Styrkur til Born Free

Við styrktum Born Free samtökin um 20 pund áðan og báðum um að styrkinn færi til górillanna í Congo. Það er svo sem dropi í hafið miðað við hvað samtökin þurfa til að hlúa að verndun dýra. Meðal mála sem eru á borðunum hjá þeim núna er að stuðla að betri verndun górillanna en einnig að bjarga ljónum úr hörmungaraðstæðum í Rúmeníu. Þau eru lokuð í viðbjóðslegum dýragarði. Það á að banna dýragarða..með öllu. Það er engin afsökun að segja "já en börnin verða að sjá dýrin einhvers staðar". Það á ekki að kenna börnum það að það sé í lagi að horfa á dýr í búrum. Leigið frekar allar David Attenborough myndir sem til eru, kaupið bækur og SAFNIÐ (þó það taki mörg ár) fyrir ferð til framandi landa þar sem börnin komast í návígi við dýrin í sínum náttúrulegu heimahögum. Það er álíka dýrt að fara til Spánar í 2 vikur eins og að fara til Afríku í 10 daga og á 10 dögum getur maður gert helling. Það má geyma að kaupa hjólhýsið eða enn þá dýrari jeppa í smá tíma. Einnig má hætta að reykja eða hætta að drekka áfengi. Það má endalaust hliðra til ef maður vill það. Við erum að safna fyrir górilluferð í febrúar og það er hrikalegt til þess að hugsa að það sé búið að drepa 1% af dýrunum sem við ætlum að skoða. Dýrin höfðu öll nöfn og voru hluti af heilli fjölskyldu. Við erum dugleg að leggja til hliðar og stundum þurfum við að fórna einhverju sem okkur langar í til að við getum örugglega farið. Það er samt þess virði.

Ég hef verið á móti dýragörðum í 20 ár og hef ekki stigið fæti inn fyrir slíkan í þennan tíma. Ég les hins vegar mikið um dýragarða og aðbúnað dýranna. Sem er til skammar. Það er engin tign yfir því að horfa á dýr í búri. Engin. Dýrin eiga skilið virðingu. Leggjum okkar af mörkum og styrkjum samtökin Born Free eða önnur álíka samtök. Farið ekki með börnin ykkar í dýragarða og útskýrið hvers vegna það er rangt að horfa á dýr í búrum. Nú fæ ég eflaust skammir frá foreldrum sem segja mér að það sé lítið annað hægt að gera í útlöndum en mér er alveg sama. Þetta er mín skoðun og það sem ég trúi á.

P.s. Gætið þess að rugla ekki saman 'animal sanctuary' og dýragarði því á fyrrnefnda staðnum er hugað að velferð dýranna og þau eru yfirleitt inni í risastórum girðingum með eins litlu af mannlegum afskiptum og mögulegt er. Þetta eru yfirleitt garðar sem bjarga dýrum úr slæmri vist og hlúa að þeim. Þetta er ekki það sama og dýragarður og 'animal sanctuaries' styð ég heilshugar enda hef ég heimsótt mörg slík í Afríku.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Barbietec
10. ágú. 2007

Hmm..

mér finnst snúa svolítið skökku við að heyra þetta um dýragarðana frá manneskju sem átti hesta í mörg ár :)

Ekki finnst mér hestar t.d hafa mikið athafnarpláss í hesthúsum hjá almenningi hér á Íslandi og þeir dýragarðar sem ég hef heimsótt hafa mun meira pláss fyrir dýrin en hestar hafa hér á Íslandi allt árið um kring.

Dýragarðar eru mismunandi, ég veit t.d um einn gíraffa sem fæddist fatlaður í einum slíkum og af því að hann er í dýragarði þá lifir hann góðu lífi, en hann væri löngu dauður ef hann hefði verði út í náttúrunni.

Það er líka munur á dýragörðum nú og fyrir 20 árum, þegar dýrin voru í rimlabúrum. Núna aftur á móti er maður heppinn að sjá þessi dýr á vappi þar sem athafnarsvæðið er svo stórt að það getur verið erfitt að koma auga á þau.

Sjáðu svo líka bara húsdýragarðinn, ég trúi ekki öðru en það sé hugsað MJÖG vel um dýrin þar en það er okkar íslenski dýragarður.

Það er ekki hægt að segja að allir dýragarðar séu ekki dýrum bjóðandi og við eigum bara að skoða myndir af þeim í bókum og í sjónvarpi. Þú hlýtur að viðurkenna það að það er margfalt meiri upplifun að heimsækja Afríku en að skoða heimilidarmyndir.

p.s ég veit þú hugsaðir svakalega vel um hestana þína, ekki misskilja mig, en mér finnst bara þeirra aðstaða líkjast mjög mikið "að vera í búri"

CafeSigrun.com
10. ágú. 2007

Jamm. Ég seldi hesthúsið mitt og ein af ástæðunum fyrir því að við höfum ekki enn þá fengið okkur hesta aftur eftir að við fluttum heim (eða að mínu leyti) er að ég á erfitt með og get ekki lokað þá inni. Mig langar helst að hafa jörð og opinn aðgang að hestunum mínum. Ég er á móti því að loka dýr í búrum...

Gíraffinn átti ekki að fæðast í dýragarði að mínu mati...ég er hlynnt því að náttúran fái að stjórna og þó það sé hrikalegt að segja það, hefði hann átt að vera matur ljónanna því þannig er gangur lífsins. Það er ömurlegt að vera fatlaður gíraffi í dýragarði eða mér finnst það. Hins vegar hefði gírafinn alveg mátt lifa en hann hefði þá átt að vera í 'animal sanctuary' alveg hiklaust.

Það er mjög vel hugsað um húsdýragarðinn og dýrin þar..ég þekki stelpu sem var að vinna þar og dýrin fá meira að segja 'frí' öðru hvoru sem er frábært. Það er líka reglulega skipt um dýr. Það er í sjálfu sér allt í lagi.

Þeir dýragarðar sem eru verstir eru þeir dýragarðar sem tilheyra ekki evrópska efnahagssvæðinu því þar gilda engin lög (t.d. Kína). Enda er á stefnuskránni að loka t.d. verstu dýragörðunum í Rúmeníu. Mér er alveg sama hversu flottur dýragarður er...ef dýrið er í búri, er það ekki í sínum náttúrulegu heimkynnum og mér finnst það niðrandi.

Mér finnst flott að það séu 'verndargarðar' fyrir dýr en ég er hörð á því að maður eigi að fara sjálfur til Afríku og upplifa dýrin (og safna peningum) þar en sleppa dýragörðunum (þar sem eru búr og rimlar) alveg nema um sé að ræða verndardýragarða (þar sem erfitt er að koma auga á dýrin). En það er bara mín skoðun.

Það er mikilvægt að rugla ekki saman 'verndunargarði' eða animal sanctuary og svo dýragarði. Mér finnst persónulega eiga að loka öllum dýragörðum en nota peninginn í þeim mun fleiri verndargarða þar sem dýrin fá meira pláss. Mig minnir að sé einn svoleiðis á Jótlandi?

Ég man eftir því þegar Borgar bróðir fór í górilluferð og var að segja mér frá ferðinni og stuttu áður (ég var um 14 ára) hafði ég verið að skoða górillu í búri í Kaupmannahöfn. Hún var svooo sorgmædd og hreyfði sig varla..þetta tignarlega dýr. Ég skildi þá hvað hann var að tala um og hef skilað það síðan.

CafeSigrun.com
10. ágú. 2007

Íslenskir hestar hafa það reyndar ágætt á sumrin því þeir hlaupa frjálsir frá vori og fram á vetur eða í um það bil 6 mánuði þannig að það er ekki alveg rétt að segja að þeir hafi lítið pláss 'allt árið um kring'. Sama er...mér finnst ekki rétt að loka þá inni í 6 mánuði :)

Jóhannes
10. ágú. 2007

Mér finnst nú reyndar líka töluverður munur á húsdýrum og svo villtum dýrum. Górillur og gíraffar teljast víst seint til húsdýra :)

gestur
13. ágú. 2007

Dýr sem eru höfð til sýningar td. fílar þar er sko meðferð sem ekki er hægt að mæla með en hestar eru húsdýr og allt annað að hafa þá á húsi enda vel hugsað um þá. Kv. Mamma