Íbúðaleit

Að finna góða íbúð í London er eins og að leita að nál í heystakki. Það er urmull íbúða til en fáar sem fara í gegnum okkar sigti + eru á viðráðanlegu verði. Við þurfum reyndar ekki mikið pláss og töluvert minna en flestir myndu vilja komast af með. Við erum dugleg að losa okkur við drasl og oftar en ekki förum við með dót á þá staði sem safna til góðgerðarmála eða seljum ef þannig liggur á okkur. Okkur líður ekki vel í of stóru húsnæði. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef átt heima í 45 fermetrum (fyrsta íbúðin) og 450 fermetrum (í foreldrahúsum) og ég veit að lykillinn að lífsgátunni felst ekki í fermetrafjölda. Sumum líður vel í stóru rými en öðrum líður vel í litlu.

Við höfum flutt svo oft á liðnum árum (og aðallega á milli London og Íslands) að við eigum ekki mikið af því dóti sem flestir safna að sér með árunum…svona eins og gasgrill, reiðhjól, garðyrkjugræjur (sbr. tilraun mín síðastliðið sumar), óþarfa föt, tímarit, styttur, bækur (nema matreiðslubækur sbr. síðustu færslu) o.fl. Við höfum reyndar verið dugleg að fara með föt sem við erum hætt að nota til Afríku þegar við erum þar á ferð. Svo hjálpar líka að ég hata að versla föt og er með ástríðufullt hatur á fataverslunum (ef ég þarf að kaupa eitthvað fyrir sjálfa mig). Ég er með þeim mun hamingjusamari í kokkabúðum og bókabúðum sem selja matreiðslubækur. Jóhannes er mun betri en ég í svona fatabúðum en útivistarbúðir eru búðirnar hans en þar gæti hann eytt heilu dögunum þess vegna (þó hann hafi auðvitað aldrei tíma til þess)…

En já aftur að íbúðum…..það sem mér leist best á af því sem ég hef verið að skoða á netinu, var á 25 þúsund pund vikan….(íbúðin var jú með svölum)…..Fyrir svoleiðis pening er eins gott að klósettpappírinn sé ofinn úr gullþráðum því 25 þúsund pund eru 5 milljónir og það var aðeins vikuleigan……Það er ekki alveg í okkar verðflokki….og eiginlega dálítið mikið langt frá okkar verðflokki. Eiginlega stjarnfræðilega langt frá okkar verðflokki. Við vorum mjög heppin síðast þegar við leigðum íbúð í London (Jóhannes datt inn á íbúðina eiginlega óvart) því við fengum gullfallegt húsnæði, í sætu húsi við sæta götu á frekar góðu verði með góðum nágrönnum og góðum eigendum. Við viljum eitthvað svipað…eða 3ja herbergja íbúð, miðsvæðis (sambærilega miðsvæðis og 101 í Reykjavík), við rólega og fallega götu, helst með svölum (eða stutt í almenningsgarð), með góðu eldhúsi (með stórum (og helst nýjum) ísskápi (er með fóbíu gagnvart gömlum ísskápum), uppþvottavél, góðum (og hreinum) bakaraofni og gaseldavél), ekki teppalagða, ekki á jarðhæð eða í kjallara, með snyrtilegu baðherbergi, nálægt þeirri lestarlínu sem tengir okkur við vinnu og Heathrow o.fl. Það er ekki verra ef sushistaður er í næsta nágrenni en ok ef ekki því ég get búið það til sjálf. Ef einhver veit um slíka íbúð endilega látið mig vita. Klósettpappírinn þarf alls ekki að vera úr gulli.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
10. feb. 2010

Raynes Park - Sigrún mín..... drífa sig bara þangað, okkur leið svakalega vel, lestar á nokkra mín fresti beint á waterloo.......og....og.....og.... þar er Starbucks ;)

CafeSigrun.com
10. feb. 2010

Já hmmmmm það voru sko tveir Starbucks í næsta götu þar sem við bjuggum áður...nenni helst ekki að fara með lest né strætó eitt né neitt.....við erum svo miklar miðbæjarrottur...samt kostir og gallar sko......