Kvennaeyjan

Maður sér margt skrítið í London.

Ég fór í klippingu í morgun og inni á stofunni blasti við mér einn af aðstoðarstrákunum sem er hýrari en allt sem hýrt er. Hann var með 40 sm háan hanakamb frá enni og aftan á hnakka sem var í orðsins fyllstu merkingu í regnbogans litum. Enda fór gleðigangan í London fram í dag og hann var að hafa sig til. Hann var mikið skreyttur með pallíettum, glimmeri, litríkum borðum og var með stóran fána í stíl við hárið og naglalakkið. Hann fer líklega ekki fram hjá neinum í göngunni. Yfirmaður hans og eigandi hárgreiðslustofunnar sagði „vá þú ert hýrari en allt hýrt sem ég hef séð á ævinni...og þá er nú mikið sagt“. Hanakamburinn fór stráknum (sem er hálfur Spánverji og hálfur Filippseyingur) mjög vel og hann trítlaði út, glaður í bragði, tilbúinn í skrúðgönguna.

Í dag sá ég líka útigangsmann sem var spariklæddur. Hann var dragfínn, með bindi og í jakkafötum og skyrtu. Hann var eldrauður í framan og í inniskóm. Ég hafði helst á tilfinningunni að hann hefði labbað út af skrifstofunni og út á götu, með allar sínar veraldlegar eigur í pokanum,búinn að gefast upp á 9-17 vinnunni.

Í gær sá ég líka fulla umferðareyju af konum. Þar var á ferð múslimskur karlmaður með heilan her af eiginkonum í eftirdragi. Það hryggir mig alltaf jafn mikið þegar þessar karlfýlur eru léttklæddir og á eftir þeim er halarófan af eiginkonunum sem ekki sést í nema rétt svo augun og varla það og í steikjandi hita....urrrrrr. Umferðareyjan var á stórri umferðargötu sem ég var að ganga eftir. Allt í einu heyri ég mikið bílflaut og allt í pati (ekki óalgengt á þessari götu en það keyrði alveg um þverbak). Ástæðan fyrir bílflautinu og umferðarteppunni var sem sagt að þessi her af eiginkonum fyllti heila umferðareyju og gott betur því rassar og brjóst (mikið af þeim) og hendur og lappir stóðu alls staðar út fyrir, á miðri akbrautinni (sem er álíka umferðarþung og Miklabrautin). Eiginmaðurinn var að reyna að smala þessum svartklæddu konum upp á eyjuna en þær voru eins og óstyrilátar rollum í réttum og æstust allar upp við bílflautið sem þýddi að þær ýttu hvor annari lengra út á akbrautina. Það fór þannig að afar reiðir ökumenn (það þarf virkilega lítið til að koma þeim úr jafnvægi) steyttu hnefa og hreyttu ókvæðisorðum að karlinum sem hottaði á konurnar þangað til þær komust allar yfir götuna, í heilu lagi..... Svei mér þá ef glitti ekki í ökkla einhvers staðar þarna í öllum æsingnum.

Við búum líka við hliðina á húsi þar sem Alfred Hitchcock bjó í, í rúm 13 ár. Húsið er virkilega draugalegt og drungalegt með skítugum rúðum og rauðri útidyrahurð sem er byrjuð að flagna. Það getur ekki verið tilviljun að hurðin sé blóðrauð. Ég sé aldrei sama fólkið koma inn og út úr húsinu en kannski ekki að marka því ég flýti mér alltaf dálítið mikið fram hjá húsinu og bíð alltaf eftir að sjá fugla fljúga úr því eða heyra í æpandi konu í sturtu eða einhverju svoleiðis. En ekkert gerist. Kannski er hugmyndaflugið bara að hlaupa með mig í gönur... og það er þá ekki í fyrsta skipti.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
05. júl. 2010

var að endurtaka þessa færslu fyrir eiginmanninn og hló svo mikið að ég gat varla sagt frá ... yndisleg lýsing á umferðareyju ;-)