Hver vegur að heiman er vegurinn heim..til London

Westminster í rökkrinu

Við féllum kylliflöt fyrir London í fyrstu ferðinni okkar þangað sem hefur líklega verið í kringum 1997. Við heilluðumst af borginni og ákváðum að fara þangað í framhaldsnám eftir háskólanám hérna heima. Við fluttum fyrst 2001 (rétt áður en hryðjuverkaárásirnar í New York áttu sér stað) og bjuggum þar til 2003. Við fluttum svo til Íslands 2004 og fluttum aftur út til London 2005. Milli 2005-2007 var ég á stöðugu flakki á milli London og Íslands vegna vinnu minnar og fór nánast í hverjum mánuði á milli, viku í senn. Við fluttum svo að lokum hingað til Íslands 9. mars 2007 og höfum því verið hér í tæp 3 ár. Við erum orðin eirðarlaus. Það er kominn tími á okkur eins og farfuglana og við ætlum að fljúga til London snemma á nýju ári.

Við höfum aldrei búið eins lengi á sama stað eins og hér, síðan við byrjuðum að búa saman fyrir um 15 árum síðan. Enda er íbúðin notaleg og okkur líður vel í henni. Við erum þó óttalegar flökkukindur og um leið og við erum búin að vera of lengi á sama stað förum við að ókyrrast. Við erum bæði þannig…finnst óþægilegt að vera í sama farinu lengi. Ég hreinlega dáist að þeim sem finna ró til að búa á sama stað alla ævi. Ég vildi óska að ég væri þannig. Hugmyndir voru uppi hjá okkur um að flytja jafnvel til Japan eða Zanzibar (höfum komið á báða staði) en ákváðum að byrja auðvelt og þar sem við vitum að við kunnum vel við okkur. Það eru kostir og gallar við alla staði, við vitum það mæta vel en eins og er, finnst okkur kostirnir við London vega þyngra en gallarnir, svona miðað við Ísland.

Ég man enn þá þegar við fórum úr íbúðinni í London 2007. Eigendurnir (reglulega indæl hjón) voru á staðnum (þau voru að fara að selja íbúðina og voru að tala við fasteignasalann). Mér fannst svo ótrúlegt að vera að fara. Ástæðan var vinnutengd (ekki það að mig langaði svo hrikalega til Íslands). Ég man enn þá hvað ég var sorgmædd á leiðinni út á völl….ég man enn þá hvað mér leið illa þegar við gengum inn um dyrnar á íbúðinni okkar á Íslandi og ég man enn hversu erfiðar fyrstu vikurnar og mánuðirnir voru. Það tók okkur langan, langan tíma að aðlagast Íslandi aftur og hefur aldrei almennilega tekist. Oft fannst mér ég vera í eins konar sorgarferli og ég stóð mig að því að verða miður mín yfir að finna t.d. gamlan lestarmiða. Ég get ekki horft á fréttir frá London því ég get ekki hugsað mér að sjá "heimili mitt" og ekki vera þar. Það sáu svo sem allir og vissu að í þetta stefndi, eins og alkahólisti sem er búinn að horfa á flöskuna lengi, er alveg við það að falla.

Við höfum alltaf verið með hugann við London, við eigum ekki almennilega “heima“ á Íslandi. Ég er alltaf að vinna fyrir fyrirtæki í London öðru hvoru og hef aldrei almennilega slitið mig frá. Jóhannes ekki heldur. Reglulega fáum við sting í magann úr söknuði, sérstaklega í kringum jólin því við vitum bæði hversu dásamleg London er yfir aðventuna.

Okkur finnst reglulega gaman að heimsækja Ísland og okkur finnst gaman að ferðast um landið okkar fallega. En við viljum ekki búa hérna, a.m.k. ekki með aðalheimili okkar hér. Við viljum frekar hlakka til að koma hingað heldur en að líða illa yfir að búa hérna. Við ætlum okkur að vera reglulegir gestir á Íslandi og ætlum okkur í raun að eiga tvö heimili, eitt á Íslandi og annað í London, ef við getum. Við eigum nefnilega góða vini og fjölskyldu sem við viljum ekki að gleymi okkur. Það verður erfitt að skilja við fólkið sitt en að sama skapi enn skemmtilegra að hittast aftur.

Það er svo ótrúlega auðvelt og lítið mál að flytja svona á milli landa (trúið mér við erum orðnir sérfræðingar he he) svo ef okkur myndi nú snúast hugur, væri minnsta mál í heimi að koma aftur. Við hlökkum líka til að fá gesti til okkar en það er alltaf gaman og höfum við hýst ófáan ferðalanginn sem genginn er upp að hnjám eftir verslunarferðir í borginni. Við fengum í raun fleiri heimsóknir þangað en við fengum í a.m.k. 2.5 ár eða þangað til litla skrípið fæddist.

Við erum bara svo lélegt rútínufólk, við þolum ekki að gera það sama dagana út og inn, við verðum að setja okkur áskoranir og aðeins að gera þetta flóknara, annars er ekkert gaman. Að búa á Íslandi getur nefnilega verið óþarflega einfalt (kannski ekki þessa dagana reyndar). Við vitum að margir skilja hvorki upp né niður í okkur en þannig er þetta bara..alveg eins og við viljum ekki búa á Íslandi, er fólk sem vill ekki búa í London.

Lífið má nefnilega ekki verða of auðvelt til að maður gleymi að lifa því.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdóttir
14. des. 2009

EKKI FARA. KV.M

Lisa Hjalt
14. des. 2009

About bloody time! (lesist með MJÖG breskum hreim).

Þetta er svolítið svona E.T. phone home moment, ha ha, og er ég MJÖG ánægð með þessa ákvörðun; búin að bíða frekar lengi eftir þessar færslu verð ég að segja.

LONDON BABY!

hrundski
14. des. 2009

haha bara að muna að þegar þið finnið íbúð úti muna að tékka hvort börn séu leyfð. Oft stendur no children or pets í leigusamningnum ;)

Og svo mæli ég með að fá íslenska aupair bara með út. Mun ódýrara en leikskólarnir.

Góða ferð - kíkjum á ykkur þegar við fáum heimþrá til London (sem er reyndar ansi oft)

CafeSigrun.com
14. des. 2009

Við verðum með þetta allt á hreinu, no worries :)...annars smíðum við bara hundakofa handa Emblu ;)

Lena
14. des. 2009

Hlakka til ad fylgjast med bloggi thínu thadan. Byrjadi ad fylgjast med her thegar thú bóst í London. :-)

Lena
14. des. 2009

P.s. skil vel thá ákvørdun ad drífa ykkur út. Bý sjálf erlendis, og líkar thad bara svooooo mikid betur. Lífstíllinn hér, og verdlagid á bara mikid betur vid mig. En sakna fjølskyldu og vina ad heiman. En stundirnar sem madur á med fólkinu sínu er bara svo miklu betri og dýrmætari thegar madur býr erlendis. Madur nýtur theirra miklu betur. Thegar madur býr á Íslandi eru allir svo uppteknir og madur hefur lítinn tíma fyrir heimsóknir...

CafeSigrun.com
14. des. 2009

Alveg sammála Lena, alveg sammála :)

Alma María
15. des. 2009

Fyrir mér ertu auðvitað ekkert að fara neitt enda fylgist ég bara með þér hér í netheimum. Ég tel samt að þið séuð að taka rétta ákvörðun svona miðað við mína bloggupplifun af þér. Þetta með gæðastundirnar með fjölskyldunni er svo rétt. Allir svo uppteknir hér en þegar gestir koma eða maður kemur heim fær maður alvöru tíma með fjölskyldu og vinum. Það var amk mín upplifun meðan ég bjó erlendis.

Góða ferð Sigrún og ég hlakka til að fylgjast áfram með þér og þínum.

CafeSigrun.com
15. des. 2009

Nákvæmlega Alma :) og takk fyrir stuðninginn!

Anna Stína
16. des. 2009

Ha? Ekki hvarflaði að mér að þið færuð aftur .... hahahaaa !!!! Við fylgjumst með þessu öllu saman og fáum live feed á því sem er að gerast. Auðvitað munum við sakna ykkar þegar þar að kemur, en c'est la vie - ég þekki fleiri sem eru með kláða í iljunum :-) Knús á ykkur.

Jóhanna S. Hannesdóttir
26. des. 2009

Ég styð þessa ákvörðun. London er æði og samgleðst ég ykkur innilega að vera að fara flytja þangað aftur :-)

Elisabet
18. jan. 2010

aaaaaaaaaaaaaa afhverju akvadud tid ekki ad fara til Zanzibar frekar???????? Ta hefdi eg komid i heimsokn og aldrei farid heim aftur... En er samt ogo anægd med ykkur og hlakka til ad koma i heimsokn