Bjartar nætur

Þið sem eruð farin að "þekkja mig" vitið að ég er ekki alveg normal Íslendingur. Ég er heldur ekki alveg normal ef út í það er farið he he. Það sem mér finnst jákvætt og gott, finnst öðrum ekki og öfugt. Mér t.d. finnst og hefur alltaf fundist lambakjöt hrikalega vont (svo sem búin að vera grænmetisæta í 15 ár en þegar ég var yngri fannst mér það vont líka). Það þola fáir Íslendingar að heyra og reyna að sannfæra mig um að það SÉ gott, ég hafi bara vanþróaða bragðlauka o.s.frv. Ég þoli heldur ekki snjó og beinlínis bölva öllu í sand og ösku þegar hann lætur sjá sig en það tengist því líka að ég þoli illa kulda...þegar sumir lofsama snjó..því hann sé svo fallegur og ble ble er ég að reyna að finna út a) hvernig ég eigi ekki að deyja úr kulda og b) drepa ekki aðra í kringum mig úr geðvonsku.  Svo skil ég heldur ekki ýmislegt eins og íslensk stjórnmál, íslenskt útvarp, íslenskt sjónvarp, íslenska ókurteisi, íslenskar verslanir (bæði matvöruverslanir, heilsubúðir), íslenskt okursamfélag og margt, margt, margt fleira.

Nú er daginn farið að lengja og ekki nema gott eitt um það að segja. Nema eitt. Langar sumarnætur. Ég meika þær ekki. Þess vegna hentar Afríka mér mjög vel þ.e. sólin kemur upp um 6.30 og hún sest um 18.30. Hún dettur beinlínis lóðrétt niður og fer lóðrétt upp, sama hvaða árstími er. Ekki eins og hér þar sem sólin er að drolla á himninum fram á nótt eða lætur yfir höfuð ekki sjá sig í marga mánuði. Langar sumarnætur rugla mig. Þær rugla svefninn og mér finnst ég eiga að vera úti að gera eitthvað þó klukkan sé komin fram yfir miðnætti. Bara af því það er sól og gott veður. Ég neita því ekki að veturinn getur verið þreytandi með endalausu myrkri og lítilli birtu. Það fer heldur ekki vel með mann og er ekki það sem ég vil. Ég vil fara bil beggja, eins og í Afríku. Meira að segja sætti ég mig við sólarupprás og sólsetur eins og er á meginlandi Evrópu, sveiflast aðeins eftir árstíðum en er nokkurn veginn eðlilegt miðað við líkamsklukkuna. Þegar maður er þreyttur, á að vera myrkur. Ég þarf að sofa með myrkragluggatjöld OG eitthvað yfir augunum ef ég á að festa svefn yfir sumartímann hér á Íslandi. Það meikar nákvæmlega engan sens að fara að sofa þegar sólin skín í augun. Ég var ekki svona en eftir að við fluttum fyrst til London hef ég kunnað verr og verr við íslenskar sumarnætur því þær eru órökréttar.... þ.e. fyrir líkamann. Ég viðurkenni að á fjöllum er mjög gaman að geta gengið fram á kvöld og mörg sumarkvöldin eru ljúf (þ.e. þegar er ekki rassgatsrok eins og yfirleitt er hér). Ég viðurkenni líka að mér væri sama þó að sólin leggðist fyrr til hvílu og færði manni myrkrið sem er svo róandi. Ég hef nefnt þetta við einhverja í gegnum tíðina sem hafa á móti fussað og sveiað...En ég er nú orðin vön því líka í gegnum tíðina enda stangast mínar hugmyndir ávallt á við allra hinna.

Ég heyrði eitt sinn sögu af útlendingi sem kom hingað til lands. Það var hásumar og erindið var að djamma. Hann djammaði frá sér allt vit og var yfirleitt "sofnaður" fyrir miðnætti (því erlendis byrjar fólk að drekka snemma því skemmtistaðir loka á skikkanlegum tíma). Hann kynntist svo nokkrum Íslendingum sem ákváðu að stríða honum. Útlendingurinn "sofnaði" víst um hánótt (löngu orðinn ruglaður)  en vaknaði stuttu seinna. "Hvað er klukkan" spurðu hann...."hún er orðin 3 maður...þú ert búinn að sofa í næstum hálfan sólarhring og við vildum ekki skilja við þig svo við biðum hjá þér". Útlendingurinn, innilega þakklátur þessum frábæru Íslendingum, lítur á úrið sitt sem segir einmitt "3.17"....Svo leit hann upp í himininn og það var flennisól. Hann leit í kringum sig og alls staðar var fólk og umferð....."já...þú segir nokkuð...það er best að ég fái mér síðbúinn hádegisverð...

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

elin
08. mar. 2009

Hvað ertu eiginilega að gera á Íslandi allt svo ómögulegt ;-)

Takk fyrir frábærar uppskriftir

CafeSigrun.com
08. mar. 2009

Ha ha góð spurning. Við værum farin aftur út ef ástandið væri ekki svona glatað. Við stefnum að því að flytja út um leið og við getum og ástandið skánar...það er nokkuð ljóst. Ástæðan fyrir því að ég flutti hingað aftur var vegna vinnunnar minnar.......ekki af því mig langaði að búa hér á landi!

Anna Stína
11. mar. 2009

Æ segðu að þig hafi líka langað að vera nær fólkinu þínu ... okkur finnst amk alltaf gott að fá ykkur heim ;-) Svona þegar við erum á landinu ...

Knús & kyss - alltaf gaman að lesa skrifin þín.