Spítalabíómynd

Fyrir rúmu ári síðan minntist ég á í blogginu mínu að verið væri að taka upp bíómynd á spítalanum þar sem aðgerðin á hnénu var gerð 2005. Myndin reyndist svo vera Eastern Promises sem er í bíóum núna. Spítalanum var lokað viku eftir aðgerðina mína (starfsemin var flutt) og á að gera húsnæðið að íbúðum enda á frábærum stað í borginni. Spítalinn var í 5 mínútna göngufæri frá íbúðinni okkar (við endann á Goodge Street) og við löbbuðum fram hjá honum á hverjum degi árin sem við bjuggum á þessum stað. Spítalinn tilheyrði University College London Hospital.

Nú eins og áður sagði var verið að taka upp bíómynd á spítalanum fyrir rúmu ári síðan. Það voru trailerar, flutningabílar, ljósabílar o.fl. fyrir utan spítalann eiginlega allan hringinn utan um hann (og hann er STÓR). Skilti voru á innganginum (minnir að hafi staðið Covent Garden Hospital eða álíka) en heiti spítalans var breytt í myndinni. Ég hef ekki séð myndina en hún er víst mjög góð...og svolítið drungaleg en þessi spítali er einn sá aldraugalegasti sem ég hef nokkurn tímann stigið fæti inn á. Alls staðar voru perur blikkandi eða bilaðar, veggirnir voru drullugir með grænni og brúnni málningu, alls staðar var eitthvað sem hefði gjarnan þurft að laga (flísar dottnar af veggjum, hurðarhúnar dottnir af, rúður brotnar) og það voru afar fáir sjúklingar (enda var verið að loka spítalanum).

Við heyrðum á sínum tíma að Viggo Mortensen væri viðriðinn myndina og það reyndist rétt því hann leikur eitt aðalhlutverkið.

Svo bíðum við spennt eftir því að sjá Penelope (heimasíða Internet Movie Database) en hluti úr þeirri mynd (sem Reese Witherspoon og Christina Ricci, Richard E Grand og fleiri leika í) (úr blogginu mínu) var einmitt tekinn upp beint fyrir utan íbúðina okkar...(úr blogginu mínu) og ég meina beint fyrir utan því það var Aaaaand-Action (líka úr blogginu mínu) allan daginn!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It