U2

 James Vellacott
Ég er mikill U2 aðdáandi og hef verið frá 12-14 ára aldri. Búin að fara á nokkra tónleika með þeim sem er alltaf jafn magnað. Bestu tónleikarnir voru í Slane Castle, Írlandi 2001. Þetta var um 10 dögum fyrir 11. september, áður en heimurinn fór á hvolf. Tónleikarnir voru eftirminnilegir því pabbi Bono var nýdáinn og jarðarförin hafði verið sama dag. Hann söng úr sér hjartað ef maður getur sagt sem svo. Það voru 80 þúsund manns á þessum stað þar sem þeir tóku upp plötuna Unforgettable Fire (í kastalanum sjálfum) mörgum árum áður. Fá þurfti sérstakt leyfi fyrir tónleikum því staðurinn er í einkaeign og örsjaldan hafa verið leyfðir tónleikar. U2 fræðingar telja þetta með betri U2 tónleikum fyrr og síðar. Ég er auðvitað sammála þó ég hafi ekki séð þá alla auðvitað...það voru bara sérstakar tilfinningar sem liðuðust um brekkuna í bland við írsku þokuna, eitthvað sem ekki er hægt að endurtaka.

Miðarnir á Slane Castle komu óvænt upp í hendurnar á okkur. Við vorum tiltölulega nýflutt til London vegna náms og við áttum ekki eina einustu krónu og ég meina ekki eina einustu. Við borðuðum aðallega dósamat og Visa kortið (sem ég nota aldrei) þurftum við að nota óspart því við vorum ekki enn með neinar tekjur. Námslán voru ekki í myndinni (höfðum tekið loforð af okkur að vinna frekar eins og þrælar heldur en að taka námslán...sem við gerðum).

Ég hafði heyrt af Slane Castle og mig grunaði aldrei að við ættum eftir að fara á tónleikana. Við vorum stödd hérna heima í ágúst 2001 (höfðum flutt út nokkrum mánuðum áður) vegna ýmissa lausra enda. Símtalið sem Jóhannes fékk kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti...."Heyrðu Sigrún....við getum fengið 2 miða á tónleikana með U2 á Írlandi, gefins"......Ég þurfti að hugsa mig um í 1 sekúndu og niðurstaðan var "mér er alveg sama hvernig ....en við förum". Sá sem gaf okkur miðana á inni ævarandi þakkarskuld og ég held að hann hafi ekki hugmynd um (þó við höfum oft sagt það við hann) hvað þetta var frábær gjöf. Flugmiðarnir voru keyptir með stuttum fyrirvara á uppsprengdu verði og við vissum að næstu mánuði yrðu það hrísgrjón og meiri hrísgrjón á matseðlinum en mér var alveg sama.

Við fórum með sinn hvorn bakpokann (enda aðeins um 24 tíma stopp að ræða). Við fórum beint á tónleikastaðinn og við áttum ekki einu sinni pening til að kaupa okkur mat, við áttum eina samloku hvor...sem við þurftum að drýgja allt kvöldið. Garnagaulið kafnaði sem betur fer í tónlistinni. Tónleikarnir voru eins og áður sagði, magnaðir og að heyra 80 þúsund manns syngja hárri raust, er auðvitað einstakt, það er líka magnað að þrátt fyrir 80 þúsund manns var aðeins einn handtekinn fyrir einhver læti (bara pissfullur Íri).  Eftir tónleikana fórum við á flugvöllinn því við áttum ekki fyrir hóteli og þar sváfum við um nóttina á köldu marmaragólfi, alsæl. Við áttum ekki einu sinni fyrir leigubíl og leigubílstjórinn gaf okkur upp í farið.

En já, sem sagt. U2 var að gefa út nýja plötu "No Line on the Horizon" og hún er auðvitað frábær (og hefur fengið góða dóma víðs vegar). Svolítið öðruvísi U2 en mjög flott. Ég get ekki beðið eftir tónleikunum því ég ætla á þá...sama hvernig ég þarf að ná mér í miða. Ég skal. Annars er ég þessa dagana að reyna að hugsa sem minnst um óvænta tónleika sem U2 hélt á þaki BBC um daginn. Ég get farið að grenja ef ég hugsa um þá. Ástæðan? BBC húsið var í 100 metra sjónlínu frá íbúðinni okkar í London, í næstu götu. Við erum að tala um að ég hefði heyrt í þeim hefði ég opnað gluggann. Ég er að reyna að hugga mig við að það hefði verið sárara..ef ég hefði verið búsett úti..og misst af þeim. Ég var þó allavega hér á Íslandi (god fokking dammit).... En á myndinni sjáið þið turn (fremst á myndinni), það tók okkur 20 sekúndur að labba þangað frá íbúðinni okkar. Ég hefði verið 10-15 sekúndur að labba á tónleikastaðinn eða þar sem rauða örin er....þar var U2 var með tónleikana...og ég missti af þeim.  Er þetta karma að núlla út þessa frábæru og óvæntu Slane Castle tónleika 2001?......Buhuuuuuuuuu.  Myndin er af vef Mirror.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

sólveigs. finnsd
04. mar. 2009

Finndið bvið pabbi þinn vorum að tala um þessa ferð ykkar í fyrradag. Kv. m