Playboy og ofnæmi

Og ég sem hélt ég væri búin að heyra og sjá allt!!! Ekki aldeilis.

Jóhannes þarf starfs síns vegna að fylgjast vel með tæknimálum. Hann fer því reglulega á alls kyns fundi og þess háttar þar sem nýjustu tæknimál ber á góma. Hann segir mér reglulega, yfir kvöldmatnum hvað fer fram á þessum fundum (og ég þykist alltaf hlusta).

Ég er ekki sérlega tæknivædd þ.e. ekki nema Jóhannesi takist að sannfæra mig um mikilvægi ákveðinna hluta..þá verð ég alveg háð þeim en það er yfirleitt langt og afskaplega erfitt og lýjandi ferli fyrir Jóhannes. Hann t.d. kynnti fyrir mér tölvupóstfyrirbærið árið 1997 og ég fussaði og sveiaði...sagðist vel geta skrifað bréf  á bréfsefni og sent, miklu persónulegra. Í dag fæ ég fráhvarfseinkenni ef ég kemst ekki í tölvupóst og hef skoðað tölvupóst í öllum heimshornum. Enda stæri ég mig af því að hafa svarað fyrirspurnum CafeSigrun notenda í 4 heimsálfum og þ.m.t. löndum eins og Bandaríkjunum, Japan, Uganda, Rwanda, Tanzaniu, Kenya og svo auðvitað löndum innan Evrópu. Það væri sérlega óþægilegt að senda bréf á mig til allra þessara landa og líklegt að ef ég svaraði þeim úr þessum löndum, að þau myndu skila sér seint eða illa til notenda. Það tók Jóhannes þó smá tíma að sannfæra mig um ágæti þess að nota tölvupóst. Hann reynir líka reglulega að uppfæra hugbúnað hjá mér, helst þegar ég sé ekki til en hann veit þó afleiðingarnar ef hann gerir slíkt og er farinn að undirbúa jarðveginn mánuðum áður en breytingar eiga sér stað. Svolítið svona eins og gert er með t.d. einhverfa einstaklinga. Ég þoli illa breytingar ef ég hef vanist einhverju og fyrir tæknióðan (og ég meina tæknióðan) mann eins og Jóhannes er afar erfitt að skilja hvers vegna ég ER svona eiginlega.

En Jóhannes kom heim í gær og tilkynnti mér að nú gæti síminn sagt manni hvort maður væri með ofnæmi fyrir matnum sem væri á diski manns. Ég horfði á hann með hálflokuð augun, eiginlega að sofna  (eins og ég er yfirleitt þegar hann talar um nýjustu tækni og vísindi)...það þarf aðeins meira til að kveikja í mér fattið þið..."HA....?" (var viss um að ég hefði sofnað og verið að dreyma).  Já..maður setur símann yfir matinn og síminn skynjar innihald sem maður hefur ofnæmi fyrir t.d. hnetur, mjólk, glútein o.fl. og hann lætur þig vita...hvort þú sért með ofnæmi. Ég sver það. Mér finnst eins og ég sé stödd í árinu 3000 eða að ég sé orðin 189 ára og hafi ekki fylgst með NEINU síðustu árin.

Jóhannes reyndi að útskýra fyrir mér eitthvað varðandi nanó bla bla tækni bla bla bla brrreb baar eerrrs sgdggddd bla bla ... (rennur svolítið saman í eitt)...en þessi tækni er sem sagt á teikniborði hjá einum stærsta símaframleiðanda heims......Hef smá áhyggjur..... Jóhannes talar nefnilega  reglulega við og fer stundum á fundi með Playboy...hvaða nýjungar ætli þeir séu með?

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
19. des. 2008

Örugglega síma sem getur greint hvort brjóstin eru ekta eða ekki!

svandís
19. des. 2008

nújæja.. maður verður að fagna tækninni :)

CafeSigrun.com
19. des. 2008

Ætli það sé ekki næst Lísa :)

hrundski
19. des. 2008

Vá hvað ég skil þig. Svona tækjadellumál er svoooo zzzzzzzzz. Kannski ættum við að fá Jóhannes og Tolla til að þylja upp snúrufræði og tækjamál og selja á iTunes sem svefnmeðal?

CafeSigrun.com
19. des. 2008

Myndi virka vel fyrir mig Hrund... :)