Hallelúja!

Vei vei vei. Bókin sem ég pantaði mér á Amazon var loksins að berast. Reyndar lét ég senda hana til Maríu vinkonu okkar í London sem sendi mér hana svo. Ég er ekki enn þá að skilja Tollinn hérna heima sem setur allar vörur í "sóttkví" og heimtar svo greiðslur fyrir...ekki séns að ég greiði fyrir svoleiðis rugl (einn af mörgum ókostum þessa lands er ég hrædd um). Þetta er merkileg bók því hún inniheldur hallelúja mat (heitir það...alveg satt) og er úr garði guðs (eða svo segir).

Ég hef mikið notað af þessum uppskriftum (allar súper hollar) en ég tek sérstaklega fram að ég er vita trúlaus... trúi hvorki á stokka né steina né nokkuð óáþreifanlegt, sérstaklega ekki jesú eða guð. Hallelúja uppskriftirnar eiga það sameiginlegt að vera nálægt hráfæði en fara samt ekki út í öfgar. Svo getur maður ráðið því hversu hráar uppskriftirnar eru þ.e. hvort maður vill t.d. baka kökur eða borða bara hráar kökur. Æðislegt. Svo koma gullmolar og sálmar inn á milli og maður á að verða svolítið heilagur á eftir og tengjast guði mjög mikið. Hef ekki mikið fundið því en uppskriftirnar eru samt skemmtilegar og ég hlakka til að gera fleiri uppskriftir úr bókinni.

Bókin sjálf er bara látlaus gormabók og með nokkrum svart hvítum myndum sem minna helst á myndir af költ-trúar hópum Bandaríkjanna...þið vitið þar sem einhver trúarleiðtogi hefur heilaþvegið heilu fjölskyldurnar og átt börn með þeim öllum, flippar svo og drepur alla meðlimi. Ok bókin er kannski ekki alveg svoleiðis en ég get ímyndað mér að fólkið á þeim sé svolítið heilaþvegið. Sérstaklega konurnar sem horfa stjarfar framan í myndavélina með eldfast mót í höndunum, með þykk, svört gleraugu, upprúllað hár, í tjullpilsi og blúndublússu. Myndirnar eru flestar í móðu sem eykur ennþá á Fred og Rosemary West áhrifin (raðmorðingjahjónin í Bretlandi sem drápu fjölmargar konur og grófu þær í garðinum og víðar).

Eitt sem vakti áhuga minn í bókinni (og jafnframt óhug)...á blaðsíðu 195 stendur..."O taste and see that the Lord is good"....(ó bragðið og sjáið að guð er góður)...(á bragðið þá?) hmmmm.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Tara
30. des. 2007

Ég hef stundum lesið hér á blogginu að þér finnst trú oft fara út í öfgar. Það er ekki allveg rétt, það fer t.d eftir því hvers konar trú það er. Ef það er eitthvað sem er farið út í öfgar það er það matarræðið þitt. Borðar ekki kjöt, ekki hvítann sykur. Enn það eru skiftar skoðanir um það

CafeSigrun.com
30. des. 2007

Ha ha...

Það væri mjög gaman ef þú gætir grafið upp nákvæmlega hvar ég hef sagt að trú fari út í öfgar. Ég vil helst fá bloggfærsluna og dagsetningu því þetta stemmir varla. Hallelúja mataræði fer reyndar oft út í öfgar (mataræðið sjáðu til) en ég hef reglulega gaman af því að lesa um mataræði þeirra. Það eina sem ég hef sagt varðandi trú er að ég hef enga....og það pirrar örugglega marga en það er mín skoðun. Ég hef aldrei svo ég viti talað meira um trúmál en það, hvorki öfgar né ekki öfgar því mér leiðast trúmál eins og stjórnmál og tala því sjaldnast um þau eins og notendur ættu að vita. Ég minnist stundum á trúarhópa eins og múslima, gyðinga, hindúa o.fl. en aðeins vegna mataræðis þeirra. Ég borða meira að segja oft á Govindas sem er matar- og trúarmiðstöð Hari Krishna í London. Frábær grænmetismatur á góðu verði...en ég hef samt enga trú. Ástæðan fyrir því að ég tala um mismunandi trúarhópa (alltaf í samhengi við mat og mataræði) er að ég hef a) áhuga á alls kyns mataræði og það tengist oft trúarhópum og b) eftir að hafa búið í London í 6 ár, getur maður ekki annað en minnst á þennan fjölbreytta hóp fólks. Aldrei hef ég þó talað niðrandi um trú annarra...kannski lagt spurningarmerki við hitt og þetta en aldrei niðrandi.

Ég hef aldrei annað sagt en að ég sé furðuleg varðandi mataræði (svona miðað við flesta) og það er meira að segja yfirlýst "stefna" hjá mér eins og hægt er að lesa á fyrstu línum vefjarins. Hins vegar eru til MUN meiri öfgar og má þar nefna hráfæði, vegan, macrobiotískt o.fl. fæði. Ég get seint talist öfgamanneskja. svolítið ýkt kannski en ekki öfgamanneskja.