Tónleikar

Veiiii erum að fara á tónleika með Björku þann 9. apríl næstkomandi. Jóhannes hefur lengi langað að fara á tónleika með henni og ég hlakka reyndar líka til þó ég sé ekki æstur aðdáandi. Síðustu tónleikar sem við sóttum, á Íslandi, voru tónleikar með Sigurrós og ekki á Klambratúni, ó nei. Það voru tónleikar í MS (Menntaskólanum við Sund) fyrir um 10 árum síðan áður en þeir voru heimsfrægir (og ekki einu sinni frægir á Íslandi). Ég man ég sat alveg þrumu lostin því ég hafði aldrei heyrt svona magnaða tónlist áður, hún algjörlega dáleiddi fólk í salnum. Ég man þegar ég heyrði þá taka 'dánarfregnir og jarðarfarir' og 'bí bí og blaka' að hér væri alveg uppáhaldshljómsveitin mín komin (fyrir utan U2 auðvitað). Þegar við sögðum fólki frá tónleikunum eftir á lá við að við þyrftum að stafa nafnið á hljómsveitinni. Sú var nú tíðin.

Síðustu tónleikar sem við fórum á voru reyndar í London með Georg Michael. Það voru alveg fínir tónleikar.

Af öðru.....Ég fór áðan í Pipar og Salt sem er ásamt Kokku uppáhaldsbúðin mín í Reykjavík, þær eru æðislegar. Svo er auðvitað Þorsteinn Bergman algerlega frábær búð og þangað fór ég áðan. Þar var gömul, fín kona sem hringdi fyrir mig til að spyrjast fyrir um dót sem ég var að leita að. Hún var í blómapeysu, prjónaðri og hringdi úr gömlum, svörtum síma (unglingar í dag vita ekki einu sinni hvernig svona símar líta út he he, en þeir voru til í gráu líka, algerir hlunkar og með snúningsskífu). Konan var æði.

Svo kíkti ég í litlu heilsubúðina á horni Klapparstígs og Njálsgötu. Ég spurði manninn þar hvernig stæði á því að þeir væru ódýrari en stærri heilsubúðir (margt af því sem þeir eru með er töluvert ódýrara). Hann svaraði "ja sko....við rekum búðina með hugsjón.....ekki hagnaði". "Við eigum hugsjón, hinir eiga hús á spáni". :) Fannst það gott tilsvar hvort sem það er satt eða ekki. Það virkaði allavega einlægt!

Nú fer eldhúsið að komast í gang bráðum og uppskriftir að streyma inn á vefinn (vonandi allavega). Kitchenaid hrærivélin er allavega komin upp á borð, veiiiiii.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Helena
03. apr. 2007

Er heilsubúðin ódýrari en hornið í fjarðarkaup? :) Hlakka til að skoða hana, hef aldrei komið þangað.

joe
03. apr. 2007

Hmmm, veit ekki hvort hún er ódýrari en Fjarðarkaup,þarf ekki að vera, hef ekki kannað það enda er ég í 101 svo allar "verðkannanir" miðast við það svæði he he. Þessi búð er alger míkróbúð þ.e. ponsulítil en starfsfólkið er þægilegt (eins og reyndar í flestum þessum búðum) og það er gaman að hafa valið!