Veiii við mundum eftir því!

Eða sko...réttara sagt Jóhannes mundi eftir brúðkaupsafmælinu okkar í dag. Ég var búin að steingleyma því eins og venjulega. Það eru 4 ár síðan og ég hef ekki munað eftir því í eitt einasta skipti. Ég er voðaleg ég veit....Við munum það samt yfirleitt nokkrum dögum seinna. Eins og ég hef örugglega áður sagt kostaði okkar athöfn 75 pund (giftum okkur í Englandi) og við fengum okkur grillaða samloku á Starbucks í tilefni dagsins. Fórum reyndar á sushistað ef ég man rétt (en við fórum um það bil einu sinni í viku svo það er ekkert að marka). Eins og ég hef líka sagt áður var það nákvæmlega svona sem við vildum hafa það því mér leiðist alveg voðalega tilstand og tilkostnaður (hjá sjálfri mér þó ég geti samglaðst öðrum sem vilja leggja í það....it's just not me).

Jóhannes kom mér samt ansi mikið á óvart í gær. Verð nú að viðurkenna það. Við höfum hvorugt rómantískt gen í okkur. Það er bara ekki til. Mér fyndist asnalegt að fá blóm frá Jóhannesi og honum fyndist jafn asnalegt ef ég gæfi honum blóm. Ef hann myndi semja ljóð myndi ég sennilega öskra úr hlátri. Jóhannes hringdi í mig í gær og sagði "ég keypti svolítið því ég mundi eftir brúðkaupsafmælinu okkar". "Ó sagði ég...er það í dag?" "Nei á morgun". "Já frábært" sagði ég......"keyptirðu kannski tölvubox" (hann var búinn að tala um að það vantaði svoleiðis). "NEIIII"...."En tölvusnúrur....." spurði ég. "NEIIIIII" sagði Jóhannes frekar móðgaður. "Ok" sagði ég og var samt viss um að hann hefði keypt eitthvað tölvudót. Hann sannfærir mig nefnilega stundum um að það vanti 'nauðsynlega' hitt og þetta sem væri bara svooooo sniðugt en svo fer ég að yfirheyra hann og þá kemur oft í ljóst að það sem 'vantar' og það sem 'hann langar að fikta í' er allt annar handleggur.

Nú svo komum við heim í gær og þegar ég kom inn um dyrnar var stór kassi á gólfinu. Í kassanum var hvorki meira né minna en Kitchenaid matvinnsluvél (mín er reyndar í kremuðu) eins og mig er búið að langa í alveg svakalega lengi en aldrei tímt að kaup mér. Ég varð voðalega, voðalega glöð. Jóhannes sagði að hann hefði horft á mig um daginn þegar ég þurft að ríghalda í gömlu drusluna mína á borðinu því hún hoppar og skoppar út um allt borð og af því að ég mala oft mikið í einu þá tekur það langan tíma og subbuskapurinn er rosalegur. Jóhannes ákvað þá að þetta gengi ekki lengur. Hún hitnar líka svolítið mikið og oft er brunalykt (mér finnst það reyndar fínt því mér er alltaf kalt á höndunum...). Ég hef reyndar oft bölvað í hljóði og tuldrað eitthvað að þetta væri glatað en mér datt ekki í hug að kaupa nýja matvinnsluvél, sérstaklega ekki svona græju eins og Kitchenaid. Ég er nefnilega mjög meðvituð um það að fólk á almennt ekki góðar græjur og þess vegna veit ég að allar uppskriftirnar mínar er hægt að gera með ódýrustu græjunum sem eru alveg að hrynja í sundur. Að eiga góðar græjur er bónus en ekki nauðsynlegt! Ég er svo rosalega nýtin og tími aldrei að kaupa mér neitt og Jóhannes vissi það svo sem....svo hann tók af skarið. He knows me too well.

Elva vinkona þurfti svo auðvitað að benda á að Jóhannes væri mjög snjall.....hann vissi alveg hvað hann væri að gera því þetta þýðir bara meira fyrir hann að smakka og borða. Þar fór rómantíkin :) (en ég er samt voðalega glöð).

Annars er lítið að frétta, mikið að gera í vinnunni (vorum að flytja í stærri og betri skrifstofu í miðbænum þar sem við vorum reyndar fyrir og aðeins um 300 metrar á milli gamla og nýja staðarins en merkilegt nokk þá styttist labbið í vinnuna...ég áætla að ég sé um 1 mínútu að labba í vinnuna). Það er aðeins vika í að við verðum í Nairobi (akkúrat eftir viku verðum við reyndar í London en erum þá að fara áleiðis til Nairobi)! Já og svo er ég búin að vera á fullu að útbúa nokkrar uppskriftir til að senda á póstlistanum og vonandi get ég það um helgina.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
31. ágú. 2007

Hæ það ætti að vera hægt að gera margt í þessari vél , en hvað ætli Jóhannes gefi þér þegar þið haldið uppá 45 ára bruðkaupsafmælið eins og við pabbi þinn gerum um jólin?.Kv m.

Hrundski
31. ágú. 2007

Til lukku með brúðkaupsafmælið. Ég er eins og þú fæ martraðir að hugsa um brúðkaup og undirbúninginn sérstaklega :p

Mundu nú bara að setja ekki sjóðandi bláberjamauk í maskínuna hahahaha reyndar er fjólublár í tísku og vissum að eldhúsið yrði bara smart í lillabláu.

En ég er stolt af þér að ná að hemja hann í snúru- og græjukaupum – áttu ekki ráð handa mér??? Er ráðþrota og hérna safnast upp þvílíkt rafmagnsdrasl, ég gæti opnað búð á Tottenham Court Rd.

CafeSigrun.com
31. ágú. 2007

Ég þurfti að fara 4 umferðir á eldhúsið og ég er komin með ofnæmi fyrir fjólubláum lit og fælni gagnvart bláberjum :) Sko ef Tolli borðaði afraksturinn úr t.d. matvinnsluvél þá væri hann líklegri til að kaupa eitt slíkt tæki þ.e. hann verður að sjá ávinninginn af því...svona eins og Joe. Hef sagt það áður að Tolli er lost cause :)