Komin á kaggann

Jæja, þá erum við komin á kaggann. Við vorum búin að gefa bílinn upp á bátinn því eigandi bílsins fór í fýlu þegar við fórum með hann í ástandsskoðun (og komum til baka með lista af atriðum sem þurfti að laga). Af því að eigandinn fór í fýlu ákváðum við að hugsa ekki um þann bíl meira og fórum í að leita út um allt að svipuðum bíl. Í gær hringdu þeir svo aftur í okkur frá Bílasölu Reykjavíkur og þá var eigandinn búinn að láta laga hluta af því sem þurfti að laga og vildi selja okkur bílinn og lækkaði verðið um það sem átti eftir að laga. Það eina sem þarf að laga eru driflokur að aftan (sem maður notar eiginlega aldrei) þannig að við vorum bara sátt. Vil endilega benda ykkur á Bílasölu Reykjavíkur upp á Höfða (held þeir heiti Grétar og Guðmundur strákarnir þar). Þeir voru ótrúlega liprir og þægilegir, ekki með neinn kjaft og reyndu eins og þeir gátu að hjálpa okkur. Voru alveg miður sín þegar eigandi bílsins fór í fýlu. Við fórum á magar bílasölur og þessir voru lang bestir og margir hreinlega ruddalegir (er ekki að auglýsa neitt þ.e. þekki ekki þessa menn neitt né hef einhver tengsl við bílasöluna). Nú þarf ég bara að fara að gróðursetja tré til að stemma stigu við koltvísýringslosun úr bílnum. Ég þarf að gróðursetja 1400 tré á ári samkvæmt vefsíðu Orkusetursins.  miðað við 10 þúsund kílómetra akstur. Held ég gefi samt peningana til Skógræktarinnar frekar en að reyna sjálf því ég drep allt sem kvikt er (þ.e. plöntur, ekki dýr né menn). Ég get ekki einu sinni haldið lífinu í kaktusum. Það er nú ekki mjög umhverfisvænt.

Við erum annars frekar pirruð á Vodafone þessa dagana. Þeir taka 5-10 VIRKA daga í að tengja bæði heimasíma og Netið. Hvað er eiginlega málið? Þetta á að taka 2-3 daga í mesta lagi (og meira að segja í London þá tekur heimasíminn 2-3 daga)? Við erum alveg viðþolslaus af netleysi (enda vinnum við oft alls kyns vinnu á kvöldin á Netinu). Við slefuðum inn á þráðlaust net hjá einhverjum íbúa í nágrenninu og sátum eins og hænur á priki út í glugga þar sem við biðum í ofvæni eftir því að ein síða hlæði sig niður (28 bita módem einhver???) en gáfumst að lokum upp. Kannski gott á okkur að vera ekki með Netið heima...maður verður alveg háður því. Yfirleitt er það nú vinna frekar en skemmtun og svo sem ekkert verra að hanga yfir vinnu frekar en að glápa á sjónvarpið. Verð samt að segja að sá sem við höfum talað mest við þarna hjá Vodafone er mjög almennilegur og þolinmóður (held hann heiti Ingvar) þó við séum að rífast endalaust í þeim.

Það er annars alveg hellingur af drasli sem við þurfum að losna við ódýrt eða gefins: Ég á nú eftir að blogga nánar um það en fyrsta uppkast lítur svona út:

  • Bókahilla (Billy)
  • 2 geisladiskastandar
  • 180cm x 200cm rúm (í sveitastíl), gegnheil fura úr TM húsgögnum. Hægt að taka í sundur
  • Borðstofuborð (voða einfalt, spónlagt, ljós fura)
  • 4 stólar úr ljósri furu (svona eldhússtólar)
  • Lítið kaffiborð (úr ljósri furu)
  • Pinkulítið eldhúsborð (75 x 75cm eitthvað svoleiðis)
  • Sjónvarp ("21 held ég) (ekki flatur skjár he he)
  • 2 stór tölvuborð (eins og eru á skrifstofum)
  • 1 lítið tölvuborð (svona eins og fyrir prentara)
  • Og alveg örugglega hellingur af öðru dóti 

Kannski að maður hafi bara 'bílsskúrssölu'. Aldrei að vita hvað fólk vantar. Eins og sést er ég að losa okkur við megnið af Ikea dótinu okkar. Er svo reið út í þá fyrir að hafa skemmt hraunið í Garðabæ að ég ætla að forðast eins og ég get að kaupa eitthvað af þeim. Týpískt, svo endar maður alltaf í Ikea því það er erfitt að fá eitthvað ódýrara :( En ætla samt að reyna að fara ekki. Við eigum hvort eð er ekki stóra íbúð og þurfum að losna við dótið.

Jeminn hvað ég hlakka til að fá safapressuna og allar uppskriftabækurnar mínar sem eru núna að sigla yfir Atlantshafið víííí :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Eygló frænka
20. mar. 2007

Hæ hæ Sigrún og velkomin á klakann (bókstaflega)!! Éf þið eruð ekki búin að losa ykkur við sjónvarpið þá er ég alveg til í að aðstoða ykkur við það...annars erum við nágrannar, ég bý á Grettisgötunni alveg á hinum endanum við Snorrabraut! Endilega hafðu samband, síminn er 820 0811... Bæ Eygló.

CafeSigrun.com
20. mar. 2007

Hæ Eygló, gaman að heyra frá þér. Ég bjalla á þig þegar dótið er komið í hús :)