Valentínusarsnjómaðurinn

Eiginmaðurinn ætlar að gista í snjóhúsi í nótt. Það er svolítið fyndið miðað við það væri líklega síðasti staðurinn sem ég gæti gist í. Þetta velur hann að gera á Valentínusardaginn......Til að árétta hversu ólíklegt er að ég myndi nokkurn tímann sofa í snjóhúsi, á fjöllum, heyrðist eftirfarandi í eldhúsinu um daginn:

*Jóhannes ég held að sængin mín sé eitthvað að bila. Hmmmm....afhverju segirðu það? *Því mér er alltaf kalt á nóttunni. Það er ekki sængin. *Jú ég held það nú samt. Nei. *Jú. Nei. Þú ert með þykka dúnsæng, sefur á hitateppi, í náttfötum og ert í góðum stofuhita. Það er ekki sængin sem er biluð.

Hmrfphfffhhh. Ég horfði á Jóhannes pakka dótinu sínu í morgun, með krosslagðar hendur og þung á brún. Ætlarðu að skilja mig eftir eina á Valentínusardag og sofa frekar í snjóhúsi? „Ó já“....fékk ég á móti og svo.... „sótti ég ekki blaðið fyrir þig í morgun OG kveikti á tölvunni þinni“? Jú svo sem.....“Þarna sérðu hvað ég hugsa vel um þig á Valentínusardaginn“. Jóhannes náði svo að snúa sér út úr þessu þannig að það væri ÉG sem ætti að vera þakklát fyrir að fá að vera heima og þurfa EKKI að sofa í snjóhúsi. Sem ég reyndar er, mikil ósköp.

Annars er mér meinilla við svona skyldudaga. Hef enga tilfinningu fyrir því að gefa eigi blóm eða annað slíkt á svona dögum, ekkert frekar en bóndadögum og öðrum svoleiðis dögum. Ég hugsa alltaf hlýlega til Jóhannesar, er alltaf að vanda mig við að gefa honum gott að borða og hugsa almennt vel um hann svo hann getur ekkert kvartað og ég þarf ekki að bæta neitt upp á ákveðnum dögum, sérstaklega ekki dögum sem skipulagðir eru út frá blómabændum og markaðsfólki. En það er svo sem bara mín skoðun. Ég held reyndar að ég eigi enn þá síðan ég var lítil og bjó erlendis, Valentínusarhjörtu. Það er nú svolítið slísí finnst mér að fá Valentínusarhjarta frá einhverjum sem er 5 ára? Svona af því þetta er dagur „elskenda“ og allt það...æi veit ekki....

Jóhannes fór sem sagt á Vetrarfjallamennskunámskeið ásamt 11 öðrum og ætlar að klífa ís, búa til snjóhús, bjarga úr snjóflóði og eitthvað svoleiðis...sem sagt vera almennt útivistarnörd. Hann er búinn að hlakka til í allan vetur og var eins og lítill krakki á jólunum að vesenast í öllum bakpokunum sínum, fatnaði, græjum og ég veit ekki hvað.

Hann fór vel nestaður því ég útbjó fyrir hann samloku úr grófu brauði með reyktum laxi, avacado, salati, papriku, sinnepssósu. Gerði líka flatkökur með heimatilbúnu hnetusmjöri og í kvöldmat fær hann villisveppasúpu með hrísgrjónanúðlum og mini-pecanköku með súkkulaði- og cashewmauksfyllingu í eftirmat. Í morgunmat fær hann svo heimatilbúið muesli og svo auðvitað hnetumix (nemendanasl) ef hann er eitthvað svangur þar á milli. Hann ætti ekki að svelta blessaður maðurinn. Ég var að hugsa um að gera hann að skotspón fjallafélaganna, gera hjarta úr kökunni, setja hjartalaga jarðarber á hana og bleikt krem og skrifa hallærislegt kort líka en hætti við....svona er ég góð (og hrædd um að eiginmaðurinn flytji lögheimilið í 3ja snjóhús til vinstri, 2. hæð).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elisabet
15. feb. 2009

hahah þú ert yndisleg... alltaf svo gaman að lesa bloggin þín. Og já er komin með óopinbert svar að utan... daddaraddadamm. Hitti ég þig sem sagt í Uganda í sept? er ferð? er kannski með skemmtilegan kúnna fyrir ykkur ....***

CafeSigrun.com
16. feb. 2009

Jeminn Elísabet, en spennandiiiiiii....hver veit hvernig september verður en okkur langar út, svo mikið er víst...bara spurning hvernig ástandið verður í þjóðfélaginu :)....leyfðu okkur að fylgjast með!

Fríða María
16. feb. 2009

hahahahaha.. ég veit hvað þú ert að segja kona.. var líka að heimta minn mann úr þessari snjóhúsa-helju. Fékk einmitt þetta skemmtilega símtal í vikunni þar sem hann er nú ekki lítið búinn að vera spenntur fyrir námskeiðinu, læra allskonar hnúta og fleira ofsalega áhugavert og spennandi.. en þarna toppaði hann allt þegar hann sagði mér eins og spenntur krakki að bíða eftir jólunum að hann fengi kannski að sofa í snjóhúsi og ég.. já bara vissi ekki alveg hvernig ég átti að svara þessu.. en þeir sem sé sváfu saman í snjóhúsi, mennirnir okkar, ásamt einum öðrum.. þar til það hrundi kl 3 um nóttina. Gott að skálinn var í næsta nágrenni. Reynum nú að innprenta einhver aðeins eðlilegri áhugamál á næstunni ;)

CafeSigrun.com
16. feb. 2009

NÁKVÆMLEGA Fríða.....við ættum jafnvel að stofna samtök.

Þetta var víst mjög svo skemmtilegt þó snjóhúsið hafi hrunið ofan á þá he he.....

Melkorka
17. feb. 2009

Yndislegt að lesa matseðilinn sem þú hefur útbúið fyrir eiginmanninn, ég væri himinlifandi að fá þetta nesti. Mér finnst svo gott hjá þér að vera svona góð við kallinn.