Óhollustusamkeppni CafeSigrun sett af stað

Á rölti mínu um búðina í hverri viku skoða ég gjarnan innihaldslýsingar matvöru sem ég myndi aldrei kaupa því ég veit að hún er óholl. Það er hins vegar gaman að fræðast um það sem í boði er. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvernig fólk getur keypt vörur eins og Coco Puffs....en fólk er með misjafnan smekk og ekki allir sem eru að spá í heilsumálum. Það eru þó margir sem kaupa vörur og halda að þær séu hollar...eins og Kellogg's Special K. Þar eru neytendur blekktir sóðalega. Það er bara eitt dæmi af mörgum.

Næstu 10 vikur ætla ég í hverri viku að birta eina vöru og skoða hana svolítið. Þetta verður eins konar samkeppni í óhollustu. Reglurnar eru þessar:

  1. Varan má ekki vera augljóslega óholl þ.e. ekki Snickers bar eða álíka sem allir vita að er óhollt.
  2. Sælgæti verður ekki tekið fyrir enda vita allir hversu óhollt sælgæti er.
  3. Varan verður að vera erlend (nenni ekki að fá á mig haturspóst) en það er ekki þar með sagt að íslensku vörurnar séu hollustavara, þvert á móti (sem dæmi gæti ég tekið sykraðar mjólkurvörur, "hollustustangir" fyrir fólk í líkamsrækt, kex hvers konar (eins og mjólkurkex), unnar kjötvörur o.fl).
  4. Varan verður að fást í flestum stærri verslunum.

Tilgangurinn er að vekja neytendur til umhugsunar og markmiðið er að fólk fari í búðina en hugsi sig tvisvar um áður en það grípur tiltekna vöru, skoði jafnvel innihaldslýsingu, velji vöru sem ekki er pakkfull af E efnum o.s.frv. Tilgangurinn er hins vegar EKKI að stofna til rifrildis eða nöldurs. Það er aldrei gaman. Þetta á að vera létt og skemmtileg "keppni" sem vonandi allir geta haft gagn og gaman að. Athugið einnig að ég er ekki næringarfræðingur né matvælafræðingur svo öllum upplýsingum ætti að taka með fyrirvara að sjálfsögðu :)

Þátttakandi nr. 1 í Óhollustusamkeppni CafeSigrun verður birtur á morgun svo fylgist með......

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It