Jógúrtís í hollustudulargervi?

Ég er sjúklega hrifin af jógúrtísstöðunum sem spretta upp eins og gorkúlur um alla London. Svo hrifin að það jaðrar við áráttu. Ég læt mig meira að segja hafa það að sitja skjálfandi úr kulda, blá í framan með jógúrtís í höndunum í staðinn fyrir að kaupa mér flóaða mjólk eða latte. Fyrst var það Muffinski‘s í Covent Garden. Pínulítill staður sem selur muffinsa og jógúrtís. Jógúrtísinn er ekki með neinni sætu og einungis maukaðir ávextir gefa ísnum bragð. Ísinn er ekkert sérstakur, mætti vera 1 mtsk af agave til að draga fram sæta bragðið í ávöxtunum og þá væri hann mjög góður. Þetta var nýjung þegar við bjuggum hérna fyrst og við sóttum staðinn oft bara fyrir jógúrtísinn. Á síðustu þremur árum hafa svo opnað Snog, Yog og Yu-foria ásamt fleirum. Snog er besti staðurinn að mínu mati. Fór einmitt þangað í dag og borðaði æðislegan jógúrtís með agavesírópi og bláberjum. Hreinn unaður.

Á Íslandi um daginn sá ég í blöðunum að jógúrtstaður hefði verið opnaður. Ég fagnaði því mjög því það má gera hrikalega holla ísa með jógúrti, eitthvað sem ég hef leikið mér að á undanförnum árum með alveg ágætis árangri (birti uppskriftir síðar). Ég sá líka að staðurinn auglýsti „hollan og góðan jógúrtís“ og ég fagnaði enn þá meira. Ég var að lesa nánar um fyrirbærið í dag og sá að þeir nota bragðefni í ísana sína. Bragðefni eins og Pina Coladabragð, vatnsmelónubragð, tyggjóbragð, sykurpúðabragð (marshmellow), karamellubragð, lakkrísbragð o.fl, o.fl. Allt í allt yfir 50 bragðtegundir. Svo getur fólk raðað ávöxtum og sælgæti ofan á ísana (það væri gaman að gera könnun á hversu margir velja ávextina ofan á). Flestir munu líklega fá sér jógúrtís með bragðefni, því þetta er jú svo „hollt og gott“. Mér þykir líklegt að um sé að ræða síróp með litarefnum, bragðefnum og auðvitað sykri. Fólk á eftir að borða heilu baðkörin af þessum ís „vegna hollustunnar“. Ég vil ekki vera leiðinlega týpan (ég er alltaf eitthvað að nöldra) því ég fagna svo innilega að fólk geti haft val um hvort það fái sér jógúrtís eða venjulegan ís. Það er hins vegar afskaplega slæmt ef ísinn er auglýstur sem „hollur og góður” ef sírópið sem notað er í hann er rusl. Ég myndi gjarnan vilja sjá ítarlega innihaldslýsingu á sírópunum, á vefsíðunni þeirra. Það ætti ekki að vera flókið verk.

Mikið vildi ég að framfylgja þyrfti reglum áður en yfirlýsingar eru gefnar út varðandi hollustu matvöru á Íslandi. Þetta fer ólýsanlega mikið í taugarnar á mér og því fer fjarri að þetta sé eina dæmið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Laufey
16. nóv. 2010

Já, YoYo ísinn er alveg ábyggilega langt frá því að vera hollur... Þetta er dísætur ís með gervibragðefni, ekki að mínu skapi. Hann er eiginlega alveg óætur af sætu og "cool aid" bragði!

Sigrún
16. nóv. 2010

Hef ekki smakkað ísinn sjálf en "Cool Aid" bragð fór alveg með þetta hahahahahahaha...hljómar ekki vel.