Hné- og eyrnasellerí

Það er langt síðan ég hef bloggað um hné og kjálka enda örugglega allir komnir með upp í kok af sjúkrasögum. Svona til minnis fyrir mig þá er núna rúmlega ár síðan ég fór í aðgerðirnar tvær. Eftir að ég gat farið að fara í ræktina hef ég ekki misst úr eitt skipti í þetta ár sem ég er gríðarlega ánægð með. Ég er búin að vera í sjúkraþjálfun með fram, það er búið að líma (teipa) hnéð fram og til baka (og ég fékk leiðbeiningar um hvernig ég ætti að gera það sjálf) svo það er ekki mikið meira sem ég get gert í bili nema bara styrkja vöðvana í kringum hnéð sem eru enn þá um 2cm rýrari vinstra megin en hægra megin. Verkurinn er ekki farinn og það er ekki fullur styrkur í hnénu. Ég get t.d. ekki lagst á hnéð og ég get ekki beitt því af fullum þunga upp stiga né verið á cross trainer eða hlaupið á hlaupabretti í ræktinni. Það eru rúmlega 5 ár síðan ég gat hlaupið. Ég get gengið án þess að finna mikið til sem er mjög gott en fjallgöngur og önnur átök verða að bíða. Ég er þó orðin ágæt í stuttum gönguferðum og ef ég nota göngustafina sem eru ómissandi fyrir hné-vandræðafólk.

Það er þó eitt sem pirrar mig meira en nokkuð annað og veldur því að ég hlífi mér meira en ég í raun þarf. Það eru sem sé óhljóðin sem eru í hnénu. Þeir sem hafa orðið vitni að því verða á svipinn eins og hafa bitið óvart í rabbabara. Þetta er hljóð sem er langt frá því sem maður vill heyra, svo ógeðslegt er það. Það kemur í hvert skipti sem ég beygi hnéð eða ef ég reyni á það. Það eru einhverjar bólgur í hnénu skilst mér og þær valda því að litlir vatnssekkir eiginlega springa við að ég hreyfi hnéð (eða eitthvað svoleiðis). Ég hef átt erfitt með að lýsa þessu fyrir öðrum nema með því að leyfa viðkomandi að heyra (sem ég vil helst ekki gera fólki). Þegar ég labba upp stigann heima hjá mér geri ég eitthvað af þessu þrennu: a) set fingurna í eyrun, b) syng hástöfum eða c) nota tækifærið til að tala í símann. Ég veit ekki alveg hvað nágrönnunum finnst um að ég sé að verða svona furðuleg.

Bróðir minn hitti naglann svo innilega á höfuðið þegar hann sagði...“sko hljóðið er eins og þegar maður bryður sellerí“ og það er akkúrat þannig. Ef ég er mjög nákvæm er hljóðið akkúrat eins og að hlusta á górillu borða sellerí í frumskógi en þið hafið kannski ekki upplifað það þannig að þið verðið að taka orð mín trúanleg. Ég verð að upphugsa leið til að setja hljóðdeyfi utan um hnéð (er búin að reyna teygjubindi o.fl.) svo að ég sé ekki eins og geðsjúklingur á leið upp stigann á hverjum degi.

Kjálkinn er með ágætu móti. Ég man ekki hvort ég sagði ykkur það en ég skipti um kjálkalækni og sé ekki eftir því. Þessi, sem er kona tók málið í sínar hendur, hristi hausinn yfir eina versta tilfelli sem hún hafði séð og eins og þið kannski vissuð (eða ekki), deyfði mig þannig að hægt var að losa kjálkann í sundur sem var búinn að vera fastur í rúmt ár án þess að hinn kjálkalæknirinn hefði gert neitt og ekki talið ástæðu til þess. Þegar maður lifir nánast á mjúku fæði í tæpt ár þá er maður eiginlega kominn með nóg. Kjálkinn losnaði eftir að hún hafði með deyfingunum teygt á honum og gert alls kyns kúnstir og með æfingum, hitameðferð, sjúkraþjálfun o.fl., o.fl., hefur hann haldist opinn í hálft ár sem er nýtt met. Það er reyndar slitgigt í liðunum sem er algjört helvíti á veturna þegar er kalt en ég get opnað munninn til að borða og geispa og það skiptir mig máli (maður er þakklátur fyrir litlu hlutina!). Það eina sem pirrar mig er að ég þreytist fljótt við að tyggja því liðirnir eru svo aumir (sérstaklega við að borða dót eins og hrískökur, hrökkbrauð, salatblöð o.fl.) en ég get alveg lifað við það...ég borða reyndar kannski minna en ég annars gæti ...en við grenjum ekki yfir svoleiðis smáatriðum.

Nema hvað...já...selleríhné....í morgun nefnilega var ég að teygja á kjálkavöðvunum eins og ég geri hvern morgun eins og kisa og ég heyrði smell...ekkert sársaukafullt en hljóðið er eins og ég sé að borða sellerí...með eyrunum. Sem er pínu vandamál því nú get ég ekki sungið eða talað upp stigann (nema heyra selleríhljóð í eyrunum) og eina leiðin er því fingur í eyrun sem er ekki alltaf handhægt ef maður er t.d. með fullar hendur.

Ég held ég verði að pakka mér inn í bóluplast eða geimbúning...ég vona bara að fingurnir haldist á því annars fer þetta að verða svolítið flókið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
25. júl. 2009

Sigrún mín það er bara fínt að fá að lesa svona sjúkrasögur :D Eina bloggið þessa dagana er um kreppu og esb og ættarmót og þetta er miklu skemmtilegra hihihihi

CafeSigrun.com
27. júl. 2009

Ha ha.... gott að sellerísögur geti skemmt fólki :)