Góðæriste

Einu sinni var hipp og kúl að vera frá Íslandi. Reglulega var ég spurð hvaðan ég væri og svarið var alltaf "Já frábært..eitt af markmiðum mínum í lífinu er að heimsækja Ísland" (ekki eins og sé erfitt að hoppa upp í flugvél). Ég svaraði yfirleitt...."Það eru um það bil 4-5 flug á dag til Íslands frá tveimur flugvöllum í London og það tekur 3 tíma"...."Jiii er það...ég verð að heimsækja Ísland...einn daginn".

Reglulega svaraði ég líka spurningum um land og þjóð.."Nei það eru ekki snjóhús"..."Nei það eru ekki snjóhús og nei þ.a.l. ekki lyftur í þeim", "Já við erum komin af víkingum", "Já áfengið er ótrúlega dýrt", "Já við borðum kindaeistu og úldinn hákarl". o.s.frv., o.s.frv....það var samt alveg sama hvað ég sagði..alltaf var svarið "coooool, so interestiiiiiing". Sem það var ekki.

Í vinnunni minni út (sem ég hef verið í síðan 2004 og er enn í sem verktaki) sögðu yfirmenn mínir gjarnan "heyrðu við verðum að passa að Sigs sölsi ekki undir sig fyrirtækið..., Íslendingar kaupa nefnilega allt" (var gjarnan kölluð Sigs, S, Sigg, o.fl. ef þið eruð að velta nafninu fyrir ykkur). Ef einhver t.d. stríddi mér út af hreimnum sagði ég gjarnan "passaðu þig...annars læt ég fólk sem ég þekki kaupa búðina sem þú verslar í og læt þá hækka allt upp úr öllu valdi...ef fólkið á ekki búðina nú þegar"...auðvitað allt í góðu. Ég var m.a. að vinna með stjórnmálafræðingi sem skildi ekki hvernig þetta litla land gat verið með svona svakalegt mikilmennskubrjálæði og svona mikla peninga í höndunum..."Meikar engan sens" sagði hann hvað eftir annað. Sem það gerði auðvitað ekki. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég væri stolt af þessum kláru mönnum sem greinilega vissu hvað þeir voru að gera og voru að sölsa undir sig heilu verslunargöturnar, stærstu leikfangabúð Evrópu, verslunarkeðjur o.s.frv. Fyrir ekki svo löngu vorum við kúguð þjóð en aldeilis ekki lengur. Mikið var ég glöð yfir því. Þetta var ekki að skerða hag neins (að ég hélt) og því var ég ánægð fyrir hönd þeirra sem þetta gátu...svona er maður vitlaus.

Núna hins vegar skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur því ég veit að í staðinn fyrir "cooool" kemur "oohhh sorry mate"... og í staðinn fyrir að vera hipp og kúl verð ég hallærisleg. Það sem mér finnst alveg brjálæðislega kaldhæðnislegt er að nokkrum dögum áður en allt fór til fjandans var ég að halda námskeið hjá einum bresku bankanna. Á námskeiðinu talaði ég annars um hversu góðar fyrirmyndir íslensku bankarnir (ekki í fjármálum heldur vegna annarra mála). Fólkið á námskeiðinu hripaði niður punkta og kinkaði kolli..."Sérdeilis vel að verki staði hjá þeim"..."Já akkúrat...við Íslendingar leggjum svo mikinn metnað í bankana okkar...þeir eru með þeim bestu í heimi"..."Já satt segirðu...sjáðu t.d. IceSave"...o.s.frv. Í hádeginu fór ég út að borða með nokkrum af þessum bankamönnum og þeir yfirheyrðu mig um Ísland..."ohhh einn daginn mun ég heimsækja Ísland" og allur sá pakki. Einn spurði mig hvort að satt væri að allir Íslendingar ættu flotta jeppa, stór sjónvörp, færu til útlanda mörgum sinnum á ári..."Já meira og minna satt sko enda eru Íslendingar allir frekar efnaðir svona miðað við allt...ein af ríkustu þjóðum heims"...Þetta samtal er búið að fara í gegnum kollinn á mér síðustu daga og ég er að velta því fyrir mér hversu mikið hlegið er að mér núna. Vonandi ekki svo mikið.

Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er að ég er að drekka te. Te sem ég geymdi í skúffunni minni á skrifstofunni í London, te sem ég ákvað að henda nú ekki heldur pakka ofan í kassa og taka með mér heim enda sparsöm og hagsýn með eindæmum...Þetta te er eiginlega góðæriste og þegar ég drekk það loka ég augunum og hugsa um það þegar við vorum hipp og kúl...Verst að teið er að verða svolítið rammt vegna aldurs..eða kannski bragðast það bara öðruvísi þegar maður er ekki "coooool".

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
16. okt. 2008

Nú sé ég samhengið í þessu öllu! Það varst þú sem felldir bankana!

Sko, eftir að þú varst búin að halda þetta námskeið þá fóru bresku bankamennirnir að skoða hvað það væri sem þeir væru að gera rangt en íslensku bankarnir rétt. Þeir komust auðvitað að því að þetta var allt ein stór svikamylla og hringdu í Hr. Brown sem beitti hryðjuverkalöggjöf á landið!

Sigrún! HVAÐ HEFURÐU GERT?!!

Sigrún
16. okt. 2008

He he....oft veltir lítil þúfa þungu hlassi er það ekki???