Reykvísk brauðsúpa

Við fórum niður að Tjörn í dag. Það var frábært veður. Meira að segja mér var ekki svo kalt því það var jú logn (aldrei þessu vant) og smá sólarglæta. Yfirleitt þverneita ég að fara nokkuð úr húsi (tekur bara of langan tíma að dúða mig og mér er alltaf kalt) nema brýnustu  nauðsyn beri til. Ég er innipúki og kuldaskræfa og hata kulda meira en nokkuð annað. Erindið var sem sagt að losa frystinn undan öllum bolludagstilraununum. Þetta var ekkert lítið magn eins og þið kannski munið. Við roguðumst með pokann niður að Tjörn en ekki var nú mikill áhugi frá vængjuðu tvífætlingunum. Ég hélt fyrst að fuglaflóra Reykjavíkurtjarnar hefði séð mig koma askvaðandi og ákveðið að ekki væri sniðugt að þiggja hollustubrauð (af reynslu). Ég reyndi nefnilega einu sinni að gefa þeim glúteinlaust brauð sem var svo vont að ekki einu sinni svartbakarnir vildu það og það var þriðjudagur man ég sem þýðir að líklega hafði enginn verið að gefa þeim allan daginn.... En fuglarnir voru hreinlega bara of saddir í dag. Nema nokkrir fuglar sem greinilega höfðu misst af brauðúthlutunum dagsins....hinir voru eins og mig grunaði þ.e. fuglarnir voru eins og fylltir kalkúnar á jólum, með andþyngsli vegna ofáts, vaggandi í reykvísku brauðsúpunni. Við hentum út nokkrum molum...sem sukku (bolludagstilraun nr. 256)...Ekkert brauð á að geta sokkið sem segir ansi mikið um þessa misheppnuðu tilraun mína. Við þurftum vandlega að passa okkur að henda ekki í fuglana svo þeir rotuðust ekki. Svanirnir horfðu með þóttasvip á okkur áður en þeir teygðu langan hálsinn niður á botn. Næstu pokar féllu betur í kramið og síðustu bollutilraunir voru greinilega að gera sig því það svermdu að okkur fuglar úr öllum áttum. Held það hafi verið meiri kókosolía sem vakti lukku. Ég er ekki viss um að fuglunum á Tjörninni hafi áður verið gefið nokkuð með lífrænu spelti, lífrænu agavesírópi, lífrænni kókosolíu, himalaya salti og hamingjueggjum?

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
02. mar. 2009

Lucky ducks! ;-)