8 glös af vatni á dag

Börn sækja sér mengað vatn í Zimbabwe

Myndin hér fyrir ofan er tekin af vef BBC. Það er þetta sem ég er að tala um þegar ég segi að við séum í raun og veru rík. Það er engin tilviljun að myndin sýni rusl á götum því á fæstum stöðum í Afríku er glansandi bíll sem keyrir um og hirðir heimilisrusl. Því er fleygt á göturnar þar sem geitur, beljur og hundar grafa í því og finna sér eitthvað ætilegt. Þegar illa árar, fer fólkið að leita í ruslið. Vatnið sem þessir strákar eru að sækja (myndin er tekin í síðustu viku) er mengað og skítugt en þetta er eina vatnið sem þeir hafa því hvergi eru brunnar eða vatnslagnir. Stjórnin í Zimbabwe (aðallega Robert Mugabe) hefur séð til þess. Þjóðin er í heljargreipum og fær ekki rönd við reist. Hámarksúttektir úr hraðbönkum duga ekki fyrir brauðhleif.

Það eru svona myndir sem fá blóðið í mér til að sjóða. Zimbabwe var land tækifæranna hér áður fyrr, þar voru viðskipti stunduð við Vesturlönd, menntun var með besta móti miðað við Afríkuríki, læsi ágætt, flottir bankar heilbrigðiskerfi prýðilegt. Hljómar þetta kunnuglega? Ekkert af þessu er til staðar nú, ekki einu sinni hreint vatn. Kólerufaraldur ríður nú yfir og í ljósi þess er ekki einu sinni víst að þessir drengir lifi þangað til þeir verða fullorðnir, jafnvel ekki til unglingsára. Fólk er nefnilega að deyja úr hungri líka vegna ógnarstjórnarinnar, menntun er engin, heilbrigðiskerfið er lamað, atvinnuleysi um 90%. Ef illa fer hjá okkur, eigum við samt hreint vatn. Við erum strax umtalsvert ríkari en Zimbabwe bara fyrir vatnið.

Ég er svoooo reið yfir því að þetta þurfi að vera svona. Einhvern veginn finnst mér betra að rífast yfir ástandinu í Zimbabwe en ástandinu hér. Ég er ekki að gera lítið úr því hvað margir eiga lítið á milli handanna nú.....ég er bara að sýna að þetta gæti verið verra....svo miklu verra og við eigum að hafa það hugfast.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
16. des. 2008

Þetta er nú meiri hryllingurinn sem á sér stað í Zimbabwe. Og það er rétt hjá þér, í samanburði við þetta erum við í nokkuð góðum málum. Dapurlegt þó að hugsa til þess að hjá okkur átti sér stað einhver raunveruleikafirring og vitleysa sem endaði með þessum ósköpum. Þarna er hreinlega einhver illska á ferðinni hjá stjórnvöldum. Mikið ofboðslega væri það nú mikil gæfa fyrir þessa þjóð ef þessi Mugabe færi frá völdum. Hvaðan koma svona menn? Hvað gerir þá eiginlega að því sem þeir eru?

Er bálreið með þér.