Sister Sigrun..hvert var vandamálið aftur?

Eins og fram hefur komið höfum við verið að styrkja ugandískan námsmann sem óvænt varð á vegi okkar fyrir rúmu ári síðan þar í landi, til vegs og virðingar þ.e. hann er í námi sem við greiðum fyrir. Hann sækir nám í virtasta snyrtiskóla Uganda (alveg bannað að hlægja) og gengur vel. Hann var búinn að lofa að senda mér einkunnirnar sínar sem hann og gerði. Góður árangur er nefnilega lykillinn að því að hann fái áfram styrk. Eins og hann vissi. Nú er frí í skólanum og hann byrjar aftur 10. nóvember.

Ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að reyna að útskýra fyrir honum hvernig gangur mála væri hér á landi...ég stórefa að fréttir berist alla leið til hans þarna í Entebbe. Ég var að velta því fyrir mér hvernig ég gæti útskýrt þetta fyrir honum. Ef ég stæði augliti til auglitis við hann ímynda ég mér að samtalið færi svona:

* (Ég) Hæ E.

Hæ systir (er alltaf kölluð Sister Sigrun eins og þið munið).

*Heyrðu það er úr vöndu að ráða...íslenska þjóðin er orðin gjaldþrota!

Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra systir kær. Eigið þið þá ekki fyrir baunum og maís?

*Jú reyndar eru búðir fullar af mat og kindur og mjólk til í nægu magni.

Hvað segirðu, þið eigið þá mat, það er gott. En leiðinlegt að heyra að þið eigið ekki skjól eða þak yfir höfuðið!

*Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir, það eru fáir heimilislausir á Íslandi.

En hvað segirðu, eru þá allir veikir (sérstaklega þeir eldri og yngri) og heilbrigðiskerfið lamað?

*Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með ágætt heilbrigðiskerfi.

Nú jæja systir, gott að heyra en leiðinlegt samt að menntunin muni fara halloka og að ekki muni allir hafi tækifæri til að læra að lesa, sérstaklega ekki konur.

*Jú reyndar er 99% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með háskólagráður jafnt konur sem karlar.

Það er nú gott, þannig að það eina sem þið þurfið að passa er að lenda ekki í stríði við nágranna ykkar.

*Uuuu við erum reyndar ekki með her og erum nú friðsæl þjóð.

Ok en samt verst að þið komist ekki í hreint vatn.

*Jú við eigum reyndar besta vatn í heimi.

Nú en vegakerfið er þá eflaust ónýtt og fáir bílar á ferð..í Afríku ganga jú allir eða nota troðna strætóa, asna, reiðhjól o.fl...leiðinlegt ef að ekki einu sinni strætóarnir ganga.

*Uuu það er verið að ræða hvort almenningssamgöngur eigi að vera ókeypis og vegir eru malbikaðir og flestir eru á bílum, mótorhjólum og fallegum, skínandi reiðhjólum (gömul reiðhjól eru lúxusvara þarna um slóðir).

En það er verst ef þið eigið enga peninga til að gera ykkur glaðan dag, ef þjóðin er gjaldþrota.

*Flestir eiga reyndar sparnað á bókum þó margir hafi tapað honum síðustu daga, kannski erfitt að kaupa stærri sjónvörp og svoleiðis og utanlandsferðunum verður jafnvel að fækka.

Samt svakalegt ef atvinnuleysi er yfir 50-70% þannig að nánast ómögulegt sé að fá vinnu?

*Reyndar er atvinnuleysið um 2%......Íslendingar nenna bara ekki að vinna vinnuna sem útlendingarnir unnu...

Hmmm svo þið hafið húsnæði, mat, húsaskjól, heilsu, menntun, frið, hreint vatn, samgöngur (og bíla), peninga.....Sister Sigrun....hvert var vandamálið aftur?

Eftir að hafa lent í samræðum við ugandíska lærlinginn í huganum þá ákvað ég að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum áhyggjum mínum af "gjaldþrota" eyríki. Ég sendi honum fyrir námsgjöldum næstu annar og kannski smá vasapening með. Hann þarf nefnilega að ganga í marga klukkutíma annars til að komast í skólann því hann hefur ekki efni á strætó, húsnæði, mat, bókum, skriffærum né neinu öðru. Systir hans E hefur hótað því að lemja hann ef hann stendur sig ekki vel (sagði hún mér sjálf) og ég vil ómögulega gera honum þetta erfiðara fyrir.

Ég er bara svakalega ánægð með að lærlingurinn fékk A í Make Up. Lægsta einkunnin var C- í efnafræði hárlenginga. Ég sagði honum líka að hann hefði staðið sig vel og þyrfti ekki að hafa áhyggjur af næstu önn. Sister Sigrun ætlar að sjá um málið þ.e. ef ég get þá sent peninga íslenskra terrorista til Uganda!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Ásta Sóllilja
16. okt. 2008

Góður póstur!

Ingibjörg
16. okt. 2008

Þetta fær mann til að hugsa!

m.
16. okt. 2008

hæ sendu bara sma upphæð í einu , þa ætti hann að fá eitthvað.

kv. m.

barbietec
16. okt. 2008

snilld!!! þetta er það flottasta sem þú hefur skrifað!

hrundski
16. okt. 2008

heyr heyr !!!!

Alma María
16. okt. 2008

Frábær skrif Sigrún.

Við höfum það svvvoooo gott hérna.

Elisabet
17. okt. 2008

oh þetta fær mig enn meira til að hugsa um vælið sem maður heyrir núna út um allt. Heppin þið að eiga ekki sjónvarp núna maður, ég að vísu passaði mig nánast á því frá byrjun að "heyra" og "vita" ekkert hvað væri að gerast,,, svo að ég hef ekki enn lagst útaf út af þessu. En virkilega góður póstur hjá þér eins og venjulega stelpa,,

Harpa
18. okt. 2008

amen systir... það þarf að koma með meira svona innlegg inn í umræðuna. Er orðin ansi þreytt á vælinu um slæma ástandið. Vakna aðeins upp af góðærinu og dekrinu... höfum gott af því.

Tolli
18. okt. 2008

Flott grein Sigrún og rekur eflaust marga til umhugsunar um það hvað við höfum það gott.

Saga
19. okt. 2008

Sæl Sigrun! Þetta er frábær síða! Ég hef alltaf haldið því fram að ég væri ömurlegur kokkur og hafði gefist upp á því að geta nokkuð tímann eldað. En vegna heilsunnar þurfti ég að skipta um matarræði og haf smátt og smátt verið að byrja elda með uppskriftum héðan! TAKK :)

En mig langaði að spyrja hvort þú gætir bent mér á góðar heilsubúðir í London. Er í námi þar núna. Ég get ekki kvartað þótt að pundið sé komið í 200 krónur því verðið í matvörubúðunum er ennþá ódýra en á íslandi! En já endilega ef þú getur bent mér kannski á góða heilsuvörubúð og einhvern góðan veitingastað yrði ég rosalega glöð.

Kv. Saga

Sigrún
19. okt. 2008

Hæ Saga og takk fyrir hrósið :)

Heilsubúðir já....eru ástæðan fyrir því að ég mun flytja út aftur :)

Ég notaði þær heilsubúðir sem voru næstar mér (ég bjó alveg við Regent Street) þ.e.:

Planet Organic (á milli Barclays og Habitat á Tottenham Court Road). Mjög góð búð og allt til, á milli himins og jarðar.

Whole Foods Market (eru út um allt), ég notaði þessa í Soho. Hét áður Fresh and Wild en heitir núna Whole Foods Market. Virkilega flott búð. Farðu bara inn á heimasíðuna þeirra og skoðaðu þá sem er næst þér. http://www.wholefoodsmarket.com/stores/uk/index.php

Svo eru flestar matvöruverslanir eins og Waitrose með góðar heilsudeildir eins og þú veist örugglega.

Veitingastaðir:

Neal's Yard Salad bar (uppáhaldsstaðurinn okkar, ath eru ekki bara með salöt)..er í Neal's Yard sem er við Seven Dials í Covent Garden. Leitaðu bara að Neal's Yard á korti. Þar er líka World Food Cafe sem ég mæli með (frábærar matreiðslubækurnar frá þeim) og á sama stað er líka Souk sem er mjög spennandi staður (maturinn frá Morocco)...Þetta litla afdrep/torg er alveg meiriháttar og fjarri ys og þys London þó maður sé alveg í miðborginni. Ef þú drekkur kaffi mæli ég með að þú prófir Monmouth Cafe sem er við Seven Dials líka.

Govindas (Hari Krishna grænmetisstaður, ferlega fyndinn he he). Maður velur sér bara í bakka og allt ferlega gott og mjög, mjög ódýrt.

http://www.london-eating.co.uk/2664.htm

Á korti: http://www.london-eating.co.uk/maps/23546.asp

Staðsetning: Soho

Wagamama klikkar aldrei. Eru út um alla London en mælum með þessu: http://www.wagamama.com/locations/showlocation/542

Staðsetning: Covent Garden

4 Market Place (4MP) Endilega prófaðu kaffihúsið hennar Maríu vinkonu okkar. Afar, afar ódýr matur og María er eiturhress (ástralskur Grikki). Algjört möst að skila kveðju frá mér. Hún lokar yfirleitt um kl 17, upplagt að fá sér t.d. hádegismat og súpurnar eru alltaf góðar.

Staðsetning: Nálægt Oxford Street og Regent Street

http://maps.google.com/ sláið inn: 4 Market Pl Westminster, London UK

Vona að þetta hjálpi :)

Kv.Sigrún

Elisabet
19. okt. 2008

ha ha sé þig alveg í anda núna hvað þig kítlar við að deila visku þinni frá London við síðustu fyrirspurn,,,

MD
21. okt. 2008

Takk! :) Það er holt að setja hlutina í samhengi.

Saga
18. nóv. 2008

Ohh takk æðislega! Ég tékka á þessum stöðum!