Hænuskref

Ég varð óskaplega glöð í morgun þegar ég las Fréttablaðið. Yfirleitt er nú ekki margt sem kætir mann í blöðunum en í morgun varð ég hrikalega glöð. Þar er frétt á blaðsíðu 8 (og aðeins á forsíðu) um lífrænan búskap. Bændurnir að Neðri-Hálsi í Kjós eru orðnir þekktir fyrir sína lífræna mjólk og afurðir og ekkert nema fráááábært um það að segja. Ég ætla að birta smá brot úr þessarri frásögn (feitletranir eru mínar):

Ólafur R. Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, segir áhuga bænda á lífrænum búskap og landnýtingu stigvaxandi en stjórnvöld fylgist illa með þeirri þróun og hafi enga stefnumörkun í þeim málum. Ísland er aftarlega á merinni í lífrænum búskap en hlutfall lífrænt ræktaðra landbúnaðarafurða er um fimmtán prósent í Austurríki og um 10 prósent í Svíþjóð en innan við eitt prósent hér á landi.

Svo er fjallað um búskap hjónanna að Neðri Hálsi og einnig talað við Pétur Jónsson á Þúfukoti í Kjós en hann undirbýr lífrænan búskap, ætlar að reisa hæsnabú og sláturhús sem öll verða vottuð fyrir lífrænan búskap.  Þetta eru góðar fréttir.

Mér finnst alltaf jafn ferlega fyndið hvað Íslendingar eru brjálæðislega blindir á hversu aftarlega á merinni við erum. Spyrjið hvaða Íslending sem er, ég mana ykkur.... "Heldur þú að við séum langt komin í lífrænum búskap". Ég get lofað því að svarið er "Já...með þeim fremstu í heiminum". Fólk nefnilega ruglar saman fersku vatni, hreinu lofti og "óspilltri" náttúru við lífrænan búskap. Þetta er eins og að bera saman plastperlur, húðaðar með glansefni og alvöru perlur sem kafað er eftir í sjónum.

Þó við eigum lömb sem eru svo heppin að geta valsað um og borðað lyng þangað til þeim er slátrað þá er það eiginlega bara heppni því ég held að fáir bændur séu endilega að velta þessu fyrir sér (sem betur fer fleiri núna) og ekki skrýtið þar sem áhugaleysi stjórnvalda er 0%. Það eru ekki nema 10 ÁR síðan ég fór að rífast yfir þessu. Þetta er ekki einu sinni eitthvað sem ég á að vera að rífast yfir því ég borða ekki einu sinni kjöt!!! Reyndar borðar Jóhannes kjúkling og væri gjarnan til í að geta keypt sér free range (hamingjusaman kjúkling) en kjúkling borðar hann ekki hér á landi né annað kjöt. Við skulum sjá hvort að þessi lífræni búskapur skili sér ekki út í free range líka (þarf ekki alltaf að gera það) og það má ekki rugla þessu tvennu saman. Það er hægt að fara illa með dýr þó búskapur sé lífrænn en sjaldnast er það svo. Erlendis eru reyndar bændur sem notfæra sér þetta...merkja vörurnar sem lífrænar og halda dýrum samt í hroðalegum skilyrðum og fólk veit ekki betur en allt sé í besta lagi. Það er þó verið að taka fyrir þetta. Ég er viss um að þannig verður þetta ekki á þessum bæjum í Kjós. Nú er bara að sýna stuðning við framtakið. Hver veit nema Jóhannes geti keypt free range kjúkling áður en langt um líður!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It