Andóléttan

Það eru eflaust margir hissa á því að ég hafi ekki bloggað einn staf um væntanlega fjölgun. Við erum að tala um svolítið langan tíma...9 mánuði. Á því tímabili fórum við t.d. til London og vorum í mánuð (maí – júní) og fórum svo aftur til London í ágúst, akkúrat mánuði fyrir fæðingu, á 88 þúsund manna U2 tónleika þannig að ég hef aldeilis ekki bara setið upp í sófa með tærnar upp í loftið, enda engin ástæða til.

Það voru nokkrar ástæður fyrir því að ég bloggaði ekkert um innrás dömunnar. 1) Ég er eins og þið vitið afar prívat með allt mitt einkalíf og gef yfirleitt lítið uppi hér á vefsíðunni um hver ég er eða hvað ég geri (CafeSigrun vefsíðan er jú aðeins áhugamál mitt, ekki atvinna og mitt andlit skiptir engu máli fyrir vefinn, þannig séð). Að vera óléttur er hluti af einkalífi (að mínu mati og örugglega ekki allir sammála). 2) Ég er ekki eins og allar verðandi mæður sem bogna og beyglast yfir litlum börnum hvar sem þær koma. Ég hefði því eflaust skrifað eitthvað sem hefði farið fyrir brjóstið á mörgum (eins og t.d. að ég get helst ekki verið á kaffihúsi þar sem mörg lítil börn eru samankomin með mæðrum sínum og hávær barnaafmæli ætti að mínu mati nota sem pyntingarform og mér finnst líka að börnum sem sparka í sætið fyrir framan sig í flugvél eigi að henda út í fallhlíf (eða foreldrunum öllu heldur). 3) Það finnst ekki öllum skemmtilegt að lesa um meðgöngu kvenna og ég skil það 100% þó mér finnist allt í lagi að lesa um ferlið hjá öðrum. 4) Það sem skrifað er um börn/barnauppeldi hafa 3000 manns mismunandi skoðanir á og þessi vefsíða er víst ekki umræðuvettvangur fyrir þannig skoðanir. 5) Litla daman valdi ekki sjálf að koma í þennan heim og hvað þá að vera myndefni á vefsíðu...og ég mun virða það þangað til hún biður um annað að minnsta kosti í mynd þó ég auðvitað minnist á þessa viðbót í lífi okkar í því sem ég skrifa. Þessi mynd sem ég setti inn hérna um daginn verður því eina myndin sem birtist af henni á þessum vef (nema ég breyti um skoðun sem getur alveg gerst he he). Við munum halda úti lokaðri vefsíðu með upplýsingum fyrir ættingja og vini. Það eru reyndar nokkrir notendur vefjarins sem eru meira en bara notendur (þið vitið hver þið eruð) sem munu að sjálfsögðu fá aðgang ef þeir biðja um hann. Ég veit að ég er furðuleg með margt og þetta er eitt af því....hate it or love it.

Það sem ég MUN hins vegar skrifa um er matur og matarmál, hvernig mun ganga að búa til hollan og góðan barnamat og annað sem tengist næringu ungra barna og foreldra, rétt eins og ég hef gert hingað til. Ef eitthvað sérlega merkilegt tengist lífi okkar þriggja þá mun ég líka tala um það að sjálfsögðu. Ég get t.d. ekki beðið eftir að blogga um ferðir til Afríku og á fleiri staði í framtíðinni (þessi dama mun ferðast, sannið þið til).

Í stuttu máli, fyrir þá sem vilja vita gekk þetta allt svo vel að varla er í frásögur færandi. Miðað við garðyrkjuhæfileika mína og hæfileika til að láta hluti almennt dafna er það hálf ótrúlegt. Eiginlega allt það sem óléttar konur geta lent í, lenti ég ekki í og þakka ég það (fyrir mig persónulega) heppni, góðu mataræði (hélt sama mataræði út í gegn), góðri líkamlegri heilsu, góðum svefni OG síðast en ekki síst góðum maka (þeir eru allt of vanmetinn hluti af heildarpakkanum, það er á hreinu). Þetta var eiginlega „and-ólétta“ í mínu tilfelli. Athugið að ég er ekki að segja að allar konur séu óheppnar og sumar eru jafn heppnar og ég og lenda aldrei í neinu. Meðganga er heldur ekki „sjúkdómur“ heldur tímabundið ástand.

Þetta er svona upptalning á því hversu vel þetta gekk hjá mér og segir ekki til um að þær konur sem fái alla þessa kvilla/fylgikvilla óléttu séu eitthvað verri eða óheilbrigðari (engin kona er eins og engin meðganga er nákvæmlega eins). Sumar konur eru bara óheppnar, þannig er nú það eins og t.d. að hafa undirliggjandi stoðkerfisvandamál. Það hlýtur að vera erfitt því það eina sem ég gæti kvartað yfir var að hnéð var í lamasessi á seinni hluta meðgöngu (bóluplastið munið þið).....

And-óléttan í hnotskurn:

Ógleði: Nei, ekki nema einn eftirmiðdag Kreiving/sólgin í eitthvað sérstakt: Nei, en í mesta lagi kotasæla og magur brauðostur (sem var fínt upp á kalk að gera). Á tímabili frysti ég líka soðið, ferskt engifer og vatn til að hafa sem ísmola í ískalt vatn Bjúgur: Nei, fór m.a.s. í tvær flugferðir á tímabilinu og var ekki með svo mikið sem þrútna fingur. Ég drakk líka 3 lítra af vatni hvern einasta dag Hormónasveiflur: Nei Skyndibitalöngun: Nei og langaði aldrei í sem gladdi mig mikið Aukin matarlyst: Nei, ekki teljandi, nema í ferska ávexti o.þ.h. Hitaköst: Nei...ég var úrskurðuð af lækni „kuldaskræfa“ (á meðgöngunni) eins og þið munið. Mér varð aldrei hlýt og er ekki orðið enn. Ég fór langleiðina í gegnum fæðinguna með trefil, hitapoka og teppi Þreyta: Ekki teljandi, ég fór í ræktina 3var í viku alla meðgönguna (5.30 á morgnana). Ég fór í ræktina m.a.s. daginn áður en ég átti Þyngdaraukning: 7 kg og barnið dafnaði vel allan tímann í móðurkviði. Álag var því lítið á líkamann Grindargliðnun eða önnur stoðkerfisvandamál, húðvandamál, slit, meðgöngusykursýki, meðgöngueitrun, of hár blóðþrýstingur: Neibb Frí frá vinnu: Nei, var að vinna á föstudegi og átti á mánudeginum þar á eftir Kvef eða aðrir kvillar vegna lélegra ónæmiskerfis: Nei en m.a.s. Jóhannes fékk 2var kvef þessa 9 mánuði en ég slapp við allt Verkjameðferð við fæðingu: Nei

Þannig var nú það...ég hef sem sagt engin ráð fyrir þá sem hafa lent í einhverjum meðgöngukvillum!!!! Þið sjáið hvað þetta hefði verið ansi daufleg frásögn í gegnum mánuðina...!  Ég vona að það séu fleiri konur svona heppnar því þægilegra hefði þetta ekki getað verið. Ég er samt sérlega glöð að sjá aftur í tærnar mínar og að geta beygt mig auðveldlega niður eftir hlutum og vera ekki mál að pissa 24/7.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Anna Sigríður Pétursdóttir
26. sep. 2009

Til hamingju og ég virði skoðanir þínar enda kannast ég við þær. Gaman verður að fylgjast með matarræði stúlkunnar. Kv. ASP

hrundski
26. sep. 2009

Flott skrif :)

Hlakka til að lesa um ferðalögin ykkar í framtíðinni.

Kveðja

Hrund........... verðandi tengdamóðir dömunnar ;)

Alma
27. sep. 2009

Til hamingju aftur með dömuna. Ég er svo sem ekkert hissa á því hversu vel þetta gekk hjá þér. Ég er sannfærð um að heilbrigt líferni hafi mest um það að segja enda mjög fáir sem lifa jafn heilsusamlegu lífi og þú greinilega. Kannski smá heppni með :)

Soffía Sveinsdóttir
30. sep. 2009

Til hamingju! Og vá hvað ég er fegin að hafa ekki þurft að lesa um óléttu og allt sem því fylgir. Þú ert kona að mínu skapi :)

Kveðja,

dyggur lesandi (sem hefur yndi af því að elda og baka af síðunni :))

Melkorka
30. sep. 2009

Frábært hvað þetta gekk allt saman vel, ég er ekki gúddí gúddí gúú, manneskja þegar ég sé börn annarra en það hefur akkúrat ekkert að gera með hvað maður elskar börnin sín mikið. Hef ekki viljað spyrja þig að neinu eftir að þú varðst móðir. Veit að þú ert líklega enn að aðlagast þessum nýju aðstæðum. Það væri gott ef þú ert til í að gefa mér bendingu þegar þú ert tilbúin.

CafeSigrun.com
30. sep. 2009

Melkorka mín þú mátt spyrja mig að hverju sem er, hvenær sem er :) Línan er alltaf opin :)

Jónsi
05. okt. 2009

Þú ert bara snillingur! Knús

Jóhanna S. Hannesdóttir
13. okt. 2009

Ég skil þig ósköp vel að hafa ekki bloggað um meðgönguna. Meðganga, fæðing og svo barnið er jú mjög mikið einkamál. Það kemur ekkert öðrum við hvernig þetta allt saman var og er :-)

Gott samt að fá svona and-óléttu blogg því að það hafa örugglega margir pælt í því hvernig það sé fyrir manneskju sem hugsar svona vel um mataræðið og allt það, að vera ólétt. Ég sjálf finn t.d. mikinn mun á mér á þessari meðgöngu og þeirri síðustu. Síðast drakk ég gos, borðaði skyndibita, alltof mikið af nammi, rautt kjöt og ég veit ekki hvað. Ég fæ mér enn nammi en þá aðallega mjög dökkt súkkulaði. Rautt kjöt borða ég ekki lengur og ekki heldur skyndibita og er bara muuun heilsusamlegri nú en síðast... í stuttu máli líður mér svo miklu betur á þessari meðgöngu - lítil sem engin ógleði og ég gleymi því oft að ég sé ólétt (komin 26 vikur á leið)! Þannig að mér finnst alls ekki skrítið að þú hafir verið svona and-ólétt því að mataræðið skiptir svoooo miklu máli :-) Mér finnst þú einmitt sanna það með þessari bloggfærslu hvað það skiptir miklu máli að hugsa vel um líkama sinn ;-)

Þetta átti nú ekki að vera svona langt komment. En jæja, búin að gera "senda!" svo að það er ekkert við því að gera lengur :-)