Alþjóðahádegi og sushiblöð

Ég rölti upp okkar sorglegu, sorglegu „verslunar“-götu í hádeginu í dag (Laugaveginn). Ótrúlega margar búðir hafa pakkað saman, aðrar eru að flytja eða hætta og mikið er af tómum verslunarplássum. Veggjakrot er alls staðar og almennur doði yfir öllu. Virkilega leiðinleg upplifun. Að fara í bankann er líka orðið hálf fyndið. Eini jákvæði punkturinn er að bankaferðirnar minna mig á London. Þar bíður maður einmitt í 30 mínútur eftir að gera eitthvað smáræði. Á meðan sér maður allt furðulega fólkið og útlendingina (er ekki að segja að fyrri hópurinn þurfi að tilheyra þeim seinni eða öfugt). Ég sá t.d. skvísur í ballklæðnaði þ.e. níðþröngum buxum, í pallíettujakka, með 20 cm eyrnalokka og skóm með 10 cm háum hælum og opinni tá (sumar voru berfættar í skónum). Ég sá líka bæði konur og karla í alvöru snjóþvegnum gallabuxum (þessum hvítu og svörtu sem eru eins og snjóþvegnir Dalmatíuhundar). Ég rétt sá glitta í þennan klæðnað á milli húfunnar og trefilsins og varð litið niður á kuldaskóna mína sem geymdu ullarsokka og kaldar tær. Ég var með kuldahroll þó ég væri í þykkustu gerð af Merinho ull sem til er á markaðnum frá ökklum og upp í háls. Manni verður greinilega hlýtt á því að vera pæja......Reyndar sá ég að það að vera á pinnahælum eins og nokkrar skvísurnar voru er ferlega sniðugt í hálkunni því maður getur borað hælunum ofan í snjóinn og hálkuna...þannig er maður með sniðuga, innbyggða mannbrodda OG er skvísa í leiðinni. Mér fannst líka athyglisvert að ég heyrði ekki íslensku nema einu sinni þessar 30 mínútur sem ég beið eftir þjónustu.  Það er auðvitað allt í lagi sko..er ekkert að kvarta yfir því og ef ég lokaði augunum var ég komin í bankann okkar á Tottenham Court Road. Fannst líka athyglisvert að ég sá a.m.k. 20 viðskiptavini senda peninga með Wester Union (alþjóðlegt greiðslukerfi). Áður en ég kom til Afríku vissi ég ekki hvað Western Union var og núna sé ég í hvert skipti sem ég á erindi í bankann, marga nota þjónustuna. Finnst hálf ótrúlegt að fólk sé að senda peninga ÚR landi eins og ástandið er, en það er svo sem slæmt víða og verra hjá mörgum en hér.

Talandi um London þá get ég ekki annað en hlegið yfir snjónum sem setur allt á hvolf þar í bæ. Á hverju EINASTA ári eru bæjaryfirvöld hissa á þessu hvíta fyrirbæri sem fellur af himnum ofan og setur samgöngur í LAMASESS. Ég er ekki að tala um að einn og einn bíll sé fastur eða gangi illa í hálkunni. Ó nei. Strætóar, leigubílar, lestar (neðanjarðar og ofanjarðar) og flugvélar hætta að ganga. Fólk leggur niður störf, tekur sér „Snow Day“ og skólarnir loka. Þetta væri varla snjór til að tala um hérna heima og við glottum auðvitað yfir þessu. Þarna hins vegar verður neyðarástand og maður hugsar með sér „eeeeeevery time“. Jóhannes lenti einu sinni í því þegar hann var að vinna hjá Disney að vera fastur í marga klukkutíma í bænum (við bjuggum aðeins fyrir utan). Hann komst ekki spönn frá rassi og það var annað hvort að gista á skrifstofunni, innan um litríku tuskudýrin eða leigja hótelherbergi. Einmitt ástæðan fyrir því að flestir geyma hreinar nærbuxur og tannbursta í skúffunni á skrifstofum sínum. Kemur sér líka vel þegar einhverjir brjálæðingar sprengja bombur í neðanjarðarlestunum. Jóhannes dó reyndar ekki ráðalaus og mundi eftir því að hann gat pantað fyrirtækisbíl frá Disney sem keyrði hann heim. Hann tók ókunnuga konu með sér (hann heyrði hana hálfgráta í símann og var einmitt að fara á sama stað og Jóhannes og hann bauð henni far) og ég er viss um að hún er enn þá að hugsa fallega til hans.  Elva vinkona var ekki jafn heppin eitt sinn því eftir 2ja sentimetra snjókomu sem lamaði bókstaflega allt var hún í fleiri, fleiri klukkutíma á leiðinni heim. Þetta er nefnilega þannig að ef maður getur ekki labbað heim til sín (sem fáir geta í London, því flestir búa út í rassgati) er maður undir almenningssamgöngur kominn og það er ENGIN önnur leið. Maður getur gleymt því að reyna að ná sér í mini-cab (ódýra leigubíla) því þeir annað hvort keyra ekki eða eru pakkfullir fram á nótt. Þolinmæði Londonbúa á sér engin takmörk í þessum efnum. Þetta hugsum við oft hérna á Íslandi þegar við t.d. erum að ýta föstum bílum, erum stödd í alvöru snjóstormi á Reykjanesbraut (eða á leið til útlanda í brjáluðu roki og skafrenningi) eða erum að brjótast stutta leið í vinnuna (sem væri hægt að fara með strætó eða leigubíl því allt gengur samkvæmt áætlun..svona næstum því a.m.k). Þetta á bara eftir að versna þ.e. með þessu breytta loftslagi verður kaldara í London. Kannski að þeir aðlagi sig að breyttum aðstæðum en þeir eru a.m.k. ekki að „ná þessu“ eins og staðan er í dag. Bara fyndið.

Annars sá ég mér til mikillar gleði (bjargaði þessu þunglyndislega hádegi) að hægt er að kaupa 50 sushi-(nori) blöð  á 1360 krónur í versluninni Filippseyjum, Hverfisgötu. Það er BARA helmingi dýrara en í London (kostar 7 pund) en að sama skapi eru 10 blöð þá á 136 krónur í stað 780 króna í Austurlenska markaðnum (áður „Sælkera“-verslun Nings)....!!!!! Það þarf ekki mikið til að gleðja mig.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

HÆ þetta var góður pistill, ég á 2pakka held ég af blöðum fyrir sushi þau kosta ekkert.Bæ m

Melkorka
04. feb. 2009

Gott að vita af þessu með nori blöðin, bráðum get ég farið að borða hráan fiska aftur. Held að ég viti hvaða verslun þetta er, er hún ekki rétt hjá Hlemmi á horni tveggja gatna?

Sigrún
04. feb. 2009

Jú mikið rétt Melkorka, ská á móti 10-11. Svo er líka thailenska búðin á Hlemmi sniðug þ.e. margt hægt að kaupa þar á ágætu verði.