Smá hugleiðing um kurteisi á Netinu

Mér berast fjölmargar fyrirspurnir í hverri viku, stundum margar á hverjum degi. Það er ekkert nema gott og blessað og svo innilega gaman að sjá hvað notendur fylgjast vel með CafeSigrun, ég verð eiginlega alltaf jafn hissa því ég hafði bara hugsað vefinn fyrir mig. Síðan bætast endalaust notendur við og með fleiri notendum er meiri ábyrgð. Ég hef verið að hugsa til eins náunga undanfarna daga. Þessi náungi var með heimasíðu (ljósmyndari) og fékk töluvert margar heimsóknir dag hvern. Einn daginn sá ég að hann var búinn að loka heimasíðunni sinni og í staðinn var texti sem sagði: "Þegar notendur vefjarins hafa lært kurteisi og mannasiði, opna ég vefinn aftur". Ég hafði ekki hugmynd um hvað maðurinn var að meina og af því að þessu fylgdi skýring þá ákvað ég að skoða hana. Þessi strákur fékk margar fyrirspurnir dag hvern varðandi ljósmyndirnar sínar sem hann var að selja. Hann var búinn að setja upp reglur varðandi það hvernig ætti að senda fyrirspurn eins og: "Ekki byrja á fyrirspurninni án þess að kynna þig eða hvernig þig rak á fjörur þessa vefjar. Kynntu þig. Þú kynnir þig í síma og þess vegna ber þig að kynna þig á heimasíðum annarra" og svo rakti hann fleiri reglur í viðbót en það var ekki nóg til að fólk hegðaði sér almennilega svo hann lokaði (en opnaði svo aftur þegar honum rann reiðin).

Mér finnst ægilega gaman að fá línu frá notendum vefjarins. Ég gleðst alveg ótrúlega þegar fólk er ánægt með það sem ég er að gera. Ég meina það frá innstu hjartarrótum. Hins vegar er eins og sumir gleymi því (eða viti ekki) að ég sinni vefnum mínum í allt of litlum frítíma mínum. Ég sinni vefnum þegar aðrir horfa á sjónvarp og ég nota öll kvöld í vefinn þegar ég er ekki að vinna. Eftir 8 tíma vinnudag tekur oft önnur vinnulota við í nokkra klukkutíma og svo sinni ég vefnum og oft er maður orðinn þreyttur eftir langan, langan dag. Ég er alls ekki að kvarta því þetta er áhugamálið mitt og enginn sem skipar mér að gera eitt né neitt nema ég sjálf. En tímafrekt er þetta áhugamál mitt, það væri lygi að segja annað. Ég svara líka öllum fyrirspurnum. Ég hef svarað fyrirspurnum í öllum heimshornum; Kenya, Tanzaníu, Danmörku, London, New York, Tokyo, nefnið það, ekki lélegt að svara fyrirspurnum í 4 heimsálfum! Ég hef meira að segja svarað fyrirspurn á Hellisheiðinni og á U2 tónleikum með nýja 3G símanum mínum.

Lang, lang stærsti hluti notenda kynnir sig, þakkar fyrir vefinn og spyr svo um eitthvað sem hann vill fræðast um. Sem er bara gaman. Ég fæ oft fyrirspurnir frá sama fólkinu sem er bara enn þá skemmtilegra því mér þykir vænt um þessa notendur (þið vitið hver þið eruð :). Flestir eru sem sagt kurteisir og mér er sönn ánægja að aðstoða fólk með hinar ýmsu heilsupælingar. Hins vegar finnst mér svo leiðinlegt þegar fólk kynnir sig ekki, segir mér ekki hvers vegna það var að skoða vefinn o.s.frv. Það þarf ekki að hrósa mér, ég er ekki að meina það. Málið er bara að ég fæ nefnilega svo oft fyrirspurnir sem eru bara ein lína t.d. "Hvað er byggmaltsíróp" eða "Hvernig bý ég til sultu?", "Hvað er sniðugt að borða?", "Af hverju klúðraðist döðlubrauðið"?. Ekkert meira, ekki einu sinni nánari útskýring (svona eins og ég lesi hugsanir. Það geta verið milljón ástæður fyrir því að eitthvað mistekst og ég veit ekki hvað fólki finnst gott að borða ef ég þekki það ekki neitt), ekkert "Halló ég heiti Jónína", eða "kveðja Jón Jóns" eða "..annars takk fyrir vefinn" eða neitt.

Yfirleitt svara ég um hæl og oft tek ég langan tíma til að svara fyrirpurnum...marga klukkutíma jafnvel ef þær eru þess eðlis. Þegar ég fæ margar svona fyrirspurnir í röð (svona 5 orða fyrirspurnir) hugsa ég með mér: "til hvers í andskotanum er ég að hafa þennan vef opinn.... og ég verð hroðalega pirruð". Svo bjargast þetta með einhverju hlýlegu kommenti frá öðrum notendum og ég verð aftur glöð.

Mér verður bara svo oft hugsað til þessa stráks sem lokaði vefnum sínum því hann fékk nóg. Ég er ekki að fara að loka vefnum mínum....ég er með mörg hundruð notendur dag hvern, mörg þúsund síðuflettingar, mörg hundruð notendur á póstlistanum og ég myndi ekki gera þeim það. Það er bara eins og sumir notendur átti sig ekki á því að ég þarf ekki að hafa vefinn minn opinn, hann er fyrst og fremst áhugamálið mitt. Hann er ekki þjónustuvefur og það er enginn sem styrkir hann fjárhagslega. Ég er ekki með fólk á launum við að svara fyrirspurnum eða setja inn uppskriftir, taka myndir eða útbúa matinn. Þetta er 100% mín vinna, minn vefur, mitt áhugamál. Við ykkur hin (95%) sem hafið verið svo kurteis, skemmtileg og yndisleg vil ég segja kærar þakkir. Það er ykkur að þakka að ég hef ekki skellt í lás og sagt bara "æi....nenni þessu ekki" Því vinnan er GRÍÐARLEG og oft uppsker maður ekkert nema þreytu og bauga undir augunum :)

Nöldri dagsins er lokið!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Kæra Sigrún.

Þetta var sannarlega þörf ádrepa og mikið skil ég þig vel. Ég hef notað vefinn þinn lengi og er mjög hrifin af honum. EKKI HÆTTA!

Ég nota uppskriftirnar þínar daglega og undrast alltaf hugkvæmni þína og ótrúlegan dugnað.

Kærar þakkir fyrir að verja tíma þínum og orku til að leiðbeina okkur sem höfum áhuga á hollu mataræði.

Bestu kveðjur.

Svanhildur.

Hrundski
13. feb. 2008

Já maður gleymir að þakka fyrir sig stundum. Vefurinn er bara frábær bíð bara eftir að þú gefir út bók eða bækur. Gætu verið margar bækur eftir flokkunum þínum hérna að ofan. Kjamms kjammms

Takk takks

Hrundski

Kristín
13. feb. 2008

Sæl Sigrún! Langaði bara að þakka þér fyrir vefinn. Hef notað hann mikið síðan mér var bent á þig fyrir ca.tveimur árum. Gott starf og ég finn verulega fyrir því þegar netið dettur út hjá mér....þá er ekkert hægt að gera nema sjóða ýsu því allar hugmyndirnar frjósa ef ékki er hægt að fletta í fjársjóðskistunni. Sem sagt takk fyrir okkur öll. Þetta framak þitt léttir okkur lífið og leiðina að betri heilsu án aukefna. Kveðja Kristín

gestur
13. feb. 2008

Hæ, hæ. ÞETTA var góður lestur, bara að segja amen á eftir efninu.

Ég fékk heiftarlega í hálsinn um daginn ég fékk mér heilsudr. frá þér og það svin virkaði er fin núna. Ég gríp alltaf í uppskriftir frá þér ef ég er í vandræðum. Bless mamma.

Alma María
15. feb. 2008

Sæl Sigrún

Þetta var góð lesning og þörf.

Takk kærlega fyrir vefinn :)

Ég er (eins og þú kannski veist) ein af dyggum notendum hans og þú ert alveg ótrúleg að leggja alla þessa vinnu á þig. Ég veit hvað þetta er mikið mál.

Líka vil ég þakka ykkur fyrir að "flytja" Caroline Reid til landsins. Ég hef ekki hlegið svona mikið í háa herrans tíð eins og á uppistandinu hennar. Það var einnig gaman að sjá þig í eigin persónu og ná að heilsa þér :)

Kær kveðja,

Alma María Rögnvaldsdóttir

CafeSigrun.com
15. feb. 2008

Þið þurfið engar áhyggjur að hafa enda ekki fólkið sem þetta blogg beindist að og allra, allra síst þið ofangreind :)

Alma það var svakalega gaman að hitta þig þó í mýflugumynd væri...ég var bara svo sein að kveikja á perunni, alveg svakalega slow stundum...sérstaklega með nöfn..ef þú hefðir sagt 'næring ungbarna' (hefði kannski verið skrítið samt að segja það he he) þá hefði ég kveikt strax en auðvitað fattaði ég hver þú varst um leið og þú sagðir allt nafnið þitt enda er ég alltaf að vísa á þig....og já takk fyrir að koma á Pam...þykir reglulega gaman að heyra að þér hafi þótt gaman (og vonandi manninum þínum líka :)

Melkorka
15. feb. 2008

Elsku Sigrún

Þú hefur reynst mér fáránlega vel. Ég skil vel að þetta starf taki mikinn tíma og orku. Takk fyrir að segja að þér sé farið að þykja vænt um suma notendurna. Mér er líka löngu farið að þykja rosalega vænt um þig. Ég vona að þú gefir einhvern tíman út bók. Ekki vantar efnið og svo ertu líka mjög skemmtilegur penni. Ég er ekki í neinum vafa að fólk myndi með mikilli gleði borga fyrir uppskriftabók frá þér, þar á meðal ég.

Sigrún
15. feb. 2008

Ha ha Melkorka...þú ert síðasta manneskjan sem þarft að þakka fyrir sig.....mín er ánægjan af samskiptunum í gegnum tíðina...það er varla til þakklátari notandi :)

Andrea Ævars
17. feb. 2008

Sæl Sigrún.

Ég er nemandi í bókasafns- og upplýsingafræði og sat fyrirlestur hjá þér síðastliðin fimmtudag.

Mig langaði að þakka þér fyrir mjög áhugaverðan fyrirlestur og frábæra síðu.

Ég nota hana mjög mikið og kem sennilega til með að nota hana ennþá meira þegar strákurinn minn fer að borða.

Kærar þakkir.

Andrea (þessi sem kom með barn í skólann :)

CafeSigrun.com
18. feb. 2008

Gaman að heyra frá þér Andrea (og líka gaman að heyra í stráknum sem var skemmtilegur þátttakandi í tímanum hí hí).

Guðrún
20. feb. 2008

Ég verð þú bara að skrifa hér smá.

Ég kíki alltaf hér inn annað slagið, því mér finns þú svo mögnuð. Einu sinni leitaði ég til þín og fékk svar um hæl, ótrúlegt!! Ég skil VEL að þetta sé MIKIL vinna, enda síðan rosaflott og mikil lesning.

Hafðu það gott

Guðrún