Óvænta spurningin

Í búðinni sem er næst skammtímaíbúðinni okkar er stór matvöruverslun (með Starbucks innan í, mér jú til mikillar gleði). Í versluninni er einnig apótek og þangað átti ég erindi í dag. Litla Skrípið hefur hingað til ekki fengið kvef, hita né nokkuð annað....7, 9, 13... Enda fær það afspyrnu hollan, gufusoðinn mat em og lífrænt ræktað og framleitt hráefni, allt vel samsett og útpælt. Það hlýtur að hafa sitt að segja. Daman fékk reyndar svolítinn hita og stíflað nef eftir sólarhrings ferðalag til Afríku en það er held ég eðlilegt. Hún var aldrei lasin, bara smá slöpp í einn dag. Það er alveg týpískt þegar maður er orðinn slakur, að einhver veikindi koma upp. Þess vegna fór ég í apótekið svona EF eitthvað kæmi upp á að ég ætti eitthvað við beinverkjum, stífluðu nefi og þess háttar. Ég á reyndar stíla (frá Íslandi) svona í neyð en mig vantaði meira svona eins og fyrir tannverki því Litla dýrið er að taka tennur og er allt annað en hamingjusamt yfir því. Ég er með öll ráð og brögð á minni könnu varðandi tanntöku (kaldir naghringir, kaldar gulrætur, blautir og kaldir þvottapokar o.s.frv.) en vildi fá eitthvað sem gæti komið henni yfir það allra, allra versta. Litla Skrípið er sjaldan í vondu skapi en þegar tennurnar eru að láta á sér kræla...þá vei þeim sem er nálægt. Þeir sem hafa verið í tannréttingum vita að allt sem hefur með hreyfingar á tönnum að gera, er algjört helvíti og það að þær rífi sig í gegnum holdið hlýtur að vera allt annað en þægilegt.

En hvað um það. Ég vel úr hillunni og trítla í átt að sjálfsafgreiðslukössunum. Þar skannar maður sjálfur vörurnar sínar og setur í poka og greiðir fyrir. Afskaplega þægilegt og einfalt. Ég skanna inn verkjalyfið (sykurlaust verkjalyf með jarðarberjabragði en engin aukaefni eða bragðefni, voðalega náttúrulegt). Umsvifalaust pípir kassinn og kvenkyns starfsmaður kemur askvaðandi. Það er ekki óvenjulegt að tölvugerða kassadaman (röddin úr sjálfsafgreiðslukössunum, týpískt að röddin sé kvenkyns en það er annað mál) segi við mann t.d. „Varan er ekki rétt skönnuð inn, reyndu aftur“ eða „Vinsamlegast sláðu inn fjölda“ eða „Notar þú eigin poka“ og svoleiðis. Allt góðar og gildar spurningar. Það sem tölvugerða kassadaman sagði við mig í dag var „Vinsamlegast sannreynið“ (please validate). Yfirleitt þegar einhver svoleiðis skilaboð koma þá kemur einhver starfsmaður hlaupandi og skannar passann sinn inn og þá getur maður haldið áfram. Tekur um eina sekúndu. Konan (grönn, eldri kona, gráhærð og með gleraugu í dökkbláu plíseruðu pilsi), kemur, eins og áður sagði askvaðandi og skannar passann sinn. Ég ætlaði að taka næstu vöru upp úr körfunni þegar hún slengir framan í mig spurningu sem ég var SVO, SVO, SVO ekki viðbúin: „Hvað ertu gömul“. Ég var svo fullkomlega, eitt hundrað prósent, algjörlega ekki viðbúin þessari spurningu og hún kom SVO flatt upp á mig að í flaustri kom ég ekki upp orði. Ekki.einu.einasta.orði.

Ég starði á konuna og þurfti að HUGSA, virkilega að hugsa, hvað ég væri gömul. Tvær sekúndur liðu (sem er óratími í svona aðstæðum). „Uuuuuuu 24?“ var það fyrsta sem mér datt í hug.. (og ég er ekki rass í bala 24 ára).....2 sekúndur liðu.....„nei ég meina....29 ára?“ Aðrar 2 sekúndur liðu á meðan ég reiknaði út fæðingarárið mínus 2010...„Nei ég meina sko 36 ára....Í alvöru“..... Konan horfði á mig mjög furðulega...horfði svo á Litla Skrípið í kerrunni og hefur líklega vorkennt þessu barni sem átti FÁVITA (eða dóphaus) fyrir móður. Það leið smá stund og ég tók af mér sólgleraugun því mér finnst óþægilegt að svitna á nefinu (sem ég var farin að gera). Mér leið virkilega, virkilega illa því ég var svo fullkomlega ekki með á nótunum. Ég var í svona „ég ætla að fá glúteinlaust kaffi“ ástandi þ.e. annars hugar. Um LEIÐ og ég tók af mér sólgleraugun brosti konan og sneri sér við.

Ég stóð eftir, með sólgleraugun í höndunum og fannst ég ótrúlega gömul í framan. Mig langaði helst að fara og kaupa mér hrukkukrem. Hún spurði mig um aldur minn (maður þarf að vera eldri en 20 ára) þegar ég var með sólgleraugun Á mér en um leið og hún sá framan í mig brosti hún og þar með var málið dautt. Hvað á maður að halda? Á maður að kaupa sér hrukkukrem í næstu búðarferð?

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
09. júl. 2010

hrukkukrem? svo aldeilis ekki, bara vera alltaf með sólgleraugun og segjast vera 24 ;-)

Eygló frænka
10. júl. 2010

Ég segist ALLTAF vera 27. Happaaldur.....

Sigrún
10. júl. 2010

24 og 27 ára....líst vel á þessar tölur stelpur :)

Elva
10. júl. 2010

Eða þú getur bara sagt, 'None of your business, thank you very much', því allir vita að maður spyr dömur aldrei um aldur. Þetta er svona svipað eins og maður spyr aldrei konu af fyrra bragði; 'Nei, ertu ólétt?'! Alltaf að bíða eftir að manni séu sagðar fréttirnar, þ.e. ef einhverjar eru :-)

Sigrún
10. júl. 2010

Mikið rétt Elva mín, ég hef þetta á bak við eyrað næst ;)

Melkorka
11. júl. 2010

Skemmtileg saga! Ég er farin að verða soldið viðkvæm fyrir aldri mínum þó ég sé bara að verða 29 ára. Mér finnst það asnalegt af mér. Markmiðið er að geta sagt með stollti hvað ég sé helvíti gömul. Ég er farin að æfa mig í að segja eitthvað eins og ,,ég er orðin svo gömul að ég þarf að fara að fá mér gleraugu". ,,Er ekki frá því að eyrun á mér séu farin að stækka, og nefið og ég þurfi að fara að plokka á mér efri vörina" :)