Jólatrésdilemma

Ég er búin að vera að velta fyrir mér jólatrjám síðustu vikum. Eins og mjög margir á þessum árstíma (eða aðeins síðar). Ég fæ alltaf svolítið kvíðakast yfir jólatrjám. Ég nefnilega lendi alltaf í sömu tilvistarkreppunni ár eftir ár. Það er nefnilega þetta með að vera með eða á móti alvöru grenitrjám (eða öðrum jólatrjám). Einu sinni var ég alveg á móti lifandi jólatrjám og var gráti nær við tilhugsunina um að fella þau þar sem þau stóðu í skóginum (svona eins og Phoebe í Friends var þegar Joey var að selja jólatrén). Löngu seinna þegar ég var búin að skoða málið betur komst ég að því að það þyrfti að grisja skóga til að leyfa hinum trjánum að vaxa betur. Það leist mér ágætlega á...svona eins og að gefa jólatrjánum þeirra hinstu ósk (aftur svo ég vitni í Friends.. "Fulfilling their Christmas Destiny"). Vera ljósum og skrauti klædd og láta dást að sér í nokkrar vikur. Það er svo ekki verstu örlög sem hægt er að hugsa sér.

Svo fór ég að hugsa með mér að það væri ekki sniðugt að flytja inn jólatré því þannig væru þau jú mjög óumhverfisvæn. Svo það yrðu að vera innlend tré. Sem er auðvitað gott mál. Ég fór þá að hugsa hvort að það væri ekki smá prinsipp mál hjá mér að fella ekki tré til þess eins að hafa það í stofunni og horfa á það deyja. Það samrýmist ekki alveg mínum gildum ef ég hugsa um það. Og ég er þá komin í hring og enda á því að hugsa um gervijólatré....tré sem er alltaf eins ár eftir ár. Góð fjárfesting og þannig séð umhverfisvæn. Við nánari athugun þó ekki mjög umhverfisvæn því þau eru jú framleidd úr plasti og plast inniheldur yfirleitt olíu og efni sem brotna illa niður í náttúrunni. En þá er hægt að enduvinna þau og málið leyst..eða er það ekki?

Svona held ég áfram að tala við sjálfa mig í kollinum....og er komin í marga hringi og með höfuverk.

Niðurstaðan er sem sagt sú að við höfum aldrei átt venjulegt jólatré öll þessi ár sem við höfum búið saman.

Fyrstu 5 árin í búskap áttum við 15 cm hátt jólatré sem var úr plasti og okkur var gefið. Það er enn þá í góðum gír og við notum það stundum.

Næstu 6 ár eftir það vorum við á eilífu flakki og bjuggum í London og héldum jól á Íslandi. Það tók því eiginlega aldrei að setja upp tré.

Mér datt aldrei í hug að næsta jólatré myndum við finna í Tanzaníu. Á leið okkar um Zanzibar september 2007 rákumst við á 160 cm langa útskorna spýtu. Við drösluðum henni frá Afríku til London og frá London til Íslands. Spýtan er 100-150 ára gömul hið minnsta og eins og ég hef áður sagt er hún notuð þar í landi til að loka tvær hurðar sem leggjast saman í miðjuna. Hurðar eru friðaðar á Zanzibar en ekki þegar þær eru svona í bútum eins og þessi.

Eftir mikið hugarangur síðustu jól um hvort við ættum að kaupa jólatré (og ég búin að rökræða við sjálfa mig meira en hollt er fyrir fólk sem er almennt með geðið í lagi) ákváðum við að skreyta spýtuna með hvítum ljósum. Spýtan var því jólatréð okkar og verður aftur í ár. Hún stendur í stofunni og hefur eflaust aldrei ímyndað sér að hún ætti eftir að enda sem jólatré á Íslandi....en maður veit aldrei sína ævina fyrr en öll er!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

barbietec
14. nóv. 2008

Fyrstu jólin mín skreytti ég bara humm hvað hét tréð aftur Fíkus ? sem ég átti inni í stofu :)

Ári seinna var það tré dautt og þá var keypt alvöru jólatré :)

Nokkrum árum seinna keypti ég einmitt alvöru jólatré og blótaði þeim svo í sand og ösku fyrir að reyna að drepa mig með því að stinga nálunum í mig og á endanum keypti ég gervi jólatré sem ég hef átt í fjögur ár.

Ég verð nú að segja að það er ótrúlegur léttir að þurfa að sleppa við stressið að finna "rétta" tréð um hver jól og ég tala nú ekki um þegar þau urðu uppseld ein jólin úff púff..

Svo má líka hugsa það þannig að það kostar nú ansk mikla mengun að flytja þessi influttu alvöru tré inn sem maður spara með að kaupa gervi, þannig að það jafnast kannski út varðandi plastið. En svo skapast vinna við að flytja þau hingað *pæl*

hehee..

Gerðu það sem hentar þér :) Þá líður þér best og það skiptir mestu máli fyrir þig :)

Sigrún
14. nóv. 2008

Akkúrat Sigrún Þöll..ég er greinilega ekki sú eina sem er að velta jólatrjám fyrir mér :) Ég veit um marga sem hreinlega hafa eyðilagt jólin fyrir sér með því að finna ekki "rétta tréð"....og eru þess vegna á bömmer út öll jólin...alveg glatað :)

Bogga
14. nóv. 2008

Þú verður að sýna okkur spýtuna sem er orðin af jólatréi......Annars er ég hjartanlega sammála alltaf sama pælingin um jólin:tréið: hvernig á það að vera????lifandi gerfi eða annað,mér finnst ykkar hugmynd flott.Kveðja úr keflavík Bogga

Lisa Hjalt
14. nóv. 2008

ég sem hélt að hvítri jólaseríu væri bara skellt á Elektru!

Sigrún
14. nóv. 2008

Jeminn Lísa, ég vona að Jóhannes lesi þetta ekki....ekki gott fyrir hann að fá svona hugmyndir ;)