Meira af söfnunaráráttu

Nestisboxagræja
Ég var að fletta Fréttablaðinu í gær....og rak augun í auglýsingu. Hún var frá IKEA. Ég kaupi aldrei neitt frá IKEA nema í mesta lagi eitthvað eins og sleifar og skálar. Húsgögn kaupi ég yfirleitt ekki í IKEA. Ekki af því þau séu eitthvað sérstaklega ljót eða slæm eða neitt slíkt heldur vegna þess að einu sinni keyptum við allt innbú frá IKEA og fengum svo ógeð. Síðan eru liðin mörg ár og ég sé öðru hvoru mjög fínar mublur í bæklingum þaðan eða heima hjá fólki. Það er nefnilega þetta með að blanda saman nýju og notuðu því við kunnum ekki svoleiðis. Núna eigum við allt notað. Við eigum m.a. hundrað ára gamlan kirkjubekk frá Englandi, kirkjustóla og altarisborð einnig frá Englandi (fyrir þá sem eru búnir að gleyma, erum við ekki einu sinni í trúfélagi og þess vegna er þetta svo fyndið..það er meira að segja gert ráð fyrir sálmabókum á borðstofustólunum okkar. Það allra fyndnasta var samt að þessir stólar, 100 ára gamlir, fleygaðir (ónegldir) eru óslítandi og voru ódýrari en IKEA stólar). Stofuborðið okkar er frá 1870 og er gömul kista (fóðruð að innan með dagblöðum þess tíma, hrikalega gaman að lesa þau).

En já.....auglýsingin. Hún kveikti í mér. Ég fékk fiðring, svona eins og spilafíkill fær þegar hann sér spilakassa.  Ég var búin að gleyma eða réttara sagt ýta þessarri áráttu aftast í heilastöðvarnar...þar sem ég geymi allt hitt sem ekki á að vera opinbert hehehe. Ég er nefnilega nestisboxafíkill. Auglýsingin sýndi tindrandi nestisbox, glansandi fín með grænu loki (ég á engin nestisbox með grænu loki). Ég er með heila skúffu í dýrmætu plássi í eldhúsinu bara undir nestisbox af öllum stærðum og gerðum. Hrund vinkona mín sendi mér tengil um daginn á sniðuga nestisboxasíðu og ég var að velta fyrir mér hvernig ég kæmi þeim öllum fyrir.....áður en ég svo sló sjálfa mig utan undir. Ég sannfæri mig alltaf um að ég þurfi fleiri box fyrir nesti og slíkt. Ég útbý gríðarlega margt sem ég svo frysti og svo fær Jóhannes auðvitað nesti í vinnuna í mörgum nestisboxum (smoothie, hnetubland, hádegismat, nasl o.fl.). Afgangs matur fer líka í box. Nestisboxin mín hafa líka farið með mér oft til Afríku og víðar. Svo þið sjáið að nestisbox eru nauðsynleg. Svo ég er ekki svo galin. Ég er svo skynsöm. Ég þarf nestisbox. Ég þarf nestisbox með grænu loki...þessi sem glansa svo fallega í auglýsingunni.

Myndin er fengin að láni frá CoolGadgetConcepts.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Birna frænka.
17. feb. 2010

Á einmitt svona nestisbox frá IKEA en þau eru reyndar með bláu loki en svínvirka þrátt fyrir það:)

CafeSigrun.com
04. mar. 2010

Maður á nú ekki að segja frá svona Birna....lærði maður ekki hér einu sinni að deila með sér.... ;)