Garðálfurinn

Matjurtargarður innanhúss

Það er enginn, á þessarri plánetu sem er með jafn litla hæfileika gagnvart plöntum og almennri gróðurrækt og ég. Eða ég veit ekki um neinn. Ég er ekki með græna fingur, eða ljósgræna eða mosagræna. Ég er með svarta og bráðdrepandi fingur. Ég veit ekki hversu oft ég hef í gegnum tíðina fengið plöntu að gjöf með þessum orðum “þessi er SVO harðger…beinlínis ekki hægt að drepa hana og þú þarft ekkert að gera fyrir hana“. Viti menn, eftir nokkrar vikur eða mánuði er veslings plantan dauð og líklega búin að heyja dauðastríð í langan tíma. Smátt og smátt hefur síast inn í vitund vina og ættingja að við erum ekki “plöntufólk“ og smátt og smátt hefur plöntugjöfunum fækkað með árunum. Þetta er ólíkt mér því ég vil helst hafa allt náttúrulegt í kringum mig, borða lífrænt ræktaðar/framleiddar afurðir og vil helst nota einungis hrátt efni þ.e. ekki unnið. Þetta er líka sérlega pínlegt þar sem það halda ALLIR að ég sé með risa matjurtargarð og sinni honum eins og móðir sinnir afkvæmi. Það er ekki þannig. Þetta er líka ólíkt mér að því leytinu til að ég er tiltölulega næm á aðrar verur þ.e. ég get séð á því hvernig hestur stendur í fæturna eða hvernig hann hreyfir eyrun hvort honum líður illa eða ekki, ég get skynjað líðan hans bara með því að horfa á hann í smá stund (bara eins og hundeigendur geta gert slíkt með hundana sína og fólk með börnin sín). Ég er því næm á suma hluti. Ég hef þetta bara ekki í mér varðandi plöntur og ég veit ekki hvað veldur.

Ég öfunda fólk sem hefur þetta í sér. Ég man óljóst eftir að hafa verið í skólagörðunum á yngri árum og farið heim með minnsta pokann, mesta arfann og ljótustu afurðirnar. Þetta er svo mikil synd því það er fátt göfugra en að rækta sínar eigin matjurtir, sérstaklega í þessu árferði sem ríkir. Elva vinkona mín er svona “plant goddess“ þ.e. allt vex hjá henni, kryddjurtir eru í eldhúsglugganum, pottaplönturnar grænar af gleði og matjurtargarðurinn hennar er eins og hermenn einræðisherra þ.e. allar jurtirnar eru í þráðbeinni röð, teinréttar, ekki blett að finna á þeim og þær gera það sem til þeirra er ætlast. Maður fær gróðuröfund í garðinum hennar.

Mér finnst alltaf eins og vandamálið sé að ég nái ekki sambandi við plönturnar. Ég skil þær ekki og þær skilja mig ekki. Ég veit ekki hvenær ég vökva of mikið eða lítið, hvort þær vantar næringu eða umpottun eða hvað þetta heitir allt saman. Ef þær eru slapplegar vökva ég þær í kaf til öryggis og drep þær þá pottþétt. Það er týpískt að spyrja fólk sem veit helling um plöntur að því hversu mikið maður á að vökva og fá svarið “ja svona um það bil nóg“…eins og maður sé einhverju nær. Ég vil fá millilítraeiningar, skammtastærðir, magnupplýsingar og formúlur...annað dugar mér ekki.

EN eins og þið hafið örugglega lesið þá er ég komin með nóg af því að kaupa grænmeti eins og salatblöð á formúgu. Að kaupa kíló af spínati á sama verði og kíló af nautakjöti kostar er EKKI að gera sig. Svo það sem rak mig áfram í tilraunir var það að ég var komin með nóg af því að tíma ekki að kaupa klettasalat (ruccola) því ég ELSKA klettasalat…og reyndar allt salat. Við Jóhannes fórum því í einhverja gróðurstöðina og keyptum 2 ker til að setja á svalirnar, mold (það eru til 3 þúsund gerðir af mold…sem er ekki að gera lífið einfaldara) og fræ í pokum.

Moldin fór ofan í kerin og svo hófst sáningin. Ég las utan á pakkana en var engu nær. Á maður að raða fræjunum með 1 mm millibili eða 1 cm eða 10 cm? Hvað er “hæfilega rök mold?“, Hvað er “hæfilega mikið pláss?“, hvað er “næringarrík mold“ þegar hægt er að velja um 3000 slíkar sem allar lofa því sama? Ég sturtaði fræjunum í langa röð og setti moldina aftur yfir. Ég komst að því síðar að það á að vera svolítið pláss á milli fræjanna en ekki um 1 mm eins og hjá mér. Það er heldur ekki góð hugmynd að hella úr vatnskönnu beint í moldina því það sem er að rembast við að vaxa endar í sundlaug og nær ekki að festa sig. Í kerjunum mínum er múgæsingur af grænum sprotum þ.e. allir að keppast við að vaxa ofan á hvorn annan (vegna ofsáningar) og ég efast um að neitt af þessu verði ætt. Klettasalatið er í það minnsta nánast komið yfir móðuna miklu. Ég gerði uppskrift um daginn sem krafðist klettasalats og var heldur montin yfir því að taka nokkur blöð (um 2cm) úr kerinu og setja fyrir framan linsuna. Á meðan ég var að taka myndina krumpuðust blöðin svo mikið og visnuðu að það var pínlegt. Munn við munn aðferðin var freistandi og ég skvetti á blöðin köldu vatni til að lífga þau við. Þau rétt lifðu af myndatökuna. Ég held að uppskeran af klettasalati sé búin fyrir árið…eða mér sýnist það af þessum aumingjalegu blöðum sem eru að reyna að lifa af. Blandaða salatið liggur í polli í kerinu og er ekki líklegt til að lifa lengur. Gulrætur og rauðrófur eru álíka mjóar og tannstönglar og virðast ekki ætla að taka við sér. Það er dapurlegt ástand í garðinum mínum.

Myndin af innanhúss matjurtargarðinum hér að ofan er af vef Gizmodo.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
28. ágú. 2009

Skemmtilegt blogg! Ég náði að drekkja drekaplöntu sem pabbi gaf mér þegar ég var lítil.

Sonja
29. ágú. 2009

Alveg sammála þér með plönturnar - mér tekst að drepa þær ALLAR! En svo var amma mín svona óþolandi græn - hún þurfti bara að horfa á plöntuna :/ Svo var hún líka mikið í því að rífa af bita hér og þar ef henni leist vel á plöntur (græðlinga) og stundum gleymdi hún þessum miniafleggjurum í vasa í marga daga en það skipti engu. Plöntur eru mjög skrítið fyrirbæri!

Lisa Hjalt
29. ágú. 2009

frábær færsla, gott að hlæja svona ;-)

CafeSigrun.com
29. ágú. 2009

Þetta er samsæri...er viss um það :)

Alma
30. ágú. 2009

Mágkona mín fékk gefins Aerogarden og er alsæl. Sér um sig sjálft og hún hefur ekki undan að borða af því. Þarf að setja eina næringartöflu einu sinni í viku.

www.aerogarden.is

Þetta væri kannski eitthvað fyrir þig?

CafeSigrun.com
30. ágú. 2009

Alma kannski að maður reyni einu sinni enn... :)

Sigurbjörg
10. sep. 2009

Snilldar pistill, minnti mig svo á einhverja auglýsinguna þar sem konan segir "það er sko ekkert dass í þessu, þetta er nákvæmlega það sama og þú fékkst síðast"