Komin heim frá Rwanda-Uganda-Tanzaniu og Kenya

Górilluungi í Virunga fjöllunum Keflavík- London- Kenya (Nairobi)-Uganda (Entebbe, Ishasha)-Rwanda (Kigali, Ruhungeri, Virungafjöllin)-Uganda (Kampala, Jinja)-Kenya (Nairobi, Mombasa, Diani ströndin)-Tanzania (Arusha, Moshi, Uzambarafjöllin)-Kenya (Nairobi) - London - Keflavík....í grófum dráttum er þetta leiðarlýsingin.

Ferðin var frábær í alla staði enda alltaf gaman að koma til Afríku. Það var þó sérstaklega skemmtilegt að koma til Rwanda og Uganda, 2 landa sem við höfum ekki farið til áður. Rwanda situr þó eftir í kollinum...algjörlega stórkostlegt land og landslag, vinalegt fólk, stórbrotin og skelfileg saga landsins, heimkynni górillanna, rafmagnað og svalt loftið í fjöllunum (endalausar þrumur og eldingar í kringum eldfjöllin) og margt fleira gæti maður nefnt. Górillurnar í Virunga fjöllunum í Rwanda voru stórkostlegar, ljónin í trjánum í Ishasha, Uganda voru líka flott. Fyrir marga var flúðasigling niður magnaðar flúðir Nílar einn hápunktur ferðarinnar en ég lét kyrrt liggja þar. Mér er meinilla við vatn (allt í lagi að vera ofan á því eða horfa á það en mér er meinilla við að verða kalt eða að verða blaut).

Þegar við skildum við hópinn í Nairobi fórum við Borgar og Elín og Jóhannes ásamt Stephanie og Roland áfram til Tanzaniu og Kenya. Við komum meðal annars við í Uzambara fjöllunum í Tanzaniu...stórbrotnir fjallgarðar með aragrúa fjallaþorpa. Það tók okkur 2 tíma að klífa upp fjallvegina á land cruiser til að komast á áfangastað. Útsýnið þegar upp var komið var þess virði. Maður missir hálfpartinn andann...maður stendur á fjallstoppi og horfir yfir skýin og landslagið fyrir neðan. Þetta var skrítinn staður. Hótelið var í furðulegum ó-stíl. Fyrir neðan hótelið var spiluð tónlist svo há að veggirnir í moldarkofanum titruðu. Tónlistin glumdi um allt þorpið. Þar ofan í bauluðu beljur og alls staðar heyrðum við í krökkum að hlægja og leika sér, mæður að skamma börnin sem voru að prakkarast, strákar í tötrum á fótboltaæfingu (fyrir utan einn sem átti glænýjan, gulan búning) og trilljón fuglar og skordýr að hamast í ljósaskiptunum. Alls staðar var líf.

Nú eftir þetta fína ferðalag lentum við svo í London (þar sem við sáum meðal annars Stephan Fry á labbi í Soho, Duncan úr strákabandinu Blue...alltaf bætist við á celeblistann) og við flugum svo þaðan í gær með trega í hjarta eins og venjulega.

Það vill þannig til að í dag er nákvæmlega ár síðan við fluttum heim frá London. Við segjum alltaf að búum á Íslandi „í bili“. Við héldum að þetta yrði eftir árið orðið svo ótrúlega þægilegt og gott en við söknum London meira ef eitthvað er eftir árið. Að koma þangað er eins og að koma heim en Ísland er meira eins og staður til að heimsækja í fríum... (finnst okkur sko). Það þýðir þó ekki að væla því maður hefur alltaf val...við getum farið ef okkur sýnist og eigum líklega eftir að gera það...hvenær vitum við ekki alveg 100%. Svo er ágætt að plana ekki allt of langt fram í tímann..við erum ekki svo góð í því.

Annars ég núna að vinna í myndunum úr ferðinni og ég set þær inn á Netið um leið og ég get. Við tókum ekki nema um 2500 myndir í allt! Eins gott að þetta er allt stafrænt! Setti eina mynd inn sem ég tók af górilluunga svona til að þjófstarta....("sneak preview").

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigga
11. mar. 2008

það er orðið þónokkuð síðan ég uppgötvaði síðuna þína og hef gaman af að lesa og prófa upppskriftirnar, nú nýlega tók ég eftir blogginu líka og hef fylgst með ferðalaginu ykkar til Afríku, það er heimsálfa sem mig hefur dreymt um að heimsækja einhvern tímann, hlýtur að vera einstök upplifun, landslagið og dýralífið.

Ég vil bara þakka þér fyrir frábæra síðu sem ég er nánast farin að kíkja á daglega.

kveðja

Sigga