Grillbilly

Ofurgrill
Ég hef í gegnum tíðina oft fengið fyrirspurnir varðandi það að bæta inn grillflokki á vefinn. Sem er ágætis hugmynd svo sem þ.e. yfir sumartímann og svona. Það er t.d. mikið af uppskriftunum mínum sem hægt er að grilla og fullt af meðlæti í boði sem passar vel með grillmat. Núna, af því veðrið er svo gott opnar maður ekki svaladyrnar nema grillolíu/matarlykt streymi inn í stofu úr görðum hverfisins. Grillmatur vekur þó hjá mér ansi sterkar tilfinningar sem eru ekki svo jákvæðar. Ekki það ég hafi verið pyntuð á kolagrilli eða fengið matareitrun af grillmat eða brennt augabrúnir (það síðast nefnda væri reyndar alveg týpískt sbr. síðustu bloggfærslu). Sem betur fer er Jóhannes ekki mikill grillmaður því ef svo væri stæði hann líklega dálítið oft einn út á svölum með grilltangir á lofti. Áður en ég held áfram vil ég taka fram að ég kann ekkert að grilla, hef 0% hæfileika á því sviði og finn engan mun á kolagrilluðum mat eða gasgrilluðum mat (finnst bæði jafn vont) þó að sumir segi að hitt sé betra en annað. Ég þekki marga sem grilla og eru flinkir grillarar…sumir (eins og einn bróðir minn) grillar þó að það sé 10 stiga frost úti (honum er reyndar aldrei kalt)…Hann hefur verið þekktur fyrir að standa á svölunum á aðfangadagskvöld og grilla….sem er brilliant því fjölskyldan er alsæl með það. Það er bara eitthvað við grillmat sem kveikir í mér andlega ólgu (þó ég geti heldur betur unnt öðrum þess að grilla og njóta þess). Hér eru ástæðurnar:
  • Það er alltaf kalt þegar verið er að grilla. Það er vegna þess að íslensk sumarkvöld eru bara ekki heitari en raun ber vitni (þrátt fyrir bjartsýni og sólarglennu). Þegar verið er að grilla er alltaf annað hvort galopið upp á gátt og fólk að hlaupa inn og út eða maður þarf að sitja í kringum grillið (því það er svo mikil steeeemmmning). Hvorugt er vinsælt hjá kuldaskræfum.
  • Mér er hætt við að kveikja í mér ef ég er nálægt hitagjafa sbr. að ég hef brætt nylon kápu því ég var of nálægt gashitalampa og ég hef kveikt í lopapeysu því ég var að bræða málningu af glugga og var kalt (reyndist ekki vera svo sniðug hugmynd að hlýja mér svoleiðis). Ég var íklædd flíkunum í bæði skiptin svo það hefði getað farið illa.
  • Það tekur óratíma að hita grill upp og það þarf að bíða allt, allt of lengi eftir því. Mér finnst óþægilegt að borða mikið seinna en 18.30 og oft er fólk að kveikja upp í grillum á þeim tíma. Þá veit ég að um 1.5 klukkustund er í mat og það gerir mig órólega því þá er ég orðin mjög svöng og skapið orðið eftir því. Fyrir suma er þetta “öl-tími“ (fá sér einn kaldan) en fyrir mig þýðir þetta blóðsykursfall (nema ég grípi til aðgerða) og verulega, verulega vont skap þar sem ekkert annað kemst að í huganum heldur en að næra mig sem fyrst. Þessi tími er því algjör pynting fyrir mig og aðra í kringum mig.
  • Hitastigið er alltaf út úr kú. Ég þoli t.d. ekki rafmagnshellur því maður getur ekki stillt hitann eins vel og á gashellum, þannig að grill eru af hinu illa í mínum bókum. Ég er svolítið einhverf hvað þetta varðar því ég þarf að vita nákvæmlega hvenær ég þarf að hita matinn og hvenær matur fer á borðið annars upplifi ég…andlega ólgu.
  • Það sem er verið að grilla þolir ALDREI sama hitann þ.e. sumir vilja kjöt, aðrir fisk, aðrir grænmeti, enn aðrir grænmetisborgara og ALLTAF hitnar eitthvað of mikið og eitthvað of lítið.
  • Það dettur alltaf eitthvað niður á milli grillrimlanna þegar hráefni er jafn dýrt og hér á Íslandi..er það eins og að kasta perlum fyrir svín. Öskurmarineraður humar er t.d. ekki sérlega girnilegur.
  • Það sem heitir grillspjót (þó þau séu heimatilbúin) finnst mér alltaf vont, alveg sama hvað sett er á það og ég fæ alltaf flís í munninn.
  • Mér verður alltaf hálf flökurt af grillmat..alltaf, alltaf. Kannski tengist það því að ég drakk óvart (já það er hægt) stóran gúlp af bensíni þegar ég var yngri og þoli illa alla lykt sem minnir mig á eldsneyti.
  • Það brennur alltaf eitthvað af grillmatnum og af því hráefni er svo dýrt á Íslandi fer enginn að henda brunarústunum. Kolin eru því skafin af og maturinn étinn.
  • Ég hef sjaldan eða aldrei í mínu lífi borðað eitthvað sem bragðaðist betur grillað úti við heldur en það sem var matreitt innandyra (í hlýjunni). Hugsanlega væri eina undantekningin á þessu grillaður humar en það er voðalega erfitt að eyðileggja humar (ef hann er ekki eldaður of lengi eða veiddur upp úr öskunni) svo hann nær aldrei að stoppa nógu lengi á grilli til að verða vondur. Grilluð brauð eru líka ágæt, bara eins og maður grillar brauð yfir eldi.
  • Grill eru alltaf skítug (sum eru óóóóógeðsleg) og það er óvinnandi vegur að þrífa þau þannig að þau glansi (ég pússa eldavélina mína einu sinni í viku svo þið sjáið hvað ég á erfitt með þetta).
  • Grill eru alltaf ryðguð..hvað er þetta með framleiðslu á grillum…..eru þau hönnuð til að ryðga eftir veturinn?
  • Grillmatur er víst voða óhollur þ.e. ef maturinn brennur og svo eru alls kyns efni í kolagrillum sem losna og fara út í matinn…veit ekki hversu rétt þessi kenning er en tengsl eiga að vera á milli sumra tegunda krabbameins og grillmats (en þau gætu líka verið af milljón öðrum ástæðum).
  • Þegar loksins allir eru sestir er mér yfirleitt orðið svo kalt að ég hef ekki lyst á mat þó ég sé aðframkomin úr svengd. Það lekur líka yfirleitt úr nefinu á mér yfir matinn (sultardropar vegna kulda) og það eykur ekki matarlystina og ég get ekki beitt hnífapörum (aftur…vegna kulda), orðin blá í framan og með rautt nef.
Ég er sem sagt ekki ein af þeim sem "skell’á grillið"….

(Myndin er fengin að láni af vef itrocks).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lena
14. júl. 2009

Má ég koma med eina thugasemd.. Ad vera svona ROSALEGA kalt getur orsakast af mørgum ástædum. Thad t.d. getur verid ad thér vanti tharmabakteriur, eda magaenzym, og thar med haft lélega meltingu, oft veit fólk ekki ad thad hafi lélega meltingu. Og vegna lélegrar meltingu getur upptaka vítamína og steinefna verid léleg.

Bara smá innskot ;)

CafeSigrun.com
14. júl. 2009

Ha ha takk fyrir innskotið Lena.

Ég er nýlega búin að fara í allar rannsóknir undir sólinni (og ég meina allar rannsóknir, blóðprufur, mælingar) og það finnst ekkert að...akkúrat ekki neitt (sem er auðvitað jákvætt).

Læknirinn sagði við mig að sumir væru bara svona og við því væri lítið að gera. Hún sagði að það væri ekki til annað betra orð yfir þetta ástand en "kuldaskræfa" (en meinti það vel).... :)

Þó að innskotið eigi ekki við mig þá getur vel verið að það gæti hjálpað einhverjum sem les þetta sem er mjög gott :)

Alma
15. júl. 2009

Mér finnst bara gaman hvað þú ert öðruvísi en aðrir Sigrún :)