Og enn meira af söfnunaræaráttu

Ég fékk nestisboxablæti mínu heldur betur fullnægt í dag….eða þetta voru eiginlega ekki nestisbox (svona eins og kardimmommudropar "eru bökunarvara en ekki áfengi")….Ég fann lítil matarbox til að frysta grauta o.þ.h. í. Þau eru einlit og í nokkrum litum (en ekki skræpótt) og mjög sæt. Ég vissi af þeim eftir ábendingu frá Hrund vinkonu sem vissi nákvæmlega að hvernig boxum ég var að leita. Þó ég hafi hlýjar tilfinningar í garð Disney að flestu leyti eftir að Jóhannes vann þar í 3 ár (frábær vinnustaður) þá vil ég ekki sjá svoleiðis fígúrur á matardöllum sem ég nota til myndatöku…eða Dora the Explorer, eða Bubba byggi eða hvað þetta heitir allt saman. Ég fann þessi ílát í Hagkaupum Kringlunni (í fyrsta skipti sem ég fer í Kringluna í meira en 2 ár) og það lá við að ég hlypi sigurhring með boxin á lofti....þið sjáið þetta fyrir ykkur er það ekki í.... slow motion……Ég skalf úr hamingju þegar ég handfjatlaði ílátin. Ég strauk þeim ofurvarlega, ég þefaði meira að segja af pakkningunum. Ég horfði með aðdáun þegar afgreiðslumaðurinn pakkaði þeim í pokann. "Ég á þau". Langaði mig að segja við hann. "Þau eru mín". Ég gleymdi sem snöggvast að afkvæmið var á neðri hæðinni með pabba sínum og ömmu..sem betur fer því ég hefði gleymt aumingja barninu við rekkann þar sem ílátin voru geymd. Ég hefði svo pakkað ílátunum ofan í bílstólinn ofurvarlega og breytt yfir þau teppi og keyrt af stað. Ég hefði líklega áttað mig á ruglingnum þegar ég setti boxin í bað (þ.e. uppþvottavélina)…

Það góða við nestisbox er að ég get alltaf sagst vera að kaupa fyrir aðra en sjálfa mig og að ég sé bara að vera nýtin...t.d. "nei ég þarf þau fyrir nestið þitt Jóhannes". "En þú átt 20 alveg eins?"...."Nei þau eru ekki ALVEG eins, þessi eru t.d. með öðruvísi loki"....eða "Jú ég verð að kaupa þessi box til að frysta kökur í" (frysti eiginlega aldrei kökur en er mjög góður sölupunktur á Jóhannes.....eða "Það borgar sig margfalt að kaupa þessi box þó ég eigi alveg nákvæmlega eins box því ef þau eru öll í frystinum (þau kæmust aldrei öll fyrir)  þá á ég ekki neitt box til að frysta afganga í"...."Er þá ekki best að tæma frystinn?"....."Nei það borgar sig frekar að kaupa fleiri box".....(fljót að stinga í körfuna áður en kemst upp um mig......)..eða...(fyrir 3 mánuðum)...."Ég þarf nauðsynlega að kaupa box fyrir afkvæmið til að frysta mat í"..."En hún drekkur bara mjólk?"...."Já en það eru bara nokkrir mánuðir í að hún byrji að smakka graut...", "Sigrún hún er bara tveggja mánaða"...."Allur er varinn góður Jóhannes" (hér var ég ekki svo sannfærandi held ég sem sást best á því hvað ég ÆTLAÐI að segja næst "En ég gæti fryst litlar kökusneiðar"....(en hætti við).

P.s. ....ég er búin að eignast tvær uppskriftabækur síðan ég skriftaði um daginn....

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It