðin á vefinn og margir búnir að bætast við á póstlistanum.

Ástæðan fyrir því að þessar uppskriftir voru birtar en ekki einhverjar aðrar var sú að ég átti bara myndir af þessum uppskriftum (er að safna myndum af uppskriftunum) og því voru þessar myndir aðeins í boði. Hefði viljað setja aðrar uppskriftir inn en það verður að hafa það.

Ef þið hafið áhuga á að nálgast greinina þá get ég sent hana á PDF formi.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gæði heimsins og misskipting þeirra

Mér finnst svo, svo rangt hvað gæðum heims er misskipt. Þetta er sérstaklega kaldranalegt þegar maður er í líkamsræktinni, að hlaupa, eða á stigvélinni, í róðravélinni eða hvað sem er og horfir í sjónvarpinu á ákall til dæmis frá Niger í Vestur-Afríku og sveltandi börn eru sýnd í sjónvarpinu. Fyrir 30 pund er hægt að fæða 7 fjölskyldur í 2 mánuði. Það að vera meðlimur í ræktinni kostar 60 pund á mánuði fyrir 1, sem sagt 120 pund fyrir mig og Jóhannes. Það væri því hægt að fæða tæpar 30 fjölskyldur fyrir þann pening í 2 mánuði. Peningur fyrir einum kaffibollafrá Starbucks væri nægur til að gefa um 20 börnum lyf. Svo er líka svo átakanlegt að vita af því að við séum að reyna að brenna fitu á meðan fólkið er að svelta til dauða, sérstaklega börnin. Svo er ég að kvarta yfir biðlistum. Það þýðir víst ekki að loka bara augunum. Ég ætla að styrkja málefnið í dag.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Vúdú virkar

Jæja ég fékk loksins bréf frá spítalanum í gær þegar ég kom heim úr vinnunni. Þetta sýnir bara að vúdú og illar hugsanir virka vel. Dagsetningin er 7. október. Málið er að það eru engar aðrar upplýsingar, bara að ég eigi "appointment" þann 7. október kl 13.30. That's it. Það eru engar upplýsingar um hvort að þetta sé aðgerðin sjálf eða bara viðtal, engar upplýsingar um hvort ég geti labbað eftir aðgerðina, hvort að þetta verði staðdeyfing, hvort að ég þurfi að undirbúa mig eitthvað, hversu lengi ég verði á spítalnum þ.e. klukkutíma eða viku (klukkutími er líklegri ég veit en ég segi nú bara svona). Í bréfinu stendur að ég eigi að fylla út spurningalista og skila honum hið allra fyrsta. Það var enginn spurningalisti með bréfinu. Ætli ég verði ekki að fara eina ferðina enn og fá símanúmer hjá indverskum skrifstofukonum sem skilja ekki ensku.

Ég vil fá nákvæmar upplýsingar um allt saman, sérstaklega um það hvað verður gert svo ég geti undirbúið mig andlega því ég þoli ekki læknakrukk, nálar, hnífa o.s.frv. Sérstaklega ekki í hold og bein. Það er bara viðbjóður. Sá um daginn í sjónvarpinu að það var verið að rétta hryggjarsúlu 16 ára stelpu. Hélt ég myndi gubba. Hryggjarsúlan var ber, skinninu á bakinu var haldið frá með töngum, hryggurinn var brotinn í tætlur (það var sýnt BEINT ofan frá) og hann var festur saman aftur. Þetta voru ekkert lítil átök og eins og læknirinn sagði framan í myndavélina, skælbrosandi, með blósletturnar á gleraugunum: "Hryggurinn er helvíti harðger sko". Ó mæ god. Ég slökkti mjög fljótlega, en bara þegar ég sá að stelpan hafði lifað þetta af og tók bara 5 vikur að jafna sig þokkalega. Held að þetta verði nú ekki svo slæmt en ég vil samt fá upplýsingar því til staðfestingar he he.

Uppfærsla:

Þetta er sem sagt EKKI tími í aðgerðina, þetta er bara tími í VIÐTAL við skurðlækni. Díses. Þetta verður örugglega ekki gert fyrr en á næsta ári.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Framhald..

Fór með bréfið frá lækninum á spítalann (þetta sem var öruggara að faxa ekki). Konan gat bara ekki neitt hjálpað mér þó hún væri eflaust með þetta á tölvunni og gæti flett mér upp. "Nei þú verður að hringja." sagði hún og lét mig fá símanúmer skrifað á gulan post-it miða. Hún gat ekki hringt fyrir mig. Ég veit ekki einu sinni í hvern ég er að hringja og til hvers. Ég ætlaði nú bara að staðfesta það að ég væri á skrá og ég hélt að það væri nú bara í tölvunni? Jeminn eini hvað ég er pirruð á þessu. Ég þarf að vita hvenær á að gera þetta svo ég geti gert ráðstafanir í vinnunni og viti hvenær ég á að bóka far næst heim til Íslands. Urrrrrrr
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sagan endalausa

Ég hef svoooooo enga trú á breska heilbrigðiskerfinu. Jú jú þeir eiga svo sem eina færustu skurðlækna heims (yfirleitt Indverjar samt) og þeir kosta líka sitt af því þeir eru allir í einkageiranum. Við plebbarnir, sem borgum okkar skatta þurfum að nota NHS sem er svona almenningsheilbrigðiskerfi, ókeypis.

Já ég fór sem sagt þann 14. júlí síðastliðinn til læknis hér með röntgenmynd af hnénu í farteskinu. Sá læknir lofaði því að ég færi strax á biðlista og kæmist að fljótlega, eftir nokkrar vikur. Ég gat nú lifað við það þó mér væri illt því ég veit að það er til fullt af fólki sem liggur meira á en mér að komast í aðgerð. En já svo líður og bíður og í dag er 23. ágúst og ég hef ekki heyrt píp frá neinum. Í millitíðinni var ég búin að fara einu sinni og spyrjast fyrir, fá símanúmer, hringja út um allt og fá þau svör að enginn vissi neitt. Nafnið mitt er hvergi á lista og ég virðist "týnd" í kerfinu. Einhver tautaði að ég væri með of langt eftirnafn, Thorsteinsdottir. Ég er ekkert rosalega glöð yfir þessu því mér er illt í hnénu og þó ég geti alveg labbað, þá er hámarkið svona kílómetri á dag og ég get ekkert hlaupið í ræktinni. Það finnst mér ekki skemmtilegt.

Ég fór þess vegna aftur í dag og var frekar brúnaþung. Þær voru afar hjálplegar dömurnar (annað en þumbinn sem stundum er í afgreiðslunni) og hún gaf mér bréfið sem átti að fara til spítalans en nú veit enginn hvort það fór eða ekki og ef það fór, hvar það er. Brandarinn er samt sá að hún bað mig um að fara með bréfið sjálf, frekar en að hún myndi faxa það, "því það væri öruggara". Það sem er líka fyndið er að í bréfinu stendur að ég geti lítið gengið og þurfi þess vegna að fara í aðgerð he he.

Bréfið var annars svona:

Dear Colleague

Re: Nafn, heimilisfang og allt það

Thank you for seeing this patient who injured her left knee whilst hiking 10 days ago (þetta var sko í byrjun júlí). She has significant pain on walking just a short distance. She had an MRI in Iceland, and this shows a significant medial meniscal tear.

Please could you review her urgently as she has significant pain.

Sincerely

Dr. xxxxx

Ég sem sagt átti að komast strax á lista af því ég væri frekar kvalin og að rifan í hnénu væri nokkuð slæm. Það var í byrjun júlí. Síðan eru liðnar 6 vikur. Já já

Málið er samt að mig langar ekki rass að fara á spítala. Það deyja 1500 manns á ári í Bretlandi vegna rangrar lyfjagjafar (frekar algengt víst annars staðar í heiminum líka) og breskir spítalar eru svo skítugir og fullir af viðbjóði að margir fá sýkingu og deyja (ok ég er dramatísk en þetta er samt satt). Spurning um að gera þetta sjálf bara, með eldhúshnífnum :(

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Matarlyktin góða

Þetta er rosa skrýtið. Næstum því á hverju kvöldi þegar við erum lögst upp í rúm og erum að fara að sofa þá byrjar að streyma inn um gluggann þessi ótrúlega góða matarlykt. Þetta er svona eins og í Tomma og Jenna, þar sem lyktin lætur mann svífa í loftinu. Svona hér um bil. Þetta er svona hvítlauks-, karrí-, engifer-blanda (eflaust með milljón fleiri kryddum) og maður verður svoooo svangur af lyktinni því þegar maður er að fara að sofa þá er langt síðan við borðuðum og við borðum yfirleitt ekki eftir kvöldmat nema kannski ávexti. Ekki það að mann langi að borða svona mat á kvöldin (já hver borðar kvöldmatinn eiginlega svona seint???) en lyktin er svo ótrúlega góð og freistandi að ég segi nú bara eins gott að ég er komin undir sæng. Mig langar að vita hver það er sem eldar þennan góða mat og fá uppskriftir hjá viðkomandi. Ég læt mér nægja að skoða uppskriftabækurnar sem eru á náttborðinu og fá vatn í munninn.

Ég ætla ekki að skrifa meira, mér er nefnilega svo illt í vinstri hendinni. Ég var að hita mér te í gærkvöldi og var að teygja mig eitthvað fyrir framan ketilinn og fór beint í gufuna þegar vatnið var um það bil soðið. Djöfull var það vont. Er eldrauð og bólgin núna en held ég sleppi við blöðrur. Ég get ekki komið nálægt svæðinu þar sem húðin er rauð því það er svo ótrúlega sárt. Svona er þetta, slysin gerast í eldhúsinu! Samt glatað að slasa sig á gufu! Það er eins og Jóhannes segir, það á að geyma mig í bómull.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Grill með riffluðu járni til sölu, á íslandi

Við létum undan, eftir 8 mánuði. Við reyndum að sýna styrk en gátum það ekki. Þetta er löng saga og dáldið asnaleg. Þegar við Jóhannes fluttum hingað aftur til London í Janúar síðastliðnum þá sáum við ekki eftir mörgum hlutum sem voru í geymslu heima á Íslandi. Við söknuðum þó samlokugrillsins okkar. MIKIÐ. Sem er dáldið skrýtið því við notuðum það ekkert svo svakalega mikið heima á Íslandi, kannski tvisvar í mánuði. En sem sagt síðan við fluttum höfum við ekki hugsað um annað. Við sögðum stundum bæði upp úr þurru "ohhhh hvað ég vildi að við værum með grillið okkar" eða "Mig langar í samloku Jóhannes.....ég veit Sigrún, mig líka". Oft kom: "Kaupum grill, förum bara NÚNA og kaupum það" og við létum okkur dreyma. Þessi setning heyrðist oft í Soho og víðar: "Sjáðu Jóhannes (hálfpartinn hvísl, svona hást), þau eru að borða grillaða samloku" eða þegar ég horfi út um gluggann heima "Jóhannes ég held að þau séu að borða samloku þarna á veitingastaðnum, grillaða. Ég er eiginlega alveg viss. Nei Jóhannes ég notaði ekki kíki" o.s.frv., o.s.frv. Stundum þegar við gátum ekki meir fórum við á Starbucks og fengum okkur ristaða Panini með mozarella, ólífum, pestó og sólþurrkuðum tómötum.

Málið er að við eigum mjög gott samlokugrill heima á Íslandi, ekkert IKEA grill heldur gott grill sem gerir góðar samlokur svo það að kaupa samlokugrill er mjög ópraktíst og mikið bruðl. Ekki líkt okkur.

En við létum undan í gær. Við fórum og keyptum hrikalega gott samlokugrill. Grill sem er ætlað bara í að grilla samlokur og ekkert annað, svona Panini-kaffihúsa grill með sléttum flötum, sem grillar samlokuna í klessu þannig að osturinn lekur pínu út og verður grillaður. Hrein hamingja.

Við fórum heim með grillið með rosalegt samviskubit en þurftum auðvitað að prófa. Ég gerði 4 "Starbucks samlokur" og notaði pítubrauð (bara eins og ég geri alltaf) og við vorum að kafna úr spenningi. Við stóðum fyrir framan grillið eins og foreldrar horfa á nýfætt barn sofandi í rúminu sínu.

Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Við táruðumst næstum því úr hamingju yfir grillinu okkar og auðvitað samlokunum. Þær. voru. hrikalega. góðar.

En já núna eigum við sem sagt 2 samlokugrill, annað með riffluðu járni (gerir ágætissamlokur) á Íslandi og annað svona kaffihúsasamlokugrill með sléttu járni sem gerir bestu samlokur í heimi.

Jóhannes borðaði 3 og ég 1.

Fyrir þá sem vilja uppskriftina þá er hún hér (fyrir 4):

4 gróf pítubrauð (cirka 1 á mann nema fyrir svona Jóhannesa, þá eru það 3-4), pítubrauð eru hollari en paninibrauð en það má nota þau auðvitað líka 4-5 mtsk léttmajones (6% fita) 2 mtsk grænt pestó 7-10 sólþurrkaðir tómatar, olían þerruð af og skorin í strimla 10-15 svartar ólífur, skornar í sneiðar Ostur eftir smekk (við settum MIKINN ost og hann bráðnaði út um allt), notið magran ost t.d. 11%, eða létt mozarella ost (nema ef þið viljið hafa þetta óhollara auðvitað)

Blandið saman pestó og létt majonesi og smyrjið á botn og lok pítubrauðanna Dreifið öllu saman jafnt á pítubrauðin 4 Grillið í góðu samlokugrilli (svona eins og við eigum he he. Fæst í John Lewis á Oxford Street fyrir þá sem eiga leið um London)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Góður dagur

Jæja þá er haustið komið. Það rignir að minnsta kosti og það er þungbúið úti og frekar kalt. Miðað við daginn í gær þá er þetta bara vetur. Það var sól, 28 stiga hiti og smá gola í gær. Hrikalega notalegt. Þau voru aldeilis heppin Borgar, Elín og strákar að fá svona veður í gær. Við gerðum allt samkvæmt áætlun. Við fórum á Gili Gulu, fórum á jógúrtísstaðinn, fórum í ferðabókabúðina, afrísku bókabúðina og Borgar tók út nokkra pöbba (hverfispöbbinn tvisvar) og fengu þeir almennt góða einkunn hjá honum. Held honum finnist mjög sniðugt að geta farið á inniskónum á hverfispöbbinn. Strákarnir fóru í strætó með Jóhannesi og Borgari og við píurnar fórum í smá verslunarleiðangur.

Svo fórum við aðeins yfir heimasíðumál og svona. Afríkuvefurinn þeirra er að verða tilbúinn á ensku og ég set slóðina inn á hann hér þegar hann verður tilbúinn.

Annars var ég að velta einu fyrir mér. Afhverju eru útvarpsmenn svona glaðir þegar er sól? Ég skil ekki alveg afhverju þeir eru svona ofsakátir þegar þeir sitja inni? Vita þeir ekki af sólinni? Ég verð að segja fyrir mig að ég verð bara leið þegar ég er inni í svona ofsalega góðu veðri og er alls ekki í góðu skapi. Ef er sól úti, þá langar mig ekki að vera inni. Ef er rigning þá er ég bara glöð því þá sit ég inni í hlýjunni, með te og kannski trefil? Ég hef aldrei skilið þetta en ég svo sem hlusta sjaldan á útvarp því mér finnst útvarpsmenn yfirleitt svo glataðir.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sólin skín

Aldeilis fínt veður í dag og á að vera æðislegt á morgun líka. Það er sól, 26 stiga hiti og það er sumarstemmning bara. Mjög heppilegt að ég verð einmitt í fríi á morgun. Borgar, Elín og strákarnir eru að koma frá Afríku og ætla að millilenda hjá okkur. Það verða því ekki alltof mikil viðbrigði fyrir þau, a.m.k. frá Nairobi til London. Það er annað mál með London-Reykjavík. Þau verða bara að klæða sig vel.

Planið á morgun er að fara á rúntinn í London, fara í ferðabókabúðina í Covent Garden, jafnvel í hádegissushi og svo á jógúrtísstaðinn góða, Muffinskis. Fyrst að verður svona gott veður á morgun, þá er skyldumæting á hann, mmmm.

Annars verð ég grasekkja á laugardaginn. Jóhannes er að fara aftur til Bandaríkjanna (Boston) og verður í viku. Við hittumst svo í nokkra daga áður en ég fer svo til Íslands í viku. Meira spanið. Hundleiðinlegt að vera einn heima en hef samt nóg að gera, þarf að vinna nokkur verkefni áður en ég fer til Íslands næst. Við ætlum að reyna að fara til New York í haust (þ.e. ef flugvélin hrapar ekki, við verðum ekki fyrir flugráni eða ef vélin verður ekki skotin niður af hryðjuverkamönnum. Er annars bjartsýn sko). SMANNA eruð þið með?

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Flughræðsla Part II

Ég er að spá í að verða flughrædd aftur. Það eru núna daglega fréttir af flugslysum. Það er eins og flugvélafloti heimsins hafi ákveðið að gefa upp öndina. Fóru eftirlitsmenn í verkfall í öllum þessum löndum? Er fólk loksins að átta sig á því að það að fljúga í flugvél er bara órökrétt og rangt? (hef ekki annan kost, ég veit, en það er samt rangt).

Las grein um daginn þar sem var verið að tala um hvað svokölluð tölfræði á bak við flugslys gefur manni falska öryggiskennd. Jú auðvitað er maður í meiri hættu við að verða fyrir bíl á leiðinni út á flugvöll en að lenda í flugslysi en það er allt miðað við vegalengdir sem flognar eru. Langar vegalengdir jafna út tíðni flugslysa á styttri vegalengdum og gera þær „öruggari“. Miðað við tölfræðina er mesta hættan við að taka á loft og lenda. Það þýðir að maður er í mestri hættu þegar maður er að millilenda í lengri flugum (miðað við tölfræðina). Þetta er dálítið skondið þegar maður tekur inn í myndina ferð með geimfari til tunglsins. Miðað við vegalengd er það svakalega öruggt þó að það séu talsverðar líkur á því að maður drepist á leiðinni. Þó að sé farin ein ferð sem heppnast bara aðra leiðina (þ.e. ef geimfarið springur á leiðinni heim) þá er það samt mjög öruggt miðað við vegalengd. Skiljið þið hvað ég meina? Ég er hætt að trúa á tölfræðina, mína einu stoð og styttu í flughræðslunni.

Það er samt klárt mál að til að auka lífslíkur mínar þá forðast ég lágfargjaldaflugfélögin eins og ég mögulega get. Ef þeir eru að skera niður peninga þá hljóta þeir að skera niður varðandi öryggi, einhvers staðar. Það hlýtur bara að vera. Ég vil líka frekar hafa brosandi, sætar flugfreyjur frá Flugleiðum (þó ég þoli ekki fyrirtækið) heldur en flugfreyju frá Iceland Express í vondu skapi (eins og svo oft er raunin).

Dömur mínur og herrar, við erum nú að búa okkur undir hrap, vinsamlegast spennið sætisólar, gætið þess að fótskemlar og sætisbök séu í uppréttri stöðu og borð fyrir framan ykkur séu föst. Fyrir ykkur sem viljið gera síðustu kaup (SÍÐUSTU KAUP) í Djútí Frí verslun okkar, vinsamlegast gerið það núna. Áætlaður tími á komustað (fjall) er eftir 2 mínútur. Icelandair þakkar samfylgdina.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It