Söfnunaráráttan

Ég hef aldrei verið fyrir að safna hlutum eins og t.d. styttum, matarstellum, frímerkjum eða glingri. Í fyrsta lagi þoli ég ekki styttur (svona almennt) því þær taka pláss og gera ekki gagn (ólíkt t.d. skálum). Í öðru lagi hef ég aldrei getað safnað matarstellum því ég gleymi hvað ég á eða brýt allt (og gleymi hvað ég braut) vegna þess að ég er klaufi. Ég reyndi einu sinni að safna matarstelli…rosa flottu frá Denby….en ég á bæði ljósblátt og dökkblátt því þegar ég keypti þetta ljósbláa gleymdi ég að ég væri að safna því dökkbláa. Svo er ekki sniðugt fyrir mig að safna stellum því ég er alltaf að kaupa einn og einn disk eða skál hér og þar fyrir myndatökur (þ.e. fyrir matinn sem ég elda og set svo á vefinn minn), það er því ansi fljótt að safnast í skápum og skúffum, alls kyns dót sem alls ekki passar saman. Glingur nota ég yfirleitt ekki því ég er alltaf að stússa í eldhúsinu og nenni ekki að fjarlægja glingrið við handþvott eða annað. Aðalglingrið mitt er úr afrísku munaðarleysingjaheimili og afrískum þorpum (perlubönd úr plasti og þess háttar) sem ég hef keypt þó mig vanti alls ekki, bara til að styrkja starfsemina. Mér þykir einna vænst um það glingur af öllu því sem ég á. Frímerki skil ég ekki, punktur.

Mig langar að kaupa mér skó oftar en tími ekki að kaupa mér skó á 30-40 þúsund (kannski að ég verði aftur duglegri í London). Föt eru líka ekki inni í myndinni því mér leiðist fatabúðir meira en allt. Ég safna heldur ekki pennum, hnífapörum, dúkkum, Georg Jensen eða neinu svoleiðis…ekki alveg minn tebolli. Við erum heldur aldrei með neitt aukapláss, hver fersentimetri er nýttur og við erum líka alltaf að flytja eitthvað. Þegar við flytjum aftur út þýðir það enn meiri niðurskurður á fylgihlutum því við munum ekki búa í stóru húsnæði. Það er því ekki pláss fyrir neitt umfram það sem við notum og þurfum.

Ég er eiginlega bara með eina söfnunaráráttu….og hún er matreiðslubækur. Ég fæ ALDREI nóg af matreiðslubókum. Fólk trúir mér ekki þegar ég segist, aðspurð langa í matreiðslubækur í afmælis- og jólagjafir (ár eftir ár). Mér er sama þó þær séu litlar, stórar, þykkar, mjóar, íslenskar, útlenskar, innbundnar, gormaðar, harðspjalda eða mjúkspjalda. Það er eiginlega fátt sem gleður mig meira. Eina skilyrðið fyrir því að ég vilji uppskriftabók er að hún hafi einhverjar myndir. Ég þoli ekki uppskriftabækur án mynda. Mér finnst sérstaklega að margar af þessum vegan (jurtaætu) uppskriftabókum sem maður skoðar vanti myndir. Einmitt bækurnar sem þurfa góðar myndir. Eina undantekningin frá þessu eru afrískar bækur (en ég á nokkrar af þeim) ég veit að fólk hefur ekki efni á því að standa í alvöru útgáfu og það er ekkert sem ég veit skemmtilegra en að eignast bók sem er með afrískum uppskriftum og styrkja um leið gott málefni. Þá skipta myndir auðvitað engu máli því ég veit að uppskriftirnar eru góðar. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hversu glöð ég varð um helgina þegar mér áskotnaðist uppskriftabók frá Uganda með blöndu af uppskriftum m.a. afrískum (TAKK Elísabet!!!!!).

Það er brilliant að við séum að flytja. Það þýðir að ég VERÐ auðvitað að kaupa fullt af uppskriftabókum þegar við förum út því ég get jú ekki tekið þær allar með mér héðan. Mér finnst samt ég aldrei eiga nóg af bókum og ég er með alls kyns afsakanir (eins og ég hef áður bloggað um)…t.d. þessi er nú á útsölu eða það er 2 fyrir 1 eða ég vil nú styrkja þennan höfund eða myndin á forsíðu er svo falleg og mig vantar uppskrift að eplamuffins (ég á heilu bækurnar um eplamuffinsa). Bara þetta týpíska sem manneskja með fíkn tönglast á og afsakar sig með. En það skiptir eiginlega engu máli hversu slæm ég verð. Það er enginn jafn rosalegur í matreiðslubókaráráttunni og María vinkona okkar í London. Svefnherbergið hennar er yfir, yfirfullt af bókum. Hún skammast sín svo mikið fyrir áráttuna að aðeins fáir útvaldir fá að vita um bækurnar og HVAÐ þá skoða þær. Ég vissi ekki einu sinni um þetta safn fyrr en í fyrra (búin að þekkjast í 5 ár) því hún talar aldrei um það. Ég er ein af þessum útvöldu því ég skil hana SVO vel. Vandamálið (og það dýrðlega) við að búa í Bretlandi er að það er svo ALLT of auðvelt að láta senda sér bækur af Amazon. Með einum músarsmelli er bókin nánast komin í gegnum lúguna.

Allavega. Síðasta sumar gistum við hjá Maríu og manninum hennar og ég fékk að ganga að matreiðslubókaraltarinu. Hún vísaði mér veginn inn og það var reykelsisilmur í loftinu. Það var hálf rökkrað í herberginu hennar og hún dró svona spákonutjald frá (úr tréperlum). Við það féll sólargeisli á dýrðlegheitin. Ég féll á hnén, nánast. Frá gólfi og upp í loft, undir rúmi, við hliðina á rúminu…alls staðar voru bækur…bækur sem MIG langar að skoða og helst eiga. Það eru líka bækur hjá Maríu sem ég hef aldrei heyrt um og aldrei séð (það er eins og fyrir þann sem safnar frímerkjum að sjá sjaldgæft frímerki). Hún fór með mig í gegnum safnið og útskýrði bækurnar. Ég settist gáttið á rúmstokkinn og fletti nokkrum bókum. Ég sagði að ég skildi hana svo vel og hún þyrfti ekki að skammast sín (hér hefðum við getað verið tveir rónar að drekka kardimommudropa). Jú víst þarf ég að skammast mín sagði hún…ég er nefnilega rétt að byrja. Nei hvaða hvaða sagði ég…þú ert með nokkrar bækur úr flestum heimsálfum og helling um Ítalíu og Spán og Grikkland (hún er grísk). Já það er vandamálið…ég tek eitt land fyrir í einu og kaupi allar bækurnar sem til eru úr því landi….ég er bara búin með Ítalíu, Spán og Grikkland og ég kem ekki fleiri bókum fyrir (hér gætuð þið sett inn ‘vínflöskur’ í staðinn fyrir ‘bækur’…ein fíkn fyrir aðra). Ég missti hökuna niður í gólf (og missti alveg kúlið í svona eins og 2 sekúndur) og við það roðnaði María sem sagði að hún vissi að hún ætti við vandamál að stríða. Ég klappaði henni á öxlina og sagði að þetta væri lítið mál…hún gæti geymt allar bækurnar hjá mér þegar við værum flutt og maðurinn hennar þyrfti aldrei að vita þó hún keypti nokkrar í viðbót. Meðvirk? Ha ég?

Það versta er….María sagðist hafa byrjað þessa áráttu AFTUR þegar hún sá litla safnið mitt þegar þau dvöldu hjá okkur um jólin 2006 hér á Íslandi. Hún sagðist hafa fallið og það illa. Hún á nefnilega alveg eins safn og ef ekki stærra í Ástralíu þar sem hún á íbúð líka. Hún hafði búið í London í 7 ár og ekki keypt sér matreiðslubók. Hún þurfti bara að sjá fallegu myndirnar og allar fínu uppskriftnar og BAMM...kolfallin. Ég er því svolítið samsek og eiginlega brjálæðislega ánægð með það þar sem það er nokkuð víst að við verðum nágrannar í London…ég hlakka til. Jóhannes segir að við eigum að opna bókabúð með matreiðslubókum. Aftur á móti eins og góðum fíkli sæmir læt ég þetta sem vind um eyru þjóta…ég á ekki við vandamál að stríða…Ég er mest hrædd um að maðurinn hennar Maríu og Jóhannes framkalli inngrip eins og gert er af aðstandendum fíkla..og þeir komi að okkur í herbergi Maríu, þar sem við erum við matreiðslubókaaltarið. Þegar þeir nálgast munum við særa þá út með myndum af súkkulaðimuffinsum eða kökum…og dansa svo stríðsdans með sleifar á lofti og hlægja brjálæðislega. Neibb…ég á ekki við vandamál að stríða.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elisabet
01. feb. 2010

Gaman ad hafa glatt tig stelpa. Hahaha skemmtilegt blogg. Æðislegt ad hitta ykkur um helgina og eg a sko pottþett eftir ad rukka tig um kökuna godu adur en tid flytjid ut, Ég safna engu sjalf heldur, en kaupi alltaf segul a ísskapinn fra hverju landi sem eg fer til. Helst 2-3 og er komin slatti i safnið En einu sinni safnadi eg skom og tegar eg var komin yfir 150 pör og einn reiknadi tad ut ad teir kostudu meira en hans fíni Ram jeppi sagði eg stopp a sjalfa mig,,,,

Þegar ég var við nám í Kanada heyrði ég sagt frá fornum bókasöfnurum í útvarpinu. Ég man nú ekki nákvæmlega lengur hvernig það var en einn var þannig að þegar húsið var orðið fullt þá flutti hann í annað o.s.frv. Annar geymdi bækurnar í ódýrum líkkistum (viðarkössum með handföngum) svo auðvelt væri að bera þær út úr vöruskemmunum ef það kviknaði í.

Svo á maður að njóta nautnanna annars er ekkert gaman.

Hafðu það gott. Gyða

Elín
01. feb. 2010

Mikið er ég glöð að þú ert haldin þessar fíkn :-) Alveg viss um að við lesendur þínir njótum góðs af því að það er nauðsynlegt að fá innblástur til að búa til góðar uppskriftir.

Hrönnsa
07. feb. 2010

Ég kannast vel við þessa fíkn því ég haldin henni sjálf á mjög háu stigi og get alltaf réttlætt nýja bók í safnið :)

Lisa Hjalt
04. mar. 2010

það ætti að ramma þessa færslu inn ásamt mynd af tveimur matreiðslubókafíklum … verð í krampa í allan dag