Kenya

Nakuru kaffihúsiðSumum finnst kannski skrítið að ég bloggi ekki meira um Kenya og ástandið þar. Ástæðan er svo sem einföld. Mér finnst alveg svakalega erfitt að hugsa um allt sem er að gerast og erfitt að koma því í orð.

Í dag var sett útgöngubann á Kenya eftir mikil átök í Nakuru sem er nálægt Sigdalnum mikla (Rift Valley). Myndirnar tvær hér efstar eru einmitt frá Nakuru og ég tók þær í júlí 2005. Þessi fyrir ofan er frá litlu kaffihúsi í Nakuru bænum og það glittir í bakið á Borgari og Steini syni hans. Það glittir í nefið á Mána bróður Steins þarna vinstra megin. Miðað við fréttaflutning er ekki víst að þessi staður standi enn þá. Hin myndin fyrir neðan er frá Nakuru vatninu þar sem milljónir flamengo fugla safnast saman ár hvert. Að horfa yfir bleika breiðu í sólarupprásinni er meira en ótrúlegt og ég held að þetta sé einn af uppáhaldstöðunum mínum í allri Kenya.

 Flamengo fuglar á Nakuru vatni

Hótelin við ströndina (við Mombasa) eru öll lokuð og allt fólkið sem við höfum kynnst á þessum árum og við heilsum á hverju ári með nafni er nú farið, flest til síns heima þar sem ekki bíður þeirra góðærið. Ferðamanniðnaðurinn er það eina sem fólkið hefur og ef ferðamennina vantar...þá er framtíðin ekki björt. Fyrir utan það að nú er lokað á háannatíma þegar fólkið er vant því að vinna inn mestu peningana til að geyma til mögru áranna.

Myndin fyrir neðan flamengomyndina er einmitt af Diani ströndinni. Stephanie sem vinnur fyrir Borgar er búin að tæma húsið sitt við ströndina og farin yfir landamærin með fjölskylduna sína. Hún er skíthrædd. Hún sendi okkur sms þar sem hún sat með tærnar í ylvolga, bláa sjónum og þar sem hún horfði út yfir þennan ótrúlega fallega sjóndeildarhring trúði hún ekki að hún þyrfti að flýja landið sitt...sem hún elskar.

Hvað verður um allt fólkið, alla vini okkar...Hvað verður um skrifstofuna hennar Steph (og Borgars)? Hvað verður um nýja bílinn hans Borgars? Hvað verður um Pálmatré á Diani ströndinni, Mombasahundana hennar Steph eða bátana hans Rolands? Hvað verður um Rashid í Mombasa og Danielle í Kaya (heilaga) skóginum? Hvað verður um fjölskylduna í skóginum í Nairobi sem ég gisti hjá óvænt? Hvað með húsið sem þau eru að byggja? Hvað með Nyumbani heimilið í Nairobi fyrir munaðarlausu börnin? Fá þau lyfin sín og mat? Hvað með Antony litla 7 mánaða sem ég hélt á í fanginu í febrúar? Hvað með Cornell bílstjóra eða Benson? Ég hef milljón spurningar og það er engin leið að vita hvernig hlutirnir þróast á næstu mánuðum eða árum.

Við sjáum endalausan fréttaflutning af átökum í öðrum löndum og auðvitað stinga þeir mann en mig grunaði aldrei að átök og fréttaflutningur af honum myndi tengjast okkur svona náið eins og núna. Kenya er fyrir okkur eins og Kanaríeyjar fyrir aðra...við förum þangað ár eftir ár og oft á ári.

Við förum til Rwanda og Uganda í febrúar og svo sjáum við hvernig ástandið verður í haust. Kannski einblínum við meira á Tanzaníu sem er meiriháttar land líka....en Kenya er sérstök að svo mörgu leyti.

Við hugsum bara sterkt til allra sem við þekkjum og verðum að vona það besta. Það verður skrítið að koma á flugvöllinn í Nairobi núna í febrúar. Þetta er prýðilegur flugvöllur svona miðað við allt og allt og við höfum komið milljón sinnum á hann en einhvern veginn hlýtur allt að vera öðruvísi núna. Ég vona bara að honum verði ekki lokað :( 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
26. jan. 2008

'Afram Kenya við förum til kenya eða tansaniu í haust, aldrei að gefast upp. Kv mamma

Hrundski
27. jan. 2008

Var einmitt hugsað til ykkar þegar ég sá þetta í frettunum - hræðilegt alveg. Vona að ástandið fari að lagast. Ég ætlaði nú alltaf í ferð með ykkur þangað einhverntíma...... :)

CafeSigrun.com
27. jan. 2008

Sko...þetta er einmitt fínt. Þegar Úlfur er orðinn nógu gamall þá verður ástandið orðið gott aftur...eða ég ætla rétt að vona það. Við förum bara til Tanzaníu í millitíðinni..nóg að gera þar og þið auðvitað velkomin með!!!