Ugandíski námsmaðurinn fær einkunnir

Í dag fékk ég skannað blað með einkunnum í tölvupósti frá Snyrtiskólanum í Kampala Uganda. Rétt eins og námsmaðurinn E. (sem við erum að styrkja til náms) hafði lofað þá sendir hann einkunnirnar sínar eftir hverja önn (því áframhaldandi greiðslur byggja jú á frammistöðu).  E. var sem sagt að klára 2. önn og gekk líka svona glimrandi vel. Ég get ekki betur séð en að hann hafi verið efstur í bekknum og sá eini sem fékk A í einhverju. Hinir voru flestir með B og niður í E en námsmaðurinn E. var með A og niður í C+. Ég hrósaði honum auðvitað í bak og fyrir. Ef ég hef skilið námsmanninn rétt er hann búinn að fá vinnu eftir útskrift. Það er magnað þegar atvinnuleysi er jafn mikið og það er þarna um slóðir. Í sumarfríinu sínu (sem er að byrja) þ.e. á milli 2. og 3. annar ætlar E. að fara á tölvunámskeið (sem við greiðum fyrir sem verðlaun fyrir góða frammistöðu). Það ætti að styrkja stöðu hans í atvinnumálum enn frekar. Við höfum nú þegar greitt fyrir 3. önn og nú er bara sjá hvort hann útskrifist ekki með láði. Ég veit allavega að næst þegar ég verð stödd í Uganda og langar í afróhárgreiðslu, hárlengingar, klippingu eða annað mun ég líklega fá slíkt með glöðu geði.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
15. mar. 2009

frábært :-)

Elisabet
16. mar. 2009

Æði.. Til hamingju með hann. Jæja þá veit ég hvert ég get farið í klippingu í haust.. Hjúkk því reddað. En getur þú komist að því hvort ég komist í litun lika? Eða hvort ég þurfi að vera svört/rauð skjöldótt....