Flutningar: úr W1W yfir í SW19

Við erum að flytja okkur um set hér í London. Við ætlum að flytja aðeins út fyrir miðbæinn og munum búa á stað sem heitir Wimbledon Village og er voða sætur bær með litlum sætum búðum og stórum, fallegum almenningsgörðum. Hann tilheyrir London og það er auðvelt að komast inn í miðbæinn. Ef Afkvæmið fer í skóla í Wimbledon hefur Jóhannes mikinn áhuga á að koma henni í Wimbledon School for Girls sem er sami skóli og Lara Croft var í...við sjáum til með það he he.

Við ákváðum að breyta til og okkur langar að prófa að búa aðeins fjær West End/Soho svæðinu sem hefur hingað til verið okkar svæði. Okkur þykir auðvitað ákaflega vænt um „okkar svæði“ en við erum líka til í meira pláss, garð, stærra eldhús o.fl. sem er ágætt að hafa þegar maður er orðinn fleiri en 2 í heimili. Þetta er komið ágætt af flutningum síðan 1. maí 2010 (eða eiginlega síðan í mars/apríl þegar við fórum til Afríku því við fluttum út skömmu eftir ferðalagið)...Við erum reyndar búin að búa hér í 6 mánuði en vorum á dálitlu flakki fram að því. Ég hlakka mikið til að sleppa við að fara með Afkvæmið í kerru upp á 3ju hæð + innkaup (sæmilegir upphandleggsvöðvar get ég sagt ykkur) 2var á dag. Ég hlakka líka til að búa í húsi en ekki í fjölbýli, það verður góð tilbreyting því þá er maður ekki með hjartað í buxunum þegar Afkvæmið startar hljóðbókinni sinni með öllum dýrahljóðum heimsins eða ákveður að kl 7 að morgni sé tíminn til að lemja dúkkuhaus í gólfið svona eittþúsundogáttasinnum. Ekki það að nágrannarnir hafi kvartað, sumir þeirra vissu ekki einu sinni af Litla skrípinu fyrr en mörgum mánuðum eftir að við fluttum inn enda reynum við að hafa bara mjúk leikföng uppi við fyrir kl 9 og háttatími er yfirleitt um kl 18 svo ekki er verið að halda nágrönnum vakandi á kvöldin. Það er hins vegar hundleiðinlegt að vera alltaf að pæla í þessum hlutum. Það verður þægilegt að vera alveg sama þó dúkkuhausinn fari í gólfið eittþúsundogáttasinnum, oft á dag.

Þó ég sakni ekki stigans (hnéð er ekki alveg í hamingjukasti yfir stiganum) þá mun ég sakna þess að geta ekki labbað á Tottenham Court Road, í John Lewis o.fl. staði sem ég var vön að rölta á en í staðinn er ég stutta lestarferð frá stærstu matvörubúð Evrópu sem er jú líka í leiðinni stærsta heilsubúð Evrópu, Whole Foods Market. Það eru ekki leiðinleg skipti!

Við erum annars nýkomin úr góðu fríi frá Íslandi, endurnærð á sál og líkama. Ég fór meira að segja á hestbak (tengdó lánaði okkur hross) og þó ég gæti ekki rétt úr hnénu í 3 daga á eftir og þó það hafi verið bólgið og þó mér hafi verið illt alveg upp í mjöðm og þó reiðtúrinn hafi bara verið 10 mínútna hringur á feti þá var það samt ákveðinn sigur því ég fór síðast á hestbak fyrir mörgum árum, áður en ég lenti í þessum þremur aðgerðum á hnénu. Það kom mér ekkert á óvart að mér hefði verið illt en ég gat gengið eftir reiðtúrinn og það var bara gott. Afkvæmið fór heldur betur á hestbak og grenjaði rosalega þegar tími var kominn til að stíga af baki. Eins var skemmtilegast í heimi að róta sagi, borða hrosskít og fleira sem börn gera í hesthúsum. Við vorum í afskaplega góðu yfirlæti á meðan á dvöl okkar stóð því við gistum í húsi við Elliðavatnið, inn á milli grenitrjáa og vöknuðum við hanagal á morgnana. Afar, afar ljúft og við gætum alveg vanist því að búa svona afsíðis og er svo sem ágæt æfing svona áður en við flytjum til Wimbledon sem er öllu rólegri en blessunin London!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Til hamingju með flutningana. Lýst rosa vel á nýja hverfið :-)

sigrun
13. jan. 2011

Takk fyrir Jóhanna :)

Hrundski
13. jan. 2011

Líst svakalega vel á þessa flutninga. Svo mæli ég bara með að þú skellir þér til Kingston. Ég fór alltaf þangað held það séu um 12 mín í lestinni. Þar er Waitrose, John Lewis, wagamama, nokkrir starbucks..... semsagt allt sem maður þarf. Litlir sætir garðar og göngugötur. Þarf nú bara að koma í heimsókn og kenna þér á SW19 og SW20 ;)

sigrun
13. jan. 2011

Ja há ég er sko alveg til í kennslu í SW19 og SW20....ég verð eins og túristi með kort fyrstu dagana!

Lísa Hjalt
13. jan. 2011

Þú átt eftir að vera í alsælu í nýja eldhúsinu. Viss um það. Og við munum njóta góðs af því ;-)

sigrun
13. jan. 2011

Fingers crossed!!!!