Ódýra uppskrift vikunnar #7: Bakaður byggréttur með spínati, hvítlauk og sveppum

Bakaður byggréttur með spínati, hvítlauk og sveppum

Bakaður byggréttur með spínati, hvítlauk og sveppum

Hollustueiginleikar: Bygg er próteinríkt, trefjaríkt og ódýrt og fullt af vítamínum. Ekki sakar að hægt er að kaupa frábært, íslenskt bygg og það er lífrænt framleitt! Í trefjum byggsins er efnið beta glucan sem stuðlar að því að lækka kólesteról (það vonda). Bygg inniheldur líka niacin sem er B vítamín sem stuðlar að því að hjálpa til við að sporna gegn alls kyns hjartatengdum vandamálum. Bygg hefureinnig þótt afar gott við að stuðla að því að minnka líkurnar á sykursýki II en það gerir magnesiumið og bygg getur líka hjálpað til við að fyrirbyggja myndun gallsteina. Ekki nóg með það heldur getur bygg einnig hjálpað til við að sporna gegn sumum tegundum krabbameins eins og t.d. ristilkrabbameini og brjóstakrabbameini. Hollustueiginleika spínats þekkja svo allir en það er jú fullt af K, C, B2, B6 og A vítamíni, manganese, folinsýrum, magnesium, járni, kalki, trefjum, potassium o.fl., o.fl. Listinn er nánast endalaus. Spínat inniheldur meira að segja smávegis af omega 3 fitusýrum! Stjáni Blái vissi því alveg hvað hann söng þegar hann tróð í sig spínati því spínat er gott fyrir húð, hár, augu og sjón, bein, taugar, frumur, æðar, hjarta, vöxt fóstra (vegna fólinsýranna) og getur líka hindrað myndun krabbameinsfruma. Spínat er nefnilega algjör súperfæða. Hvítlaukur og rauðlaukur er auðvitað hollur líka, inniheldur t.d. C vítamín, andoxunarefni, trefjar o.fl…

Hægt er að kaupa frosið spínat en það er mun ódýra en ferskt. Bygg fæst í flestum verslunum og 1 bolli af ósoðnu byggi gefur um 3 bolla af soðnu byggi. Til að spara tíma má sjóða byggið deginum áður. Gott sparnaðarráð er að setja bygg í pott að kvöldi, láta suðuna koma upp, sjóða í nokkrar mínútur og slökkva svo undir (með lokið á pottinum). Byggið verður tilbúið næsta morgun.

Fyrir 2

Fylling:

  • 2 dl soðin bygggrjón (sjóðið 0,5 bolla á móti 2 bollum af vatni í 30 mínútur)
  • 150 gr ferskir shitaki sveppir (eða aðrir bragðmiklir sveppir). Sneiddir fínt (ég nota stöngulinn líka)
  • 1 rauðlaukur, saxaður fínt
  • 100 gr ferskt eða frosið spínat. Ef frosið, látið þiðna og kreistið vatnið úr því
  • 100 gr rifinn, magur ostur
  • 1/2 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Hvítlaukssósa:

  • 2 msk eða meira af sýrðum rjóma án gelatíns frá Mjólku (5%).
  • 1 hvítlauksgeiri, marinn + 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) eða 1 tsk hvítlaukssalt (frá Pottagöldrum)
  • 3 msk eða meira af AB-mjólk

Aðferð:

  1. Sjóðið bygggið.
  2. Steikið sveppina upp úr vatni og saltið.
  3. Bætið spínatinu saman við og steikið þangað til allur vökvi er nánast farinn úr spínatinu. Setjið til hliðar.
  4. Steikið rauðlaukinn í nokkrar mínútur.
  5. Bætið lauknum við spínatið og sveppina.
  6. Blandið nú grjónunum og ostinum saman við.
  7. Blandið hvítlaukssósunni saman við og hrærið vel í öllu.
  8. Setjið í nokkur lítil eldföst mót eða eitt stærra og bakið í um 20 mínútur við 180°C.
  9. Berið fram salati og meira af hvítlaukssósu.
  • Í staðinn fyrir bygg má nota hýðishrísgrjón.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It