Máli máli

Í hvert skipti sem ég mála heima hjá okkur þá verð ég latari við að skrifa blogg. Ástæðan fyrir því er að fingurnir á mér eru nógu stífir eftir 8-12 tíma vinnudaga og ef maður er að mála til viðbótar við það...verður maður ansi stífur í fingrunum. Ég er með stífustu fingur í heimi...meira að segja er ég svona partítrikk þ.e. þegar ég sýni hvað fingurnir eru stífir þá hlægja allir og segja "ha ha það getur ekki verið" en það er samt satt. En það er samt gott að vera búin að mála herbergið og núna er mosagræni, ljóti liturinn farinn af gestaherberginu og ljós, antíkhvítur litur kominn í staðinn. Svo er ég búin að lakka loft og gólflista og við höfum sofið ansi djúpt síðustu nætur. Jóhannes setti líka í framkvæmdagírinn og hann kíttaði í rifur á panilnum og pússaði líka eldhúsborðið ljóta og bar á það svo núna er það eins og glænýtt. ALLT annað líf og ég tími varla að nota það.

Annars hefur lítið markverst átt sér stað síðustu daga. Eitt atvik gerðist þó í síðustu viku og það var mjög furðulegt, ekkert merkilegt en mjög furðulegt. Sko. Það var þannig að ég og Jóhannes vorum í 10-11 Austurstræti því okkur vantaði eitthvað smálegt og áttum leið hjá. Við stóðum í röð við kassann, ég fyrir framan Jóhannes. Við kassann er strákur að borga fyrir sín innkaup. Þessi strákur er þekktur leikari. Þegar strákurinn var að ganga frá greiðslu, snýr hann sér hálfpartinn við þannig að hausinn snýr beint á mig og hann horfir og eiginlega starir beint í augun á mér (ekki fyrir aftan mig og ekki fyrir ofan og ekki til hliðar heldur BEINT í augun á mér). Hann horfði það lengi að ég þurfti að líta undan....þetta var orðið óþægilegt. Maður horfir yfirleitt ekki í augun á fólki sem maður þekkir ekki (maður er drepinn fyrir minna í sumum stórborgum), 1-2 sekúndur horfir maður í mesta lagi í augun á fólki sem maður þekkir en að horfa 6-8 sekúndur í augun á einhverjum sem maður þekkir ekki neitt er rosalega langur tími. Aldrei þessu vant var ég ekki með sólgleraugun á mér. En já hann sem sagt horfði (og maður hugsar hmmm...hvað setti ég nú framan á mig...sem er mjög rökrétt pæling hjá mér miðað við hversu mikill klaufi ég er og ég var nýbúin að drekka kaffi líka og hefði alveg getað hellt niður). En já strákurinn er enn þá að horfa, svo kemur eins og smá bros í hægra munnvik og hann lítur undan. Þetta var SVOOO furðulegt. Þegar við komum út hélt ég kannski að Jóhannes hefði ekki tekið eftir neinu og ég muldraði "voða var þetta furðulegt" og Jóhannes sagði strax "JÁ....eiginlega...var að spá í spyrja hann: heyrðu félagi.....easy does it" ha ha. Hann gerði það samt ekki og fannst þetta bara fyndið...en líka furðulegt. Þetta sat samt lengi í mér því maður er svo óvanur því að horft sé í augun á manni... Það er líka svo margar spurningar sem maður hefur. Kannski fékk hann bara störu og þurfti að stara hana út en það var samt eins og það væri eitthvað að veltast um í hausnum á honum...Kannski minnti ég hann á einhvern...hmmm.

Anyways það sannaðist hversu mikill klaufi ég er í gær...Jóhannes dró mig fram í eldhús og spurði: "Sigrún...hvers vegna er málning á kaffimalaranum mínum????". Jóhannes verður aldrei reiður sem betur fer svo ég þurfti nú ekki að verða miður mín en ég er enn þá að reyna að átta mig á því hvers vegna það er málning á kaffimalaranum þar sem a) ég var að mála í gestaherberginu og b) kaffimalarinn er í eldhúsinu og c) ég snerti hann aldrei dags daglega, hvað þá með pensil í höndunum. Ég hef ótrúlega hæfileika í að hella niður málningu og yfir höfuð reka mig í allt sem hægt er að reka sig í með pensli svo það er eðlilegt að Jóhannes hafi haft sínar grunsemdir en ég er enn þá að reyna að átta mig á þessu með malarann sko.......Furðulegir dagar!

Framundan er ganga næstu helgi með bakpoka og tjald og hollt nesti og hollan útilegumat. Jibbí.

(p.s. kaupið aldrei tilbúinn mat í pokum sem seldur er í útivistarbúðum..það er hollara að borða málningu og jafnvel svolítið kítti með). Það er ekkert mál að útbúa hollan útilegumat/göngumat og það eru fullt af hugmyndum hér á vefnum!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Korinna
20. jún. 2007

Sigrún! mig bráðvantar uppskrift af rabarbaraböku! ertu með eina slíka í felum einhversstaðar? TAKK!

CafeSigrun.com
20. jún. 2007

Hér er ein:

2 bollar (miðað við 250 ml bolla) spelti

1 bolli mjólk

2 mtsk kókosfeiti

1 egg

4 mtsk ávaxtasykur eða xylitol

1 tsk vínsteinslyftiduft

1 tsk sítrónusafi

1 tsk vanilluduft eða dropar

Klípa af heilsusalti

1 1/2 bolli rabbarbari, saxaður í fína bita

Aðferð:

Blandið saman spelti, salti og vínsteinslyftidufti í stóra skál. Blandið saman mjólk, vanilludropum eða dufti, kókosfeiti, eggi, ávaxtasykri og sítrónusafa í annarri skál. Blandið þessu varlega saman við speltið. Setjið í form (23 cm x 30 cm cirka) sem búið er að klæða með bökunarpappír og bakið

við180°C í um 45 mínútur eða þangað til tilbúið. Gott er að nota t.d. skyrkrem á kökuna (blanda saman hreinu skyri, 1 tsk af agavesírópi og nokkrum döðlum sem hafa legið í sjóðandi vatni í smástund í blandara. Láta stífna smástund í ísskáp og bera svo á kökuna).

CafeSigrun.com
20. jún. 2007

Hæ Korinna. Datt í hug að þú myndir vilja bæta aðeins við sykurinn, mundi eftir því að síðast þegar ég gerði kökuna fannst mér að hún hefði mátt vera sætari. Ég myndi held ég nota 1/4 bolla (100 gr cirka)

Korinna
25. jún. 2007

ég sétti einnig 1 bolli haframjöl í deigið og ég sétti fyrst rabarbarann í formið og mýslaði svo deigið yfir. Þetta var frábær köku hjá mér, fengum okkur rjóma með! algjör miðsommarsælgæti :-) TAKK!

CafeSigrun.com
25. jún. 2007

Frábært að heyra Korinna!