Svolítill misskilningur

Ég er sérfræðingur í að mislesa umhverfi mitt. Þegar bíll flautar, tek ég flautið til mín og hoppa hæð mína af því mér bregður svo mikið (þó ég sé fyrir aftan bílinn). Ég ýti líka alltaf á hurðar þó að standi skýrt og greinilega „toga“ og öfugt. Ég er manneskjan sem fer alltaf í vitlausa röð t.d. á flugvöllum og bíð, og bíð, og bíð og þarf svo að bíða tvöfalt lengur í réttri röð. Ég er líka alltaf viss um að einhver ætli að gera mér til miska, sérstaklega í útlöndum (finnst allir líta bófalega út) og er þess vegna paranoid gagnvart t.d. peningum og myndavélum, geymi allt í öryggishólfum o.s.frv.

Í fyrradag var ég á gangi eftir götunni sem íbúðarhótelið okkar stendur við. Gatan er róleg íbúðargata og ég var á ferð um hábjartan dag, í einni öruggustu borg Evrópu, Búdapest. Ég gekk áleiðis heim eftir stutta innkaupaferð og var annars hugar (eins og venjulega). Í fjarska sá ég móta fyrir 3 karlmönnum. Svona karlmönnum sem mann langar ekki að mæta í dimmu húsasundi að kvöldlagi. Mig langaði að færa mig yfir götuna en það hefði verið svolítið augljóst og þeir hefðu örugglega elt mig. Þeir nálguðust ískyggilega hratt og ég fékk hnút í magann. Þeir störðu á veskið mitt sem hékk á kerrunni sem Afkvæmið var í. Þegar ungverskir menn stara, rennur manni kalt vatn milli skinns og hörundar. Þeir eru jú allir eins og skúrkarnir úr James Bond. Þessir 3 karlmenn gengu í humátt að mér, í stuttbuxum, greinilega vel duglegir í ræktinni (pottþétt á sterum), í hlýrabolum, með dökkt og vatnsgreitt hár, ljósblá og stingandi augu, stórt nef, kinnarnar inndregnar, augabrúnirnar þungar og mjög sólbrúnir (það eru sólbaðsstofur á öllum hornum hér). Það vakti sérstaka athygli mína (og kvíða auðvitað) að þeir voru allir tómhentir (tilbúnir að lúskra á einhverjum). Þeir voru líka með hendurnar út til hliðanna (eins og flestir svona kraftlyftingamenn).

Ég er svakaleg mús, viðurkenni það alveg og var að losa töskuna mína af kerrunni til að rétta þeim (engin ástæða til að streitast á móti)? Þeir komu nær, og nær, og nær og loksins alveg að kerrunni. Ég lokaði augunum, kipraði saman varirnar, ríghélt í töskuna, tilbúin til að láta hana af hendi en ekkert gerðist. Ég pírði annað augað og sá engan í gegnum örmjóa rifuna. Fyrr en ég leit aðeins neðar og þá heyrði ég líka ungverska útgáfu af „gúttsjí, gúttsjí, gú“. Allir þrír James Bond skúrkarnir voru á hnjánum að kjá framan í Afkvæmið sem skríkti og hló yfir þessum skemmtilegu mönnum. Þeir voru aldrei að stara á veskið mitt, heldur á Afkvæmið. Ég brosti vandræðalega og þóttist vera að ná í varagloss ofan í töskuna.

Jóhannes hlær alltaf jafn mikið að því hvað ég er óskaplega stressuð (hans hjartsláttur er í svona 50 í streituvaldandi aðstæðum) en ég segi alltaf að ég sé við öllu búin. Ég held bara að það sé svakalega gott að ég er ekki vopnuð svona dags daglega.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elisabet
14. jún. 2010

Hahahaha þvílíkar lýsingar maður. Eins gott að þú komst aldrei í heimsókn til okkar fyrir nokkrum árum. Vorum einmitt alltaf með 5-10 ungverja í vinnu. Akkúrat með svona útlit.

Lisa Hjalt
14. jún. 2010

þú ert BARA fyndin!

hrundski
14. jún. 2010

hahaha frábær lýsing. Hefðir átt að slengja í þá veskinu haahha. Við vorum eins þegar við vorum í skólanum þarna úti. Við héldum að Ungverska mafían væri útum allt (búið að segja okkur það) og sérstaklega var Kiddi stressaður :D

Jóhanna S. Hannesdóttir
17. jún. 2010

Hahahahahaha... ég sé þetta alveg fyrir mér! :-D